Fréttir

Afleiðingar hlýnunar Jarðar

Margrét  Hugadóttir    28.11.2017
Margrét Hugadóttir

Styrkur gróðurhúsalofttegunda, eins og koltvísýrings, metans, o.fl., í andrúmslofti ræður miklu um hitastig á jörðinni, því þessar lofttegundir hindra að varmi sem endurkastast frá yfirborði jarðar fari út í geim, þ.e.a.s. mynda nokkurskonar þak eins og í gróðurhúsi. Þetta fyrirbæri kallast gróðurhúsaáhrif og án þeirra væri meðalhiti á jörðinni um 30 gráðum minni en nú er, eða um -17°C sem væri of kalt fyrir okkur til að lifa hér. Þegar styrkur gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti eykst þá hlýnar á jörðinni. Þær loftslagsbreytingar sem nú eru að verða eru að mestu raktar aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda vegna athafna mannanna. Þar skiptir mestu brennsla jarðefnaeldsneytis (kola, olíu og gass) en einnig breytingar á landnotkun, ekki síst skógar- og landeyðing.

Loftslagsspár Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) gera ráð fyrir að hlýnun verði á bilinu 0,3-4,8°C fram til loka þessarar aldar, mest á háum breiddargráðum næst heimskautunum. Þessi hitamunur skýrist af því að spálíkön sem segja til um hlýnunina ganga út frá mismunandi forsendum um aukinn styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti af mannavöldum og mismunandi forsendum um þróun mála hvað varðar athafnir og aðgerðir okkar til að draga úr styrk þeirra.

Það er í raun ósköp eðlilegt að fólk, sem býr í köldum löndum eins og á Íslandi, hugsi að hækkun hitastigs um einhverjar gráður geti kannski bara verið ágæt. Spár vísindamanna benda þó til annars. Fari meðalhiti yfir 2°C er talið að alvarlegar og hættulegar breytingar verði á eðlisrænum og líffræðilegum þáttum sem aftur hafi mikil neikvæð áhrif á efnahag og samfélög manna um allan heim.

Þannig muni jöklar og hafís minnka og yfirborð sjávar hækka, með þeim afleiðingum að stór láglend landsvæði myndu sökkva, eins og hluti af Bangladesh, Hollandi og Flórída, og margar litlar úthafseyjar (Small Island States).

Vegna aukinnar upptöku koltvísýrings í hafi vegna aukins styrks hans í andrúmslofti er sjórinn að súrna. Afleiðingar þess fyrir lífríki hafsins gætu orðið geigvænlegar, sérlega fyrir lífverur sem treysta á kalk til að mynda stoðkerfi sín, en fiskar og aðrir nytjastofnar gætu einnig liðið fyrir þetta.

Loftslagsbreytingar hafa þau áhrif, bæði á sjó og á landi, að kjörbúsvæði lífvera færast til og lífverurnar eru misvel í stakk búnar að aðlagast slíkum breytingum. Ljóst er að þetta mun valda tilflutningi tegunda og þá eiga þær tegundir sem eru hreyfanlegar meiri möguleika á aðlögun en margar aðrar. Sumar hafa þó ekkert nýtt athvarf þar sem búsvæði þeirra hreinlega hverfa eða verða þeim óbyggileg vegna t.d. hitastigs, fæðuskorts eða aukinnar samkeppni. Einnig geta svæði, sem notuð eru til fæðuöflunar, horfið eins og tilfellið er með ísbirni en þeir reiða sig á hafísbreiður til selaveiða.

Öfgar í veðri hafa einnig verið tengdar við loftslagsbreytingar eins og flóð, úrkomubreytingar og aukinn styrkur fellibylja. Þá munu mörg þurr svæði í heiminum verða enn þurrari og eyðimerkurmyndun þar með aukast. Afleiðingarnar af þessu öllu yrðu miklar fyrir mannkynið og fjöldi umhverfisflóttamanna aukast gífurlega. Miklir þurrkar, tengdir loftslagsbreytingum, eru til dæmis taldir vera kveikja stríðsins í Sýrlandi.  

Á Íslandi birtast loftslagsbreytingar m.a. í hlýrra veðurfari, bráðnun jökla, minnkandi snjóþekju að vetri, aukinni gróðurþekju, landnámi nýrra tegunda lífvera og hopi annarra, bæði í sjó og á landi. Innan tíðar verður sjávarborðshækkun einnig áþreifanleg og hafið í kringum okkur súrnar.

Tögg
annie-spratt-51436.jpg 

Vista sem PDF

 

Stöndum vörð um náttúru Íslands

Taktu afstöðu og vertu með!

Leita í fréttumÞátttaka í ákvarðanatöku

foss_hvalá.PNG
Fyrirhugað athafnasvæði Hvalárvirkjunar friðlýst?
Stjórn Landverndar fagnar tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands um að setja stórt svæði við Drangajökul á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár og friðlýsa svæðið. Tillöguna, ásamt fjölda annarra svæða, hefur Náttúrufræðistofnun birt á heimasíðu sinni. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur, eins og lög um náttúruvernd mæla fyrir um,  birt á vef sínum tillögur að svæðum sem stofnunin setur fram á B-hluta náttúruminjaskrár.  Meðal þessara svæða er Drangajökull og nágrenni hans, alls tæplega 1300 km2,