Skjótum fleiri traustum stoðum undir samfélagið

Endurbyggjum betra efnahagskerfi, sem byggir á sjáfbærni í kjölfar COVID hruns, landvernd.is
Stjórn Landverndar bendir á sjálfbærar aðgerðir til þess að reisa við efnahaginn eftir COVID faraldurinn sem hafa langtímamarkmið um náttúruvernd og verulegan samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda að leiðarljósi.

Undanfarið hafa komið fram fjölmargar ábendingar um hvernig Ísland sem samfélag getur komist í gegn um þá erfiðleika sem COVID-19 faraldurinn hefur skapað. Stjórn Landverndar vill blanda sér í þær umræður með því að benda á nokkur atriði og aðgerðir sem geta skipt sköpun um sjálfbæra þróun til lengri tíma litið. Stjórnin telur að nýta beri tímabundnar mótvægisaðgerðir eins og kostur er til að skjóta fleiri traustum stoðum undir samfélagið til lengri tíma litið.   

Fjölbreytni er styrkur fyrir atvinnulífið og lífríkið

Landvernd telur eins og fjölmargir aðrir að mikilvægt sé að fjölga atvinnumöguleikum á Íslandi og einblína ekki á fáeinar lausnir til þess að tryggja fólki atvinnu. Fjölbreytni er styrkur bæði fyrir atvinnulífið og fyrir verndun lífríkisins.  Aukin fjölbreytni leggur grunninn að samfélagslega sjálfbærum stöðuleika til lengri tíma litið.

Húsið okkar brenna og það er löngu kviknað í

Landvernd vill benda á að fyrir COVID-19 faraldurinn ríkti neyðarástand í loftslagsmálum. Ný og ný hitamet eru slegin, súrnun sjávar er mælanleg, bráðnum jökla og pólanna er hraðari og meiri en áður var talið og  víðtæk og ógnarhröð eyðilegging á vistkerfum á  sér stað.  Þetta neyðarástand ríkir enn.  Það má ekki gleymast í annríkinu að  við erum að renna út á tíma varðandi að draga úr hættulegum breytingum á loftslagi jarðar.  

Gerum langtímaplan

Það er því afar brýnt að uppbygging og björgunaraðgerðir efnahagsins vegna COVID-19 faraldursins séu hugsaðar til lengri tíma.  Að við nýtum tækifærið til þess að skapa loftslagsvænna og sjálfbærara atvinnulíf sem forðar kynslóðum framtíðarinnar frá verstu afleiðingum loftslagsbreytinga og hlífir vistkerfum og verðmætri náttúru. Landvernd leggur því til við stjórnvöld nokkrar aðgerðir sem stuðla að þessu.

Aðgerðirnar sem hér er bent á  geta örvað atvinnulífið núna en janframt búið í haginn fyrir sjálfbærari framtíð:

Loftslagsmál:

  • Styrkja verulega og halda áfram góðri vinnu við að nota velsæld til að meta samfélagsþróun og árangur.
  • Endurheimta votlendi á landi í ríkiseigu í sumar.
  • Opna aftur fyrir umsóknir í loftslagssjóð – og bæta 500 milljónum í sjóðinn.
  • Flýta aðgerðum til að efla almenningssamgöngur, þar með talin en ekki eingöngu með borgarlínu.  
  • Efla grænmetisrækt með því að leita leiða til að lækka orkukostnað hennar og endurskoða styrkjakerfi í landbúnaði til að auka fjölbreytni og minnka áherslu á framleiðslu á dýrafurðum.
  • Auka við listamannalaun.
  • Auka fjármagn og bæta umgjörð fyrir nýsköpun og rannsóknir. 
  • Aukið fjármagn í gerð námsefnis fyrir ungt fólk um umhverfismál.
  • Styrkja framleiðslu á fæðu úr nærumhverfinu.
  • Fella niður virðisaukaskatt á viðgerðarþjónustu – og leggja áherslur á viðhald og  viðgerðir – fremur enn nýframkvæmdir varðandi mannvirkjagerð.

Náttúruvernd:

  • Fjölga Landvörðum í heilsársstöðum.
  • Fjölga starfsmönnum Skipulagsstofnunar og Úrskurðarnefndar umhverfis og auðlindamála til þess að stytta málsmeðferðartíma.
  • Hraða landsáætlun um skógrækt og bæta  tímabundið við starfsfólki í skógræktar- og landgræðslumálum  með áherslu á líffræðilega fjölbreytni.
  • Sameina og efla stofnanir sem annast friðlýst svæði og þjóðgarða og stofna hálendisþjóðgarð.
  • Bæta innviði á vinsælum stöðum og fjölga áhugaverðum áningarstöðum til að dreifa álagi vegna ferðamanna í framtíðinni.

Landvernd telur að gott samráð og samtal stjórnvalda varðandi aðgerðir til að styrkja atvinnulífið séu nauðsynlegar og mikilvægt að tekið sé tillit til fjölbreyttra sjónarhorna.  Landvernd er tilbúið til þess að taka virkan þátt í því samtali og samráði. 

Sjá nánar um tillögurnar og fleiri tillögur Landverndar á heimasíðu félagsins.

Þessi grein birtist í Kjarnanum 22. apríl 2020

Viðauki sem birtist eingöngu á  heimasíðu Landverndar:

Stjórn Landverndar vill koma á framfæri hugmyndum sínum um aðgerðir sem stjórnvöld ættu að leggja áherslu á við að glæða efnahagslífið aftur eftir Kórónuveirufaraldurinn.  Landvernd telur eins og fjölmargir aðrir að mikilvægt sé að fjölga atvinnumöguleikum á Íslandi og einblína ekki á eina stóra lausn til þess að tryggja fólki atvinnu heldur margar litlar. Þar geta farið saman hagsmunir umhverfisins og atvinnulífsins

Aðgerðunum sem Landvernd leggur til er skipt í 3 flokka

Aðgerðir sem skila árangri strax

Aðgerðir til langs tíma

Aðgerðir þar sem efling lýðheilsu og samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda fara saman. 

Hugmyndir fyrir ríkisstjórnina um framkvæmdir og aðrar aðgerðir sem fara má í til þess að örva atvinnulífið en hafa umhverfið í fyrirrúmi fara hér á eftir.

Aðgerðir sem framkvæma má strax

  • Halda áfram góðri vinnu við að nota hagsæld frekar en hagvöxt til að meta samfélagsþróun og árangur.  Nýta velsældarvísa eins og SPI ( Social Progress Index) sem nú þegar eru til.  Ráða verktaka til þess að efla þetta starf.
  • Fjölga Landvörðum í heilsársstöðum
  • Fjölga starfsmönnum ÚUA um einn til þess að stytta málsmeðferðartíma
  • Fjölga starfsfólki skipulagsstofnunar til þess að stytta málsmeðferðartíma
  • Auka verulega fjármagn í almenningssamgöngur og borgarlínu.
  • Fella niður/minnka virðisaukaskatt á viðgerðarþjónustu
  • Efla endurheimt votlendis á ríkisjörðum og þjóðlendum. Ráða verktaka til þess að endurheimta á landi í ríkiseigu í sumar.
  • Fjölga skógræktar- og landgræðslusvæðum og starfsfólki til að sinna tímabundið auknum verkefnum þar sem líffræðileg fjölbreytni er höfð að leiðarljósi
  • Efla starf grænmetisbænda sérstaklega með því að lækka orkukostnað þeirra og styrkja þá til þess að bæta við fólki umfram það sem öðrum fyrirtækjum býðst. 
  • Hvetja ferðamenn til þess að dvelja lengur á Íslandi. Hvetja með ívilnunum gististaði til þess að veita afslætti eftir því sem ferðamaður dvelur lengur á gististaðnum. 
  • Auka við listamannalaun
  • Styrkja tónlistarfólk og kvikmyndgerð sérstaklega
  • Auka fjármagn og umgjörð um nýsköpun og rannsóknir.  

Aðgerðir til langs tíma og langtímaverkefni

  • Setja á stofn Þjóðgarðastofnun, 
  • Færa legu vestfjarðarvegar úr Teigsskógi og nota jarðgangnaleið 
  • Setja á stofn miðhálendisþjóðgarð

Lýðheilsu- og forvarnaraðgerðir. 

COVID-19 faraldurinn hefur sýnt okkur mikilvægi þess að huga vel að almennu heilbrigði til þess að einstaklingar hafi góða viðspyrnu þegar til dæmis farsóttir berast til landsins.  Með því að hafa þjóðina við góða heilsu dregur verulega úr álagi á heilbrigðiskerfið á öllum tímum og geta til að takast á við áföll eykst til muna. Því ættu aðgerðir sem stuðla að betri heilsu fólks að vera í forgrunni. Lífstílssjúkdómar eins og hjarta- og æðasjúkdómar og sykursýki 2 auka mjög líkur á alvarlegum afleiðingum kórónasmits.

  • Að stunda fjölbreyttan og virkan ferðamáta stuðlar að aukinni hreyfingu sem eykur almennt heilbrigði.  Aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem auka umferð, eins og lagt er til í nýjustu samgönguáætlun hamla á móti því að fólk stundi fjölbreyttan ferðamáta.  Aðgerðir sem falla hér undir eru til dæmis:

  • Fjármögnun almenningssamgangna eins og borgarlínu en einnig að bæta almenningssamgöngur milli höfuðborgarsvæðisins og helstu þéttbýliskjarna.   

  • Fjármagna hjólastíga í stærri sveitarfélögum

  • Hækka álögur á allar bifreiðar en meira á bensín og díselbíla

  • Landsskipulagsstefna miði að því að fjölbreyttur ferðamáti verði forgangsmál

  • Draga úr loftmengun sem hlýst af umferð (svifryk frá malbiki og bruna jarðefnaeldsneytis). Minnka umferð almennt og draga úr notkun jarðefnaeldsneytis

  • Banna nýskráningu bensín og díselbíla frá 2023

  • Hækka kolefnisgjald til allra notanda jarðefnaeldsneytis (og dreifa því út aftur til almennings)

  • o Draga úr eða fresta samgönguframkvæmdum sem auðvelda umferð einkabíla sérstaklega.  Nýta það fé sem sparast í aðrar aðgerðir.

  • Minnkuð neysla dýraafurða dregur úr sykursýki 2 og hjarta- og æðasjúkdómum Jafnframt dregur minnkuð neylsa dýraafurða úr ýmsum neikvæðum umhverfisáhrifum eins og losun gróðurhúsalofttegunda.   Ríkið niðurgreiðir nú neyslu dýraafurða sem vinnur gegn lýðheilsu og markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. 

  • Færa hluta landbúnaðarstyrkja frá dýraafurðum til grænmetisframleiðslu þannig að ríkið greiði niður hollara fæði 

  • Auka fjármagn og fagmennsku í rannsóknum og nýsköpun á sviði ræktunar plantna til manneldis

  • Færa manneldismarkmið í samræmi við Lancet eat verkefnið þar sem ráðlagt að  fólk borði ekki meira en 98g af rauðu kjöti (svína, lamba, nauta, hrossa) á viku.  

  • Vinna að því að breyta styrkjakerfi í landbúnaði þannig að það sé ekki bundið afurðum heldur fái bændur styrki fyrir að búa og vinna á jörðum sínum 

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd