Mælt gegn rafskautverksmiðju í Hvalfirði

Stóriðja, sér í lagi framleiðsla málma er stærsti valdur mengunar á Íslandi á eftir flugsamgöngum, á myndinni má sjá Elkem á Grundartanga, landvernd.is
Stjórn Landverndar vill að stjórnvöld hafni áformum um rafskautaverksmiðju við Katanes í Hvalfirði vegna megnunar sem hún veldur.

Yfirlýsing stjórnar Landverndar vegna áforma um rafskautaverksmiðju við Katanes í Hvalfirði

Stjórn Landverndar telur að hafna beri áformum um rafskautaverksmiðju við Katanes í Hvalfirði vegna mikillar mengunar sem hún mundi valda.

Stjórn Landverndar telur að framlögð skýrsla um mat á umhverfisáhrifum vegna áforma um rafskautaverksmiðju við Katanes í Hvalfirði sýni að starfsemi af þessu tagi mundi hafa afar neikvæð áhrif á umhverfið og valda meiri losun heilsuspillandi fjölhringa kolvatnsefna (PAH efna) en dæmi eru um áður vegna stóriðju hér á landi. Fjölhringa kolvatnsefni eru talin mjög varasöm í umhverfinu og mörg hver krabbameinsvaldandi. Í skýrslunni kemur fram að árleg losun PAH efna geti orðið allt að 680 kg. á ári. Líklega yrði þessi verksmiðja stærsta einstaka uppspretta PAH-efna á Íslandi. Í skýrslunni er ekki dregin dul á að PAH-efni geta verið skaðleg heilsu manna og dýra. Stjórnin minnir á að það var talinn mikill kostur að fallið var frá áformum um að reisa rafskautverksmiðju í tengslum við álver í Reyðarfirði.

Áformuð verksmiðja myndi að auki losa umtalsvert magn gróðurhúsalofttegunda, sér í lagi um 125.000 tonn af koltvísýring (CO2 ) á ári. Þetta er hlutfallslega mikið magn frá einni uppsprettu og til samanburðar má geta þess að allur bílafloti landsmanna losar um 500.000 tonn sem þýðir að verksmiðjan ein og sér myndi losa jafn mikið af CO2 og fjórðungur alls bílaflotans.

Stjórn Landverndar óttast áhrif verksmiðju af þessu tagi svo nálægt þéttbýli. Þá telur stjórnin að verksmiðjan muni hafa neikvæð árhrif á þá ímynd að landið búi yfir ,,hreinu umhverfi og óspilltri náttúru”, og þar með skaða hagsmuni sem tengjast því. Stjórnin fær einnig ekki séð að rekstur rafskautaverksmiðju hér á landi geti samræmst markmiðum um sjálfbæra þróun. Stjórn Landverndar telur því rétt að stjórnvöld hafni áformum um rafskautaverksmiðju við Katanes í Hvalfirði.

Reykjavík, 30.8.2004
=======

Greinargerð

Losun gróðurhúsalofttegunda
Samkvæmt skýrslu um mat á umhverfisáhrifum rafskautverksmiðju við Katanes má gera ráð fyrir að verksmiðjan við full afköst losi árlega um 125.000 af CO2. Þetta er verulegt magn og til samanburðar má geta þess að allur einkabílafloti landsmanna losar um 500.000 tonn CO2 á ári og landflutningar valda losun á um 160.000 tonnum af CO2 á ári.

Í skýrslunni er vísað til ,,íslenska ákvæðisins” í Kyoto bókuninni og segir að losun frá verksmiðjunni geti ekki fallið undir það og rekstur rafskautaverksmiðju muni því óhjákvæmilega leiða til hækkunar á almennari losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum frá Ísland. Skýrsluhöfundar virðast telja að framangreind viðbót muni þó ekki gera það erfitt fyrir íslenskt samfélagið að standa við alþjóðlegar skuldbindingar um að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda. Vísað er til stefnumörkunar ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum (bls. 88) og spár sem bendi til þess að Ísland geti staðið við skuldbindingar í þessum efnum þrátt fyrir mikla aukningu af völdum rafskautaverksmiðju.

Ástæða er til að gera athugasemd við þetta. Kytobókunin miðast við tímabilið 2008 til 2012. Hvað tekur við eftir 2012 er ekki vitað. Ef ná á tökum á vanda vegna vaxandi uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda þarf að draga úr losun á þessari öld um 50-60%. Íslandi verður óhjákvæmilega ætlað hlutverk í því viðfangsefni. Það er nauðsynlegt að hafa langtímasjónarmið að leiðarljósi þegar teknar eru ákvarðanir um starfsemi af þessu tagi. Ætla má að rekstraráætlun og arðsemisútreikningar verksmiðjunnar miðist við lengra tímabil en til ársins 2012. Umfjöllun um losun gróðurhúsalofttegunda má ekki miða við skemmri tíma. Í skýrslunni er ekki vísað til neinna hugsanlegra mótvægisaðgerða, en það hlýtur að teljast eðlileg fyrirhyggja að hafa kostnað við mótvægisaðgerðir til hliðsjónar við arðsemismat á framkvæmdinni.

Losun fjölhringa kolvatnsefna (PAH-efna)
Í skýrslunni kemur fram að árleg losun PAH efna geti orðið allt að 680 kg. á ári. Til samanburðar má geta þess að áætluð árleg losun Norðuráls í fullri stærð er 180 kg á ári. Hér er því hlutfallslega um mikið magn að ræða. Líklega yrði þessi verksmiðja stærsta einstaka uppspretta PAH-efna á Íslandi.

Í verksmiðjunni er ráðgert að hreinsa útblástur með eftirbrennslutækni. Stjórn Landverndar telur að þessi hreinsitækni skili ekki fullnægjandi árangri.

Í skýrslunni (sjá bls. 83 og bls. 87) er ekki dregin dul á að PAH-efni geta verið skaðleg heilsu manna og dýra. Þá er tilgreint að mögulega geti efni í útblæstri frá rafskautaverksmiðjunni borist í fjöru og grunnsævi utan við iðnaðarsvæðið. Samkvæmt öllum stöðlum á, að mati skýrsluhöfunda, ekki að vera nein hætta á ferð vegna mikillar dreifingar efna. Stjórn Landverndar vill benda á að almennt litið hefur aukin þekking á áhrifum eiturefna leitt til þess að viðmiðunarmörk eru þrengd og telur stjórnin því að miðað beri við mun lægri viðmiðunarmörk en vísað er til í skýrslunni..

Stjórnin vill í þessu sambandi benda á að fyrir nokkrum árum (1997) sýndu mælingar í Straumsvík verulega uppsöfnun á PAH-efnum í fjöru. Var líklegt talið að um loftborna mengun væri að ræða. Mengun af þessu tagi er óásættanleg.

Botndýralíf
Þær rannsóknir á botndýralífi fyrir utan iðnaðarsvæðið í Hvalfirði, sem vitnað er til í skýrslunni, eru komnar vel til ára sinna, en þær voru framkvæmdar árin 1975-1976. Hafa verður í huga að dýrasamfélög breytast yfir tíma af náttúrulegum ástæðum og því vafasamt að nota svona gamlar upplýsingar þegar um svo viðamiklar framkvæmdir er að ræða. Ennfremur hafa umtalsverðar hafnarframkvæmdir verið á svæðinu, en slíkar framkvæmdir geta haft áhrif á setgerð og þá á botndýralíf í nágrenni hafnarinnar. Einnig er vert að benda á að viðkomandi rannsóknir voru gerðar með mun frumstæðari tækjabúnaði, en nú er gerð krafa um. Þannig fóru rannsóknirnar fram áður en GPS tæki urðu staðalbúnaður í bátum. Því er að líkindum einhver ónákvæmni í staðsetningu stöðva. Einnig er rétt að benda á að aðeins voru fjórar stöðvar teknar grynnra en á 15 m dýpi við Katanes og Grundartanga [4, 5, 6 og 6 m dýpi](sjá bls. 92 í Kristín Aðalsteinsdóttir og Arnþór Garðarsson, Botndýralíf í Hvalfirði, Líffræðistofnun Háskólans fjölrit nr. 14, 1980). Botndýralíf á dýptarbilinu 0 til 15 m er því illa þekkt við iðnaðarsvæðið. Þannig er t.d. óljóst um tilvist þaraskóga á svæðinu. Svo betur megi fylgjast með áhrifum iðnaðarstarfsemi á svæðinu er ástæða til að bæta þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á botndýralífi fram að þessu.

Umhverfisröskun af því tagi sem rafskautverksmiðja leiðir til kallar á vandaðar, ítarlegar og tímalangar bakgrunnsrannsóknir og markvisst erftirlit, ef svo skyldi fara, að til framkvæmda kæmi, sem stjórn Landverndar telur afar óæskilegt.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd