Ummæli dregin til baka

Stöndum vörð um náttúru Íslands Landvernd eru frjáls félagasamtök sem starfa að umhverfismálum til að vernda og bæta lífsgæðin í landinu. Landvernd virðir íslenska náttúru og styður sjálfbæra nýtingu hennar. Taktu afstöðu og vertu með! landvernd.is
Stjórnarformaður Landsvirkjunar, sendi í gær frá sér yfirlýsingu þar sem hann skýrir frekar tiltekin ummæli sín á samráðsfundi fyrirtækisins fyrir helgi og dregur þau til baka. Þá biðst stjórnarformaðurinn afsökunar á því að orðið ,,óprúttinn" skuli hafi verið að finna í skrifuðum texta þar sem vísað var til andstæðinga Kárahnjúkavirkjunar.

Stjórnarformaður Landsvirkjunar, sendi í gær frá sér yfirlýsingu þar sem hann skýrir frekar tiltekin ummæli sín á samráðsfundi fyrirtækisins fyrir helgi og dregur þau til baka. Þá biðst stjórnarformaðurinn afsökunar á því að orðið ,,óprúttinn“ skuli hafi verið að finna í skrifuðum texta þar sem vísað var til andstæðinga Kárahnjúkavirkjunar.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson sendi af gefnu tilefni frá sér eftirfarandi yfirlýsingu í gær:

,,Vegna viðbragða við ræðu minni á samráðsfundi Landsvirkjunar 1. apríl síðastliðinn vil ég taka eftirfarandi fram. Meginefni ræðunnar voru sjónarmið mín varðandi framtíðarskipulag orkumála. Mig óraði ekki fyrir hver viðbrögð urðu við þeim kafla þar sem ég fjallaði um ítalska verktakann Impregilo. Ég tók fram að fyrirtækið hefði átt í erfiðleikum við að ná tökum á íslenskum aðstæðum en hvað snertir tækniþátt framkvæmdanna og ýmsan aðbúnað kæmu þeir með nýja þekkingu og viðmiðanir. Ég tók ákveðið fram að í samningum þeirra við Landsvirkjun væri skýr ákvæði um að í öllu væri farið að íslenskum lögum. Að lokum, vegna tilefnis sem nýlega kom í umfjöllum í Speglinum, ræddi ég almennt um að okkur (Íslendingum) væri hollt að líta í eigin barm og athuga hvort það væri ekki styttra í þjóðernishroka hjá okkur en við vildum dagsdaglega kannast við. Ef þessi ummæli eru skoðuð í því samhengi sem þau eru sett í ræðunni er illskiljanlegt hvernig hægt er að túlka þau sem árás á íslenskt launafólk eins og lesa má úr ályktun frá rafiðnaðarmönnum og af orðum formanns Rafiðnaðarsambandsins. Hér var um að ræða almenna áminningu og henni er ekkert síður bent innávið hjá okkur í orkugeiranum.

Ef það er á einhvern hátt til bóta þá get ég hér með dregið þessi orð mín til baka þannig að þau trufli ekki samningagerð á nokkurn hátt. Það er algjör nauðsyn að allir aðilar þessa máls setjist niður og ræði saman um farsæla lausn á vinnutilhögun við Kárahnjúkavirkjun. Það eru ekki einungis hagsmunir verkkaupa og verktaka við virkjunina heldur alls launafólks hvar sem er á landinu.

Annað mál sem hefur verið í fréttum eru ummæli mín um hvaða áhrif virkjunarandstæðingar hér á landi höfðu á erlend verktakafyrirtæki. Í þessu samhengi vil ég taka fram að ég hef í nánast öllum ræðum mínum á samráðsfundunum rætt um umhverfismál. Oftast út frá þeim sjónarhóli að samræma orkuframkvæmdir og uppbyggingu verndarsvæða. Ég hef meðal annars á þeim vettvangi lýst þeirri skoðun minni að vernda beri vatnasvæði Jökulsár á Fjöllum heilstætt. Við þessu hef ég aldrei fengið nein viðbrögð. Það kom því nokkuð á óvart hvað skjótt var brugðist við nú. Í því samhengi vil ég taka fram að það sem mest virðist fara fyrir brjóstið á fólki er að ég hafi rætt um ,,óprúttinn” áróður virkjunarandstæðinga. Hvað það varðar vil ég taka fram að ég var búinn að strika orðið ,,óprúttinn” út úr ræðunni og sagði það því aldrei. Það var hins vegar komið á prent í hinni skrifuðu ræðu sem var dreift og á því biðst ég afsökunar.

Hitt er staðreynd, og allt til skjalfest, að áróðri var dreift á skipulegan hátt héðan til fjármálastofnana og verktaka. Það er einnig staðreynd að æðstu menn NCC komu hingað gagngert til þess að gera grein fyrir að þeir hefðu séð við nánari athugun að hér hefði í einu og öllu verið farið að ströngustu kröfum, innlendum sem erlendum, við undirbúning framkvæmdanna og viðbrögð þeirra því ekki verið viðeigandi. Ég get hins vegar verið fyrstur manna til þess að viðurkenna að ef til vill var hvorki staður né stund til þess að taka þessi mál upp núna. Ég lýsi hins vegar eftir viðbrögðum við sjónarmiðum mínum um umhverfismál sem ég hef sett fram í ræðu og riti á undanförnum árum og ég vitna til hér áður í yfirlýsingunni.”

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd