Losun manna á gróðurhúsalofttegundum líkt og koltvíoxíði, veldur hamfarahlýnun á jörðinni.

Gróðurhúsaáhrif eru náttúrulegt fyrirbæri og án þeirra væri ekki líft á jörðinni. Athafnir fólks losa mikið af gróðurhúsalofttegundum út í loftið með iðnaði, landbúnaði og bruna jarðefnaeldsneytis. Þetta veldur auknum gróðurhúsaáhrifum og hækkun hitastigs á jörðinni.

Gróðurhúsaáhrifin eru okkur lífsnauðsynleg, en allt er gott í hófi!

 

Geislar sólar berast til jarðar. Hluti geislanna endurkastast af lofthjúpnum aftur út í geim. Yfirborð jarðar gleypir í sig stóran hluta varmans en hluti varmans kastast aftur frá jörðu út í andrúmsloftið. 

Lofttegundirnar í lofthjúpnum gleypa hluta af þessum endurkastaða varma og halda honum að jörðinni þannig að hann sleppur ekki út í geiminn. Þannig helst hiti á jörðinni, svolítið eins og hún væri í lopapeysu. 

Þessar lofttegundir eru kallaðar gróðurhúsalofttegundir enda virka þær að nokkru leiti eins og gróðurhús. Kolefni (CO2) ásamt öðrum gróðurhúsalofttegundum eins og t.d. metan (CH4) og vatnsgufa (H2O(g)) er að finna í lofthjúpi jarðar. 

Þetta náttúrulega fyrirbæri kallast gróðurhúsaáhrif og án þeirra væri meðalhiti á jörðinni um 30 gráðum lægri en hann er núna, eða um -18°C og þá væri jörðin of köld til að við gætum lifað af.

Stóriðja, sér í lagi framleiðsla málma er stærsti valdur mengunar á Íslandi á eftir flugsamgöngum, á myndinni má sjá Elkem á Grundartanga, landvernd.is
Athafnir fólks eins og stóriðja veldur mikilli losun gróðurhúsalofttegunda.

Athafnir fólks valda auknum gróðurhúsaáhrifum

 

Athafnir fólks á jörðinni losa mikið af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið. Iðnaður, landbúnaður og bruni jarðefnaeldsneytis, t.d. við vöruflutninga og samgöngur veldur auknum gróðurhúsaáhrifum og þá hækkar hitinn á jörðinni. Það má því segja að lopapeysan verði of þykk. 

Lofttegundin CO2 á sér mörg nöfn og það getur verið svolítið ruglingslegt. M.a. er talað um koltvísýring, koltvíoxíð (eða koldíoxíð) og jafnvel koltvíildi en allt eru þetta nöfn yfir sama hlutinn. Sameind sem samanstendur af einni kolefnisfrumeind (C) og tveimur súrefnisfrumeindum (O2). Koltvíoxíð er litlaus sameind. Oft er líka talað um kolefni (á ensku: carbon) til einföldunar og það er gert hér í þessari grein. 

 

Kolefnishringrásin

Kolefni
Teikning: Ari Hlynur Guðmundsson Yates

Jafnvel þó að flestir tali um þessa lofttegund í dag eins og hún sé „vondi karlinn“ eða jafnvel mengun þá er hún mikilvægur hluti af lofthjúpnum á jörðinni sem heldur okkur á lífi. Við öndum t.d. frá okkur koltvíoxíði og plönturnar og aðrar ljóstillífandi lífverur breyta honum í súrefni of sú hringrás heldur áfram endalaust. 

Þegar kolefni er aukið í andrúmsloftinu okkar (af mannavöldum) þá veldur það breytingum á loftslaginu sem skýrir af hverju kolefni er oft talið slæmt.

Lífverur (og við sjálf) innihalda mikið magn af kolefni (C) og þegar t.d. regnskógur brennur þá losnar þetta kolefni út í andrúmsloftið, binst súrefni og myndar CO2.