Alftaversafrettarbiltur_rettir_13.09.09-070

Landvernd vill sameiginlegt umhverfismat hringtengingar raforkuflutningskerfisins

Landvernd hefur sent Skipulagsstofnun umsögn sína um frummatsskýrslu Blöndulínu 3, 220kV háspennulínu frá Blöndustöð til Akureyrar. Stutta leiðarlýsingu má lesa hér neðar*. Landvernd gerir þrjár meginathugasemdir

Landvernd hefur sent Skipulagsstofnun umsögn sína um frummatsskýrslu Blöndulínu 3, 220kV háspennulínu frá Blöndustöð til Akureyrar. Stutta leiðarlýsingu má lesa hér neðar*. Landvernd gerir þrjár meginathugasemdir við frummatsskýrslu Landsnets. Einnig er bent á umsögn Sifjar Konráðsdóttur og ólafs Valssonar sem einnig finna má á vefsíðunni Öxnadalur.is.

Samkvæmt frummatsskýrslu er tilgangur með lagningu Blönulínu 3 til Akureyrar sá að styrkja meginflutningskerfi raforku á Norðurlandi og jafnframt er línan fyrsti áfanginn í byggingu hringtengds 220kV flutningskerfis hérlends, sem auka á flutningsgetu byggðalínuleiðarinnar (Landsnet 2012a).

1. Rökstyðja þarf betur nauðsyn jafn stórrar háspennulínu

Landvernd telur að Landsnet rökstyðji ekki nægilega vel þörfina á svo stórri háspennulínu til þess að uppfylla fyrra markmiðið með byggingu línunnar, þ.e.a.s. styrkingu meginflutningskerfis raforku á Norðurlandi. Fullyrt er í frummatsskýrslu að „umtalsverð aukning orkunotkunar, hvort sem er í Eyjafirði, Skagafirði eða Húnavatnssýslum, [sé] ekki möguleg nema með tilkomu Blöndulínu 3„ (Landsnet 2012a, bls. 1). Hinsvegar er ekki sýnt fram á þetta með útreikningum.

Ef litið er til raforkuspár fram til ársins 2050, er talið að orkuaukning á Norðurlandi verði rétt rúmlega 40%, eða að jafnaði u.þ.b. 1% á ári (Orkustofnun 2011). Mikill munur er á umhverfisáhrifum 220kV línu og minni línum, ekki síst hvað varðar sjónræn áhrif. Tvöföldun flutningsgetu með 132kV jarðstreng eða styrking núverandi línu ætti því að kanna til jafns á við 220kV háspennulínu. Ekki verður annað séð en slíkt myndi anna aukinni raforkuþörf á Norðurlandi, a.m.k. milli Blöndu og Rangárvalla, eins og fyrra markmið Landsnets tekur á.

Landvernd tekur undir kröfu Sifjar Konráðsdóttur og ólafs Valssonar (www.oxnadalur.is) um að Skipulagsstofnun fari fram á sérfræðiálit á nauðsyn jafnstórrar háspennulínu, eins og stofnuninni er heimild að láta fara fram samkvæmt reglugerð 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum.

2. Sameiginlegt umhverfismat allrar hringtengingarinnar fari fram

Í nýjustu kerfisáætlun Landsnets (Landsnet 2012b) er rætt um styrkingu meginflutningskerfisins (hryggjarstykkisins) og eru tveir kostir sérstaklega nefndir: (i) tvöföldun alls byggðalínuhringsins, sem er umrædd hringtenging samsíða núverandi byggðalínu, (ii) tenging yfir hálendið og tvöföldun hluta byggðalínuleiðar. Í báðum tilvikum væri um að ræða lagninu 220kV háspennulínu frá Blöndustöð til Akureyrar. Ekki hefur verið sýnt fram á að svo stóra háspennulínu þurfi á leiðinni fyrir aukningu í almennri notkun (sbr. athugasemd 1 hér að ofan), og því má leiða að því líkum að uppbygging hringleiðarinnar sé fyrst og fremst vegna stórnotenda.

Landvernd telur ekki annað forsvaranlegt en að einstakir bútar í fyrirhugaðri styrkingu meginflutningskerfisins verði metnir sameiginlega, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, þ.m.t. Blöndulína 3, sem er greinilega hluti af styrkingu meginflutningskerfisins á Íslandi. Samtökin hafa beint þessu til Skipulagsstofnunar.

3. Umhverfisáhrif jarðstrengs ekki metin

Umfjöllun Landsnets um jarðstrengi er einungis almenns eðlis. Það er ekkert mat á umhverfisáhrifum þeirra sem mögulegs flutningsmáta raforku á leiðinni frá Blöndustöð til Akureyrar, hvorki á leiðinni allri eða einhverjum hlutum hennar. Þetta er nauðsynlegt að gera, ekki síst á ákveðnum svæðum á leiðinni, sem eru viðkvæmari en önnur sökum áflugsvandamála fugla eða sjónrænna áhrifa. Þessi vinnubrögð verða að teljast ámælisverð og eru óásættanleg út frá umhverfislegu og félagslegu sjónarmiði. Þar með eru hafin að engu óskir fjölda fólks sem býr á svæðinu og Skipulagsstofnunar um að meta þessi áhrif til jafns á við loftlínur.

Hér er einungis verið að fara fram á að kanna umhverfisáhrif jarðstrengslagnar, þannig að taka megi upplýsta ákvörðun sem byggir á bestu fáanlegu rannsóknaniðurstöðum. Reynsla erlendis frá hefur sýnt að línur af hárri spennu líkt og fyrirhuguð Blöndulína 3 eru teknar í jörðu á viðkvæmum svæðum, m.a. í Danmörku, og kallast „Partial Undergrounding„. Landvernd telur að líta hefði átt til þessa við frummatsskýrslugerð.
—————————————————————————————————————-

*Blöndulína 3 er um 107km loftlína sem liggja myndi frá Blöndustöð um Vatnsskarð sunnan Valadals og meðfram norðurhlíð Valadalshnjúks. Þaðan eru tveir valkostir til skoðunar, Efribyggðarleið frá eyðibýlinu Kirkjuhóli og áleiðis inn að Mælifelli og þaðan yfir Tungusveit og Eggjar, yfir Héraðsvötn og inn Norðurárdal. Hin leiðin lægi í farvegi Héraðsvatna á mörkum Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akrahrepps. Þaðan áfram inn Norðurárdal og upp á Öxnadalsheiði. Af heiðinni liggur línan niður Öxnadal og Hörgárdal og yfir Moldhaugaháls, áleiðis að endavirki við Kífsá norðan Akureyrar.

Heimildir

Landsnet 2012a. Blöndulína 3. Frá Blöndustöð til Akureyrar. Frummatsskýrsla. Landsnet 12009.

Landsnet 2012b. Kerfisáætlun. Fimm ára áætlun 2012-2016 // Langtímaáætlun til árs 2026.

Orkustofnun 2011. Raforkuspá 2011-2050. OS 2011/07.

ólafur Valsson og Sif Konráðsdóttir. 2012. Athugasemdir til Skipulagsstofnunar við frummatsskýrslu Landsnets hf vegna Blöndulínu 3. Mat á umhverfisáhrifum. Sótt á veraldarvefinn: URL: http://www.oxnadalur.is/wp-content/uploads/2012/05/Blondulina3Greinargerd.pdf

3. áfangi rammaáætlunar

Rammaáætlun fjallar um orkunýtingu og verndun landsvæða. Hún skal byggja á vísindalegri þekkingu um hvert svæði og taka tillit til vistkerfa, lífríkis, landslagsheilda, jarðfræði, umhverfisáhrifa ...
Lesa meira

Reglugerð um fiskeldi – í ljósi reynslunnar þarf að stórherða kröfur

Landvernd styður hverja þá breytingu sem setur sjókvíaeldi stífari ramma og skorður sem minnka hættu á stórslysum fyrir íslenska náttúru og vistkerfi. Landvernd sendi Matvælaráðuneytinu ...
Lesa meira
Stakihnjúkur og Tungnaá sem rennur frá vesturhluta Vatnajökuls, Hálendi Íslands - Þjóðgarður landvernd.is

Óbyggðanefnd – breytingar á lögum

Mikilvægt er að traust ríki um leyfisveitingar og aðrar stjórnsýslulegar ákvarðanir á þjóðlendum. Almenningur verður að geta treyst því að þeir sem fara með slíkar ...
Lesa meira

3. áfangi rammaáætlunar

Rammaáætlun fjallar um orkunýtingu og verndun landsvæða. Hún skal byggja á vísindalegri þekkingu um hvert svæði og taka tillit til vistkerfa, lífríkis, landslagsheilda, jarðfræði, umhverfisáhrifa ...
Lesa meira

Reglugerð um fiskeldi – í ljósi reynslunnar þarf að stórherða kröfur

Landvernd styður hverja þá breytingu sem setur sjókvíaeldi stífari ramma og skorður sem minnka hættu á stórslysum fyrir íslenska náttúru og vistkerfi. Landvernd sendi Matvælaráðuneytinu ...
Lesa meira
Stakihnjúkur og Tungnaá sem rennur frá vesturhluta Vatnajökuls, Hálendi Íslands - Þjóðgarður landvernd.is

Óbyggðanefnd – breytingar á lögum

Mikilvægt er að traust ríki um leyfisveitingar og aðrar stjórnsýslulegar ákvarðanir á þjóðlendum. Almenningur verður að geta treyst því að þeir sem fara með slíkar ...
Lesa meira

Stuðningur við friðlýst svæði í Vatnsfirði

Mikill skaði myndi hljótast af virkjun á friðlýstu svæði í Vatnsfirði. Gott væri ef Orkubú Vestfjarða sem er að fullu í eigu ríkisins léti af ...
Lesa meira

Svona hefur Landvernd áhrif

Landvernd hefur áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku í umhverfismálum með því að skrifa umsagnir, álykta um málefni tengd umhverfisvernd og náttúruvernd. Landvernd krefst þess að farið sé að lögum og hefur látið reyna á nokkur mál fyrir dómi.

Náttúruvernd er loftslagsvernd

Félagar í Landvernd láta sig náttúruna varða. Vertu með í Landvernd og hafðu áhrif.