Verndun hafs og stranda

Aldrei hafa fleiri flaggað Bláfánanum á Íslandi en í ár. Sex smábátahafnir, þrjár baðstrendur og fimm fyrirtæki í sjávarferðamennsku með alls 30 báta fengu viðurkenningun.
Hafið hefur verið Íslendingum mikilvægt frá örófi alda og sjósókn verið stunduð frá landnámi. Sjávarútvegurinn er einn stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar og því er mikilvægt að Íslendingar séu meðvitaðir um þau vandamál sem steðja að hafinu og lífríki þess. Meðal þeirra stóru vandamála sem að hafinu snúa má nefna súrnun sjávar af völdum loftslagsbreytinga, rányrkju fiskistofna, eyðileggingu búsvæða, ofauðgi vegna næringarefna frá landbúnaði, þrávirk lífræn efni, þungmálmar og plastmengun.
Á undanförnum árum hefur orðið mikil vitundarvakning um málefni hafs og stranda og hefur Ísland t.a.m. verið aðili að alþjóðasamningum sem tengjast hafinu allt frá árinu 1954. Það ár varð Ísland aðili að OILPOL-samningnum en hann fjallar um varnir gegn mengun sjávar af völdum olíu. Ísland er einnig aðili að OSPAR-samningnum, sem er samningur um verndun hafrýmis Norðaustur-Atlantshafsins, og MARPOL-samningum, sem fjallar um varnir gegn mengun sjávar frá skipum, svo eitthvað sé nefnt.
Árið 2002 innleiddi Landvernd alþjóðlegu umhverfisvottunina Bláfánann (e. Blue Flag) á Íslandi. Bláfáninn er veittur smábátahöfnum, baðströndum og þjónustuaðilum í sjávarferðamennsku fyrir árangursríkt starf að umhverfismálum. Meginmarkmið verkefnisins er að vernda lífríki og haf- og strandsvæði, draga úr umhverfisáhrifum með kerfisbundnum hætti, bæta öryggi og efla umhverfisvitund.
Aldrei hafa fleiri flaggað Bláfánanum á Íslandi en í ár. Sex smábátahafnir, þrjár baðstrendur og fimm fyrirtæki í sjávarferðamennsku með alls 30 báta fengu viðurkenninguna. Á alþjóðavísu hlutu rúmlega 4400 vottunina í 46 löndum. Handhafar Bláfánans árið 2017 eru:
Þjónustuaðilar í sjávarferðamennsku
  • Ambassador á Akureyri
  • Elding í Reykjavík
  • Norðursigling á Húsavík
  • Special Tours í Reykjavík
  • Whale Safari í Reykjavík
Smábátahafnir
  • Smábátahöfnin á Bíldudal
  • Smábátahöfnin á Patreksfirði
  • Smábátahöfnin á Suðureyri
  • Smábátahöfnin í Stykkishólmi
  • Bátahöfnin við Hafnarhólma á Borgarfirði eystri
  • Fossvogshöfn í Kópavogi
Baðstrendur
  • Bláa lónið
  • Langisandur á Akranesi
  • Ylströndin í Nauthólsvík
Bláfáninn er tákn um gæði í margvíslegum skilningi og hver sá sem fær að flagga honum getur verið stoltur af vinnu sinni að umhverfismálum. Það er sæmandi fiskveiðiþjóð og ferðamannalandi að gera kröfur um framúrskarandi umhverfisstjórnun við haf- og strandsvæði landsins og er Bláfáninn öflugt tæki til að stuðla að því.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd