Bláfáninn dreginn að húni á Patreksfirði, í Stykkishólmi og í Nauthólsvík

Bláfánahafnirnar á Patreksfirði og í Stykkishólmi og baðströndin í Nauthólsvík fengu afhendan Bláfánann á dögunum. Stykkishólmur flaggaði sínum ellefta fána, Ylströndin þeim áttunda og smábátahöfnin á Patreksfirði flaggaði sínum fyrsta Bláfána.

Bláfánahafnirnar á Patreksfirði og í Stykkishólmi og baðströndin í Nauthólsvík fengu afhendan Bláfánann á dögunum. Stykkishólmur flaggaði sínum ellefta fána, Ylströndin þeim áttunda og smábátahöfnin á Patreksfirði flaggaði sínum fyrsta Bláfána. Alls hafa því sjö staðir á landinu fengið þessa viðurkenningu í ár og er það mikil fjölgun frá því í fyrra.

Þeir sem hlutu Bláfánann árið 2013 eru smábátahafnirnar í Stykkishólmi, á Borgarfirði eystri, í Kópavogi og á Patreksfirði, baðstrendurnar Ylströndin í Nauthólsvík og Langisandur á Akranesi og baðstaðurinn Bláa lónið.
Bláfáninn er veittur þeim smábátahöfnum og baðströndum sem uppfylla ákveðin skilyrði um umhverfisstjórnun, vatnsgæði, öryggismál og umhverfisfræðslu. Fáninn er vel þekktur víða erlendis og trekkir að ferðamenn enda tákn um að vel sé gert í umhverfis- og öryggismálum. Margar byggðir út um allt land byggja á hreinleika hafsins og ferðamennsku og því ætti það að vera keppikefli þeirra að flagga fánanum.

Landvernd óskar Patreksfirðingum, Hólmurum og Reykvíkingum innilega til hamingju með Bláfánann!
______________
Frétt um afhendingu Bláfánans á heimasíðu Vesturbyggðar.
Myndbrot af því þegar Bláfáninn var dreginn að hún í Nauthólsvík.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd