Fréttir

Vistverndarstarfið í skýrslu

Landvernd    15.10.2008
Landvernd
Fjölbreytt starf og mælanlegur árangur

Vistvernd í verki (Global Action Plan for the Earth - GAP) er alþjóðlegt umhverfisverkefni fyrir heimili og er Ísland í hópi 19 landa sem starfrækja verkefnið. Markmið verkefnisins er að efla vitund fólks um vistvænan lífsstíl og styðja það og hvetja til að lifa æ sjálfbærara lífi.

Verkefnið hefur verið starfrækt í 4 ár og taka 11 sveitarfélög þátt með því að bjóða íbúum sínum þátttöku í verkefninu og útvega staðbundinn stjórnanda og leiðbeinendur visthópa hjá bæjarfélaginu. Sveitarfélögin eru: Reykjavík, Garðabær, Hafnarfjörður, Bessastaðahreppur, Mosfellsbær, Hveragerði, Bláskógabyggð, Ísafjörður, Austur Hérað, Fjarðabyggð og Akureyri. Hlé hefur orðið á samstarfi við Akranes og Reykjanesbæ.

Í vetur hafa verið starfræktir 11 hópar í 5 sveitarfélögum. Frá upphafi hafa 73 hópar tekið þátt eða samtals 450 heimili, með u.þ.b. 1500 heimilismönnum.

Eitt leiðbeinendanámskeið var haldið í haust og voru 5 þátttakendur á því.
Haustfundur var haldinn með staðbundnum stjórnendum og einnig leiðbeinendum frá öllum sveitarfélögum.

Kynning
Kynningarbás verkefnisins hefur verið í mikilli notkun í vetur. Viðkomustaðir hafa verið Fjarðarkaup – 4 vikur, Vesturbæjarlaug – 2 dagar, Laugardalslaug – 4 vikur, Grafarvogslaug – 3 vikur, Smáralind – 2 dagar, Grasagarðurinn – 2 dagar.

Erindi um Vistvernd í verki hafa verið flutt á Rótarýfundi í Grafarvogi, í Waldorfskólanum í Breiðholti, á húsfundi hjá Geðhjálp, í umhverfisráðuneytinu og á Umhverfisstofnun.
Á bíllausa deginum stóðu Landvernd, Vistvernd í verki og Reykjavíkurborg fyrir fundi í Ráðhúsi Reykjavíkur, um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Fundinn sóttu 14 manns en góðar umræður sköpuðust í lok fundarins. Erindi á fundinum áttu Bryndís Þórisdóttir f.h. Vistverndar í verki, Óskar D. Ólafsson forstöðumaður og hjólreiðafrömuður, Halla Jónsdóttir frá Iðntæknistofnun Íslands, Alda Jónsdóttir formaður Íslenska fjallahjólaklúbbsins og Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda. Fundarstjóri var Ólöf Guðný Valdimarsdóttir formaður Landverndar.

Nokkrar greinar um Vistvernd í verki hafa birst í blöðum og tímaritum. Í apríl hóf göngu sína fastur dálkur Vistverndar í verki með vistvænum ráðum í tímaritinu Vikunni. Fjölmörgum vinnustöðum og stofnunum í Vesturbæ var sent erindi um Vistvernd í verki og boðin þátttaka í visthópi. Engin viðbrögð bárust.
Grunnskólabókasöfnum var boðin handbók Vistverndar í verki til kaups og seldust um 30 bækur.
Hannaður var sýningarstandur með fróðleik og ábendingum um vistvænan lífsstíl sem var vígður laugardaginn 24. apríl á sýningu Umhverfisfræðsluráðs í Vetrargarði Smáralindar. Standurinn er færanlegur og markmiðið að hann verði sem mest í notkun. Næsti viðkomustaður var Ráðhús Reykjavíkur en þar mun hann standa í nokkrar vikur. Helgina 8. og 9. maí verður hann á vorsýningu í Grasagarðinum. Öllum sveitarfélögum sem taka þátt í verkefninu býðst að fá sýningarstandinn til sín, gegn því að greiddur sé flutningskostnaður.

Mælanlegur árangur
Mælingar sem fólk gerir í eina viku, fyrir og eftir visthópaþátttöku sýna að sorp sem fer út í tunnu minnkar að meðaltali um 40 %, rafmagnsnotkun minnkar um 18%, heitavatnsnotkun minnkar um 27%, bensínnotkun um 13% og hlutfall umhverfismerktra vara sem fólk kaupir eykst um 7%. Miðað við þessar tölur sparar fólk um 45.000 kr. á ári og þá er ekki tekið tillit til skipulagðari og haghvæmari innkaupa sem flestir þátttakendur taka upp.

Stjórnun
Verkefnisstjórn skipa Jón Jóel Einarsson, María Birna Sveinsdóttir frá Kvenfélagasambandi Íslands, Tryggvi Felixson frá Landvernd, Stefán Gíslason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sif Svavarsdóttir frá Sorpu og Sigurbjörg Sæmundsdóttir frá umhverfisráðuneyti. Verkefnisstjóri er Þóra Bryndís Þórisdóttir, ráðgjafi er Sigurborg Kr. Hannesdóttir og starfsmaður til þriggja mánaða í samvinnu við Vinnumiðlun höfuðborgarsvæðisins er Nikulás Fr. Magnússon. Þóra Bryndís og Nikulás eru bæði í hálfu starfi. Bakhjarlar eru umhverfisráðuneytið, Toyota, Sorpa, Orkuveita Reykjavíkur, Landsvirkjun, Dýrabær ehf, Yggdrasill HF og Tæknival. Verkefnisstjórn og bakhjarlar halda fundi einu sinni til tvisvar á ári.Vista sem PDF

 

Stöndum vörð um náttúru Íslands

Taktu afstöðu og vertu með!

Leita í fréttumÞátttaka í ákvarðanatöku

Drynjandi.png
Náttúruverndarsamtök kæra framkvæmdarleyfi vegna fyrsta áfanga Hvalárvirkjunar
Náttúruverndarsamtök kæra framkvæmdarleyfi fyrir óafturkræfum spjöllum á dýrmætum víðernum.