Náttúruverndarsamtök lýsa yfir þungum áhyggjum af Vatnajökulsþjóðgarði og vonbrigðum með stjórnun hans.
Vonarskarð er eitt viðkvæmasta svæði hálendisins, óbyggt víðerni með mjög hátt verndargildi. Það skartar hæstu mýri landsins, mikilli litadýrð og háhitasvæði sem á sér vart hliðstæðu með lífverum sem finnast hvergi annars staðar.
Vegna þessa hafa þjóðgarðsyfirvöld frá upphafi einskorðað aðgang að Vonarskarði við gangandi umferð og þá sem aka á snæviþakinni jörð. Sú ákvörðun hefur byggt á ráðleggingum Náttúrufræðistofnunar, helstu fagstofnana á sviði náttúruvísinda og fræðasamfélagsins. Engin fagstofnun hefur nokkru sinni mælt með auknu aðgengi bílaumferðar að Vonarskarði, þvert á móti.
Þann 23. október síðastliðinn staðfesti Jóhann Páll Jóhannsson ráðherra hins vegar breytingar sem auka aðgengi ökutækja að svæðinu. Tiltekið er að opnunin skuli vera í tilraunaskyni en enginn veit í hverju sú tilraun felst. Opnunin mun skerða víðerni Vonarskarðs og sérstöðu, auka líkur á náttúruspjöllum og ganga þvert gegn ráðleggingum allra fagstofnana. Aðeins er mánuður liðinn frá því að ráðherra talaði um skyldur Íslands um verndun óbyggðra víðerna í Evrópu í ræðu sinni á Umhverfisþingi í Hörpu.
Náttúruverndarsamtökin gagnrýna þessa ákvörðun ráðherra og munu leita til UNESCO til að fá skorið úr um lögmæti hennar. Í tilnefningu Íslands til stöðu þjóðgarðsins á heimsminjaskrá UNESCO var Vonarskarð kynnt sem göngusvæði án vélknúinnar umferðar og að svæðið milli Gjóstu og Svarthöfða yrði víðerni. Þetta eru kjarnagildi og skuldbindingar sem mikilvægt er að virða.
Afgreiðsla núverandi svæðisstjórnar þjóðgarðsins á málefnum Vonarskarðs í september sl. varpar ljósi á þá bresti sem eru í stjórnfyrirkomulagi Vatnajökulsþjóðgarðs og veikleika sem snúa að hans meginmarkmiði, sem er vernd náttúrunnar. Brýn þörf er á að tryggja náttúruvernd sterkari rödd við stjórnun Vatnajökulsþjóðgarðs, að hlutverk Náttúrufræðistofnunar við stefnumótun hans verði eflt og að ráð umhverfissamtaka verði ekki kerfisbundið hunsuð. Í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð segir að annar fulltrúi ráðherra í stjórninni skuli hafa fagþekkingu á verksviði þjóðgarða. Ljóst er að það á við um hvorugan þeirra sem þar sitja í umboði ráðherra í dag, þvert á ákvæði laganna.
Að lokinni þessari afgreiðslu svæðisstjórnar þjóðgarðsins er ljóst að önnur sjónarmið en náttúruvernd og vísindaleg þekking ráða nú för í málum sem stjórn tekur til afgreiðslu.
Við köllum því eftir að:
- stjórnfyrirkomulag Vatnajökulsþjóðgarðs verði endurskoðað og náttúruvernd tryggð mun sterkari aðkoma að stjórnun hans;
- hlutverk Náttúrufræðistofnunar verði eflt við stjórnun og stefnumótun þjóðgarðsins;
- að svæðisstjórn og ráðherra fari eftir bestu fáanlegu þekkingu sem fyrir liggur og vindi ofan af breytingum sínum á vernd Vonarskarðs.
Þá er hér upplýst um að skipun ráðherra í svæðisstjórn Vatnajökulsþjóðgarðs hefur verið kærð til kærunefndar um jafnréttismál. Báðir fulltrúar ráðherra í stjórninni eru karlar og karlar skipa 75% sæta í henni. Sú skipan brýtur gegn ákvæðum jafnréttislaga. Þess má geta að 83% þeirra sem sendu umsögn til þjóðgarðsins um þessa breytingartillögu og vildu auka bílaumferð um Vonarskarð voru karlar.


