Rammaáætlun verði mótandi um val á virkjunarstöðum

Stöndum vörð um náttúru Íslands Landvernd eru frjáls félagasamtök sem starfa að umhverfismálum til að vernda og bæta lífsgæðin í landinu. Landvernd virðir íslenska náttúru og styður sjálfbæra nýtingu hennar. Taktu afstöðu og vertu með! landvernd.is
Stjórn Landverndar fagnar skýrslu um 1. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Í skýrslunni kemur í fyrsta sinn fram samanburður á mörgum virkjunarhugmyndum þar sem bæði er litið til arðsemi og áhrifa á umhverfið. Stjórnin vonar að þessi skýrsla efli upplýsta umræðu um virkjanir og náttúruvernd og verði til þess að betri sátt náist um val á virkjunarkostum.

Stjórn Landverndar fagnar skýrslu um 1. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Í skýrslunni kemur í fyrsta sinn fram samanburður á mörgum virkjunarhugmyndum þar sem bæði er litið til arðsemi og áhrifa á umhverfið. Stjórnin vonar að þessi skýrsla efli upplýsta umræðu um virkjanir og náttúruvernd og verði til þess að betri sátt náist um val á virkjunarkostum.

Stjórn Landverndar fagnar yfirlýsingu umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra þess efnis að eðlilegt sé að beina undirbúningi nýrra virkjana á næstu árum að þeim kostum sem skv. niðurstöðu 1. áfanga rammaáætlunar hafa minnst umhverfisáhrif. Stjórnin telur jafnframt nauðsynlegt í þessu sambandi að litið sé til fyrirvara sem gerðir eru í skýrslunni við virkjunarkosti eins og Skaftárveitu, Brennisteinsfjöll og Grændal.

Stjórn Landverndar fagnar einnig yfirlýsingu ráðherranna þess efnis að frekar verði unnið að rannsóknum og undirbúningi að 2. áfanga rammaáætlunar.

Stjórn Landverndar vill einnig vekja athygli á því að í framlagðri skýrslu kemur fram að verulegir möguleikar eru til að auka raforkuframleiðslu í landinu og jafnframt taka ríkt tillit til náttúruverndarsjónarmiða. Rafmangsorkuframleiðsla á landinu í dag er liðlega 8 Twst. á ári og heimilaðar hafa verið virkjanir sem jafngilda tæplega 7 Twst. á ári til viðbótar. Niðurstöður rammaáætlunar benda til þess að jafnvel megi tvöfalda raforkuframleiðsluna án þess að gengið verði á þau svæði þar sem orkuvinnsla veldur mestu skaða á náttúruverðmætum og möguleikum til útivistar. En jafnframt undirstrikar skýrslan að jarðvarma- og vatnsorkuauðlindir landsins eru takmarkaðar og því brýnt að gæta varfærni og hófs við nýtingu þeirra.

Að lokum telur stjórn Landverndar að skýrslan dragi skýrt fram verðmæt svæði á hálendi Íslands sem vert sé að vernda vegna landslags, náttúrufars og ríkra útivistarhagsmuna. Í þessu sambandi beinist athyglin sérstaklega að Jökulsá á Fjöllum, Markarfljóti og Torfajökulssvæðinu.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd