Ráðstefna Skóla á grænni grein

Landvernd heldur ráðstefnuna "Byggjum á grænum grunni" fyrir þátttakendur í verkefninu Skólum á grænni grein, Grænfánaverkefninu, föstudaginn 11. október 2013 kl. 8-16 í Kaldalóni í Hörpu.

Byggjum á grænum grunni er yfirskrift ráðstefnu fyrir þátttakendur í verkefninu Skólum á grænni grein, Grænfánaverkefninu, sem haldin er á vegum Landverndar föstudaginn 11. október 2013 kl. 8-16 í Kaldalóni í Hörpu. Sjá meðfylgjandi dagskrá.

Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfis og auðlindaráðherra mun setja ráðstefnuna og
Illugi Gunnarssonar mennta- og menningarmálaráðherra flytur ávarp.

Dagskrá ráðstefnunnar er þrískipt. Í fyrsta hluta verður fjallað um endurskoðun Grænfánaverkefnisins og áherslur Landverndar varðandi verkefnið næstu þrjú ár. Í öðrum hluta verða málstofur um viðfangsefni sem hafa reynst meiri áskorun en önnur í skólum og í þriðja hlutanum verður fjallað um innleiðingu menntunar til sjálfbærni í skólastarfi. Á málstofum verður fjallað um loftslagsbreytingar, lýðræði og lýðræðislega þátttöku og lífbreytileika (líffræðilega fjölbreytni).

Fjölbreyttir fyrirlestrar

Fyrirlesarar á ráðstefnunni verða fjórtán talsins, auk starfsmanna Landverndar, þeirra á meðal Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur, Ingileif Ástvaldsdóttir skólastjóri Þelamerkurskóla, Snorri Sigurðsson líffræðingur og Kirsten Leask verkefnisstjóri Skóla á grænni grein í Skotlandi, Björg Pétursdóttir í mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Sigrún Helgadóttir náttúrufræðingur.

Skólar á grænni grein er alþjóðlegt verkefni til að auka umhverfismennt og styrkja umhverfisstarf í skólum. Hér á landi er verkefninu stýrt af Landvernd sem er aðili að alþjóðlegu samtökunum FEE. Vorið 2002 voru þrír fyrstu Grænfánarnir dregnir að húni á Íslandi. Þátttökuskólar nú eru um 230 á öllum skólastigum.
Til ráðstefnunnar eru skráðir um hundrað og tuttugu þátttakendur frá um eitt hundrað skólum. 

Ráðstefnustjóri er Hrefna Sigurjónsdóttir varaformaður Landverndar.

Dagskrá ráðstefnu Skóla á grænni grein: Byggjum á grænum grunni 2013

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd