Krafa um nýtt umhverfismat Bakkalína ítrekað

Í ljósi fréttatilkynningar Landsnets hf. frá í gær, 22. ágúst, ítrekar Landvernd fyrri afstöðu sína um að umhverfismeta beri fleiri valkosti en loftlínu frá Kröflu að Bakka svo draga megi úr umhverfisáhrifum. Skoða þarf bæði jarðstrengi og loftlínur og valkosti sem sneiða hjá verðmætum hraunum eins og Leirhnjúkshrauni og Þeistareykjahrauni, en framkvæmdir Landsnets hf. hafa nú verið stöðvaðar til bráðabirgða á þessum svæðum vegna náttúruverndarsjónarmiða. Núverandi umhverfismat er úrelt og tekur ekki til slíkra valkosta. Aðeins með nýju umhverfismati fæst raunhæfur samanburður um hvaða leiðir valda minnstum umhverfisáhrifum. Nýtt umhverfismat er því grundvallarkrafa.

Landvernd hafnar því að reist verði loftlína sem flutt geti tífalda raforkuþörf kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka. Þó svo að verksmiðjan kunni að tvöfaldast í ófyrirséðri framtíð, réttlætir það ekki svo stóra línu og minni línur duga, eins og útreikningar Landsnets hf. sýna í fréttatilkynningu fyrirtækisins. Ekki þætti það góður búmaður sem reisir fjós fyrir tífalt fleiri kýr en hann hyggst ala, jafnvel þó svo að hann hyggist fjölga þeim um helming í nánustu framtíð. Landvernd hafnar því að Landsnet hafi sjálfdæmi um ákvarðanir sem þessar. Almenningi þarf að hleypa að málum og það verður best gert með nýju umhverfismati.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd