Nemendur fara út í nærumhverfið og ímynda sér að þeir séu lífvera sem heldur til þar og skrifa síðan ljóð. Verkefnið hentar 10-20 ára

Aldur:  10 – 20 ára

Tími: 1-2 kennslustund

Markmið:

Að nemendur átti sig á því fjölbreytta lífríki sem er í þeirra nærumhverfi

Að nemendur læri um lífverur og eiginleika þeirra

Efni og áhöld: blað og blýantur, handbækur eða vefsíður til gagnaöflunar (ef þörf er á)

Framkvæmd:

Nemendur fara út og ímynda sér að þeir séu einhver lífvera og skrifa síðan ljóð. Í þessu verkefni er hverjum nemanda, eða hópi nemenda, ætlað að yrkja ljóð.

Farið er út og fundið notalegt svæði á skólalóðinni, í garði, fólkvangi eða annars staðar þar sem nýtur náttúrulegs umhverfis. Allir hugsa sér lífveru sem heldur til á svæðinu, hvort það sem er búsvæði hennar eða staður til fæðuöflunar. Ekki skiptir máli hvaða lífvera er valin svo lengi sem hún tengist nærumhverfinu.

Allir eiga að loka augunum í nokkrar mínútur og ímynda sér að þeir séu lífveran í sínu eðlilega umhverfi. Hægt er að leiðbeina nemendum með nokkrum orðum þar sem þeir sitja með lokuð augun í ímyndun sinni eða láta þá alveg eina um hana.

Allir fá fimm mínútur til að finna stað og „verða“ lífveran. Þeir ímynda sér hve gömul lífveran getur orðið og velta fyrir sér eiginleikum lífverunnar. Ef um dýr er að ræða ímynda þeir sér ferðir þess og hvernig plöntur og önnur dýr líta út í augum þess.

Þegar þessari ígrundun er lokið eiga nemendurnir beðnir að skrifa stutt ljóð um lífveruna sína. Ljóðin mega vera órímuð stef eða rímuð. Gaman getur verið að spreyta sig á mismunandi ljóðformum.

Eins er hægt að yrkja hópljóð: Allir hugsa um eina lífveru. Hver og einn leggur til eitt orð. Einn eða fleiri nemendur, eða kennarinn, raða orðunum í ljóð á meðan hinir ræða hvernig það var að „vera“ þessi lífvera.

Athugið að í þessu verkefni eiga nemendur eiga að ímynda sér að þeir „séu“ dýr eða planta án þess að eigna þeim óviðeigandi mannlega eiginleika.