Stríð í Reykjanesfólkvangi

Stöndum vörð um náttúru Íslands Landvernd eru frjáls félagasamtök sem starfa að umhverfismálum til að vernda og bæta lífsgæðin í landinu. Landvernd virðir íslenska náttúru og styður sjálfbæra nýtingu hennar. Taktu afstöðu og vertu með! landvernd.is
Eins og fram hefur komið í fréttum er áformað að taka kvikmynd við Arnarfell innan Reykjanesfólksvangs í landi Hafnarfjarðarbæjar. Þar gæti orðið leiksvið mikilla átaka og land og gróður illa leikin. Skrifstofa Landverndar hefur verið í sambandi við Skipulagsstofnun og skrifað bréf til bæjarstjórans í Hafnarfirði um málið.

Hr. Lúðvík Geirsson
Bæjarstjóri í Hafnarfirði

28. júní 2005


Ágæti Lúðvík
Til skrifstofu Landverndar hafa borist upplýsingar um að áformað sé að taka kvikmynd við Arnarfell innan Reykjanesfólksvangs í landi Hafnarfjarðarbæjar. Fólkvangurinn starfar á grundvelli náttúruverndarlaga. Lýsing á þessari starfsemi ber með sér að hún muni hafa í för með sér verulegar jarðvegsframkvæmdir og gróðureyðingu með eldi og umferð. Þá er búist við mikilli umferð starfsmanna og uppsetningu á aðstöðu fyrir þá. Þetta er tímabundið verkefni og áformað er að lagfæra svæðið þegar tökum líkur. Ljóst er af lýsingu að það mun taka nokkurn tíma að svæðið komist aftur í fyrra ástand og er hætt við að náttúrulegu yfirbragði þess verði spillt til lengdar.

Nokkrir aðilar hafa haft málið til meðferðar s.s. Umhverfisstofnun, Landgræðsla ríkisins, stjórn Reykjanesfólksvangs og þar tilbærar nefndir og ráð Hafnarfjarðabæjar. Afstaða þessara aðila til málsins er ekki á einn veg. Málið hefur, að því er skrifstofu Landverndar er kunnugt, ekki verið formlega kynnt almenningi og félagasamtökum og þessum aðilum ekki veittur frestur til að gera athugasemdir. Ef marka má fréttir er ráðgert að taka ákvörðun í málinu n.k. fimmtudag.

Ég hef áhyggju af þessu máli og hefði kosið að samtökin hefðu haft ráðrúm til að kynna sér það og leggja fram álit sitt í þá umræðu sem er nauðsynleg þegar teknar eru ákvarðanir um breytingar á landnotkun innan fólkvangs. Samtök eins og Landvernd þurfa gott ráðrúm til að fjalla um mál af þessu tagi. Bera þarf málið undir fagráð og stjórn og fara á vettvang til að kynna sér aðstæður. Til þess virðist ekki vera ráðrúm nú ef marka má fréttir.

Eins og þér er kunnugt hefur umgengni um Reykjanesfólkvang verið mikið vandamál. Ég hef áhyggjur af því að þessi framkvæmd, þó tímabundin sé, verði ekki til að styrkja málflutning um nauðsyn þess að fara gætilega um land og gróður og virða náttúruarf og menningarminjar sem þar er að finna. Í nýlegri skýrslu um Reykjanesfólkvang (Reykjanesfólkvangur, upphaf, markmið og framtíð, Sigrún Helgadóttir, október 2005) kemur fram sú skoðun að jarðfræði Reykjanesfólksvangs sé merkileg á heimsvísu og að hann búi yfir miklum minjum um lífshætti fólks fyrr á tímum til lands og sjávar. Stjórnvöld hafa lengi sýnt Reykjanesfólkvangi meira tómlæti en hann á skilið. Nú þegar athyglinni er beint að fólkvanginum þá er það vegna framkvæmda sem hafa neikvæð áhrif á ímynd fólkvangsins. Hætt er við því að uppgræðsla í kjölfar framkvæmda nái ekki að breyta þeim neikvæðu áhrifum sem framkvæmdunum muni fylgja. Það yrði því nauðsynlegt að gera átak til að efla ímynd svæðisins og styrkja reksturs fólkvangsins þannig að hann standi undir nafni.

Skrifstofa Landverndar hefur óskað eftir áliti Skipulagsstofnunar á því hvort þessi framkvæmd sé skipulagsskyld og hvort ekki sé eðlilegt að almenningur og félagasamtök hafi rétt til að gera athugasemdir með þeim hætti sem lög segja til um.

Með vinsemd og virðingu,
Tryggvi Felixson, framkvæmdastjóri Landverndar

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd