Bann gegn ræktun frjós eldislax í sjó

Aðalfundur Landverndar álytkaði um stofnun miðhálendisþjóðgarðs, þjóðgarðs á Ströndum og gegn laxeldi með frjóum erlendum laxastofnum

Aðalfundur Landverndar var haldinn í Gunnarsholti á Rangárvöllum sl. laugardag. Eftir fundinn var nýju sjálfboðaliðaverkefni Landverndar í landgræðslu hleypt af stokkunum við Þjófafoss í Þjórsá.

Aðalfundurinn samþykkti 3 ályktanir; um þjóðgarð á miðhálendinu og þjóðgarð á Ströndum og um laxeldi í sjó (sjá í viðhengi).
Tillaga um sameiningu Landverndar og Framtíðarlandsins var samþykkt á fundinum og segir í greinargerð með tillögunni að sameiningin sé til þess fallin að styrkja náttúruvernd í landinu.
Tvö ný verkefni voru kynnt, drög að stefnu Landverndar um vindorkuver og Hreinsum Ísland, nýtt strandhreinsiverkefni samtakanna.
Eftir fundinn hélt Dr. Árni Bragason landgræðslustjóri erindi um hvert eigi að stefna í landgræðslu á Íslandi.

Hvatt til stofnunar Miðhálendisþjóðgarðs og Strandaþjóðgarðs
Aðalfundur Landverndar skoraði á umhverfis- og auðlindaráðherra að vernda miðhálendi Íslands í einum samfelldum þjóðgarði og flýta stofnun hans. Aðeins með þjóðgarði mun Íslendingum auðnast að vernda óbyggðirnar til framtíðar. Þá skoraði fundurinn á landeigendur og sveitarstjórn Árneshrepps á Ströndum að falla frá áformum um að leyfa Hvalárvirkjun og stofna þess í stað þjóðgarð sem stæði vörð um fágæt víðerni, stórbrotna náttúru og eyðibyggðir svæðisins. Engin framtíðarstörf myndu skapast með Hvalárvirkjun í Árneshreppi, en öðru máli gengdi um störf í náttúruvernd í þjóðgarði, auk möguleika á fjölmörgum störfum í náttúrutengdri ferðamennsku.

Vilja bann á ræktun frjós eldislax í sjó
Aðalfundurinn krafðist þess að stjórnvöld móti skýra stefnu sem banni ræktun á eldislaxi í sjó nema tryggt sé að erfðablöndun geti ekki átt sér stað við íslenska laxastofna. Þetta má tryggja með notkun ófrjórra stofna eða ræktun í lokuðum kerfum í sjó eða á landi. Auk þess þurfi að tryggja öflugt eftirlit með starfsemi fiskeldisfyrirtækja. Rannsóknir hafa sýnt að erfðablöndun eldislax við villta stofna Atlantshafslax hafi neikvæð áhrif á lífsferil og möguleika villtra stofna til að bregðast við breytingum í umhverfi til lengri tíma litið vegna erfðabreytinga. Áform um laxeldi í sjó við Íslandsstrendur nema um 185 þúsund tonnum á ári en er nú um átta þúsund. Langtímameðaltal slysasleppinga úr sjókvíum er um einn lax á hvert tonn sem myndi þýða um 185 þúsund laxar á ári sem slyppu eða meira en helmingi fleiri en stofnstærð villtra íslenskra stofna.

Ný stjórn Landverndar
Í stjórn Landverndar sitja tíu manns og stjórnarmenn eru kjörnir til tveggja ára í senn. Að þessu sinni var kosið um formann og fjóra stjórnarmenn. Snæbjörn Guðmundsson jarðfræðingur var kjörinn formaður og auk hans voru kjörin Snorri Baldursson líffræðingur og fráfarandi formaður Landverndar, Guðmundur Björnsson ferðamálafræðingur, Helga Ögmundardóttir mannfræðingur og Hugrún Geirsdóttir umhverfis- og auðlindafræðingur. Snorri og Guðmundur sátu einnig í fyrri stjórn. Fyrir í stjórn samtakanna sitja Ellý Katrín Guðmundsdóttir, lögfræðingur, Lovísa Ásbjörnsdóttir jarðfræðingur, Margrét Auðunsdóttir framhaldsskólakennari, Pétur Halldórsson líffræðingur og Þuríður Helga Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri.

Ársskýrsla Landverndar 2016-2017 má finna hér.

Lesa ályktanir aðalfundar

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd