Náttúra Íslands í myndum Hjörleifs

Blábjörg, landvernd.is
Í tilefni af 70 ára afmæli náttúrufræðingsins og náttúruljósmyndarans Hjörleifs Guttormssonar stendur Landvernd fyrir sýningu á ljósmyndum hans í Öskju. Hagnaður af sölu rennur til Lögverndarsjóðs Landverndar.

Miðvikudaginn 26. apríl verður opnuð ljósmyndasýning í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, í tilefni af 70 ára afmæli náttúrufræðingsins og náttúruljósmyndarans Hjörleifs Guttormssonar. Það er Landvernd sem stendur að sýningunni.

Sýndar verða 28 myndir úr stóru ljósmyndasafni Hjörleifs sem teknar voru á tímabilinu 1968 til 2003. Myndirnar eru frá öllum landshlutum og endurspegla ótrúlegan fjölbreytileika íslenskrar náttúru. Myndirnar eru flestar stækkaðar í 100 cm og njóta sín afar vel í birtunni í Öskju. Sýningin er öllum opin alla daga frá kl 07.30 til 22.00 virka daga og 08.00 til 18.00 á laugardögum. Á sunnudögum er lokað. Sýningin stendur til 18. maí. n.k.

Um náttúrufræðinginn og baráttumanninn Hjörleif Guttormsson
Frá því að Hjörleifur kom heim frá háskólanámi í Þýskalandi árið 1963 hefur hann verið í forystu opinberrar umræðu um umhverfis- og náttúruvernd. Hann starfaði um tíma sem náttúrufræðingur á Austurlandi. Þar átti hann frumkvæði að því að stofna Náttúrugripasafnið í Neskaupsstað, Náttúruverndarsamtök Austurlands og árið 1972 fyrsta fólkvanginn á Íslandi, en hann er við Neskaupsstað.

Hjörleifur sat lengi í Náttúruverndarráði og var um árabil formaður nefndar sem stýrði uppbyggingu þjóðgarðsins í Skaftafelli. Á Alþingi var Hjörleifur frumkvöðull við lagasmíð á sviði umhverfis- og náttúruverndarmála. Hann átti drjúgan þátt í samningu náttúruverndarlaga sem sett voru árið 1999 og bættu mjög stöðu náttúruverndar og styrktu almannarétt. Undanfarin ár hefur Hjörleifur verið mikilvirkur rithöfundur og tekið virkan þátt í umræðum um umhverfis- og náttúruverndarmál.

Hjörleifur hefur fylgst með alþjóðlegri framvindu umhverfismála. Hann sótti fyrsta þing Sameinuðu þjóðanna um umhverfismál í Stokkhólmi 1972. Hann sótti einnig ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Rio de Janeiro árið 1992 og um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg 2002.

Vorið 2002 hlaut Hjörleifur árlega viðurkenningu frjálsra félagasamtaka fyrir dýrmætt framlag til umhverfisverndar. Í umsögn dómnefndar sagði m.a.,,Hjörleifur hefur lagt sig fram um að kynna náttúru og umhverfi landsins. Hann hefur opnað augu almennings fyrir íslenskri náttúru og lagt sitt af mörkum til að fólk kynnist landssvæðum sem áður voru almenningi óþekkt. Hann er höfundur margra bóka um umhverfismál og íslenska náttúru og þekktur baráttumaður fyrir umhverfis- og náttúruvernd.“

Landvernd vill með þessari sýningu draga fram myndir af þeim fjölmörgu dásemdum sem náttúra Íslands býr yfir og um leið heiðra og þakka það mikilvæga starf sem Hjörleifur hefur unnið sem fræðimaður, leiðbeinandi og baráttumaður.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd