Verkefni sem hefur það að markmiði að efla vitund nemenda um náttúruna með því að kanna boðskap í ljóðum og tónlist. Verkefni fyrir 5-16 ára

Aldur: 5-16 ára

Tími: 1-2 kennslustundir. Getur verið lengra, t.d. misserisverkefni.

Markmið:

  • Að efla vitund nemenda um náttúruna með því að kanna boðskap í ljóðum og tónlist 
  • nemendur túlka áhrif tónlistar og ljóða (listgreina) á viðhorf fólks til umhverfisins.
  • nemendur öðlist færni í að afla gagna, njóta ljóða og tónlistar, vinna úr upplýsingum, túlka upplýsingar á lýðræðislegan hátt og að mynda sér sjálfstæðar skoðanir á niðurstöðum. 
  • nemendur koma skoðunum sínum á framfæri frammi fyrir hópi samnemenda.

Efni og áhöld: Náttúruverkefni, Námsgagnastofnun 1994, bls. 153-154, þýðing og staðfærsla Sigrún Helgadóttir. Tónlist, tæki og aðstaða til að hlusta á tónlist. Prentuð ljóð eða ljóð á skjá. Hljóðfæri, skriffæri, tölvur, áhöld til listsköpunar og landakort, allt eftir áherslum kennara.

Framkvæmd:

Kennari og nemendur velja tónlist með textum sem fjalla um náttúruna. Textar og ljóð eru lesin eða sungin og krufin í leit að boðskap um náttúru og umhverfi. Leitast er við að greina áhrif ljóðs og lags á viðhorf fólks til umhverfis- og náttúru. Unnin er greining á því hvað vakir fyrir ljóðahöfundi með yrkisefninu. Nemendur eða fulltrúi hvers hóps kynnir og túlkar upplifun sína á viðfangsefninu. Verkefnið má útfæra með því að nemendur útbúi myndband eða myndverk við ljóð og lag. Nemendur gætu samið söng um náttúruna.

Hentar nánast öllum aldri, meira sjálfstæði í vinnubrögðum í takt við aukinn þroska nemenda. Hentar að hafa 3-5 nemendur í hópi.

 

Ísland er land þitt

 

Ísland er land þitt, og ávallt þú geymir

Ísland í huga þér, hvar sem þú ferð.

Ísland er landið sem ungan þig dreymir,

Ísland í vonanna birtu þú sérð,

Ísland í sumarsins algræna skrúði,

Ísland með blikandi norðljósa traf.

Ísland að feðranna afrekum hlúði,

Ísland er foldin, sem lífið þér gaf.

 

Íslensk er þjóðin sem arfinn þinn geymir

Íslensk er tunga þín skír eins og gull.

Íslensk er sú lind,sem um æðar þér streymir.

Íslensk er vonin, af bjartsýni full.

Íslensk er vornóttin, albjört sem dagur,

Íslensk er lundin með karlmennskuþor.

Íslensk er vísan, hinn íslenski bragur.

Íslensk er trúin á frelsisins vor.

 

Ísland er land þitt, því aldrei skal gleyma

Íslandi helgar þú krafta og starf

Íslenska þjóð, þér er ætlað að geyma

íslenska tungu, hinn dýrasta arf.

Ísland sé blessað um aldanna raðir,

íslenska moldin, er lífið þér gaf.

Ísland sé falið þér, eilífi faðir.

Ísland sé frjálst, meðan sól gyllir haf.

 

Magnús Þór Sigmundsson/Margrét Jónsdóttir

 

Paradís

 

Ég man mitt Ísland,

mitt ómfagra Ísland,

þegar sólin skín um nótt

og heitur hver gýs.

 

Brosið þitt blíða,

blóðbergið mitt fríða.

Þínir ljósgullnu lokkar

og laufguð er björk.

 

Ég ann þér Ísland,

ég ann þér vina

ég nýt þín um nætur

uns nýr dagur rís.

 

Og ég hélt ég væri,

já, ég hélt ég væri,

ég hélt ég væri kominn

hálfa leið í paradís.

Hvílík nánd samt svo fjarri því.

 

Ég ann þér Ísland,

ég ann þér vina

þegar sólin skín um dag

og ilmar græn jörð.

 

Ég ann þér Ísland,

ég ann þér vina

þegar vont er veður

og vindurinn hvín.

 

Ég ann þér Ísland,

ég ann þér vina

þegar fönnin fýkur

og frostið er kalt.

 

Og mér finnst ég vera,

já, mér finnst ég vera,

mér finnst ég vera kominn

alla leið í paradís.

Hvílík nánd með þér í paradís.

 

Ég ann þér Ísland,

ég ann þér vina.

Þegar nótt er niðdimm

og norðurljós græn.

 

Ég ann þér Ísland,

ég ann þér vina.

Þegar grassins dögg grætur

og golan er hlý.

 

Þú elur mig Ísland.

Þú elskar mig vina.

Þegar lífsgöngu líkur

leggst torf yfir ná.

 

Þú elur mig Ísland.

elskar mig vina.

Þökk sé þér móðir.

Þökk sé þér mær.

 

Og ég veit ég er,

já, ég veit ég er,

já, ég er núna kominn

alla leið í paradís.

Hvílík nánd með þér í paradís.

 

Lag og ljóð Steinn Kárason

 

Ísland, Ísland eg vil syngja

 

Ísland, Ísland eg vil syngja

um þín gömlu, traustu fjöll,

þína hýru heiðardali,

hamraskjól og vatnaföll,

þína fögru fjarðarboga,

frjálsan blæ og álftasöng,

vorljós þitt og vetrarloga,

vallarilm og birkigöng.

 

 

 

Ísland, Ísland eg vil búa

alla stund í faðmi þér.

Huga minn og hjarta áttu

hvert sem vængi lífs míns ber.

Vætta tryggðin vaki yfir

vogum þínum, hlíð og strönd

meðan ást og óður lifir

og í norðri blómgast lönd.

 

Sigurður Þórðarson/Hulda (Unnur Benediktsdóttir Bjarklind)

Tengill inn á www.youtube.com

 

 

Ísland

 

Þú álfu vorrar yngsta land,

vort eigið land, vort fósturland!

Sem framgjarns unglings höfuð hátt

þín hefjast fjöll við ölduslátt.

Þótt þjaki böl með þungum hramm,

þrátt fyrir allt þú skalt, þú skalt samt fram.

 

Þú álfu vorrar yngsta land,

vort eigið land, vort fósturland!

Þú gafst oss fagurt móðurmál

og mótað hefur vora sál.

Þú elur þá sem elskum vér.

Allt sem vér höfum, höfum vér frá þér.

 

Sigfús Einarsson/Hannes Hafstein

Tengill inn á www.youtbe.com

 

Sá ég spóa

 

Sá ég spóa suð’r í flóa,

syngur lóa út í móa.

Bí, bí, bí, bí.

Vorið er komið víst á ný.

 

Ísl. þjóðlag/Höf. ókunnur.

Tengill á www.youtube.com