Nemendur fræðast um það að búsvæði lífvera er ólíkt og stjórnast af þörfum þeirra. Nemendur fá kort af búsvæði merkt tilteknu dýri og slóð þess sem þeir eiga að rekja á skólalóðinni. Nemendum rekja slóð dýrsins og leita þess sem það þarfnast til að geta lifað. Verkefni fyrir 6-10 ára

Aldur:  6-10 ára

Tími: 2-3 kennslustundir

Markmið:

  • Að nemendur læri um hugtakið búsvæði og þá þætti sem tengjast því
  • Að nemendur átti sig á því að búsvæði lífvera er ólíkt og stjórnast af þörfum þeirra

Efni og áhöld: Kort af skólalóð (teiknað eða byggingarteikning), litlir miðar, blað, skriffæri og lím

Framkvæmd:

Undirbúningur kennara

Kennarinn útbýr er einfalt kort af skólalóðinni sem sýnir gangstéttar, byggingar og leiksvæði. Frumritið er geymt til að hægt sé að nota það seinna en útbúin afrit af því, eitt fyrir hvern þriggja nemenda hóp.

Valin eru nokkur dýr sem hægt er að hugsa sér að hafi skilið eftir sig slóð, t.d. hrafn, snjótittlingur, köttur, hundur, refur, mús, hestur, kýr og barn.

Á hvert kort er teiknuð leið einhverns dýrs og gerð eins raunveruleg og hægt er en þó látin hefjast við skólann og liggja þangað aftur. Skrifið nafn dýrsins ásamt orðinu BÚSVÆÐI efst á hvert kort, t.d.: BÚSVÆÐI REFS. ÞAÐ SEM REFIR ÞURFA TIL AÐ GETA LIFAÐ.

Búið til vinnublað fyrir hverja kortlagða dýraslóð. Vinnublöðin eru eins að öðru leiti en því að þau eru í mismunandi litum. Á hverju blaði eru myndir sem tákna fæðu, vatn, skjól og rými, (t.d. silungur/fugl, lækur/tjörn, greni/hola, fjallshlíð/fjara).

Klipptir eru út litlir miðar en hver þeirra táknar fæðu, vatn, rými eða skjól. Þessir búsvæðabútar eiga að falla að samsvarandi myndum á vinnublaðinu sem þeir fylgja og vera í sama lit og það. Ef vinnublað um refinn er brúnt eru búsvæðabútarnir hans líka brúnir. Farið er út á skólalóðina rétt áður en leikurinn hefst og búsvæðabútunum dreift meðfram slóð viðkomandi dýrs. (Munið að segja öðrum kennurum og nemendum frá slóðunum og biðja þá að skemma þær ekki).

Dæmi: Á BÚSVÆÐI REFSINS gæti fæðan verið við runnagróður, vatn við poll, rými á leiksvæðinu og skjól á milli steina. Nokkrir búsvæðabútar mismunandi dýra þurfa og geta verið á sama svæðinu, það auðveldar eftirlit með börnunum. Litamerkingin kemur í veg fyrir að bútarnir ruglist saman. Nemendurnir, hver hópur með sitt kort og vinnublað, leita aðeins búta í sama lit og vinnublaðið þeirra.

Nemendur

Bekknum er skipt í hópa, þrír nemendur í hverjum.

Hver hópur fær kort af búsvæði merkt tilteknu dýri og slóð þess sem þeir eiga að rekja. Nemendum er sagt að þeir hafi tíu mínútur til að rekja slóð dýrsins og leita þess sem það þarfnast til að geta lifað. Hver hópur fær vinnublað sitt merkt dýrinu og bréfpoka til að setja búsvæðabútana í þegar þeir finnast.

Nemendum er sagt að alltaf verði að rekja dýraslóðir mjög hljóðlega. Allir hóparnir fara hljóðlega út. Hver hópur skoðar kortið sitt og rekur dýraslóðina sem merkt er á það. Til að skipta verkum getur einn nemandi haldið á kortinu, annar á vinnublaðinu og sá þriðji á bréfpokanum fyrir búsvæðabútana. Nemendum er sagt að þeir muni finna hluti sem tákna það sem dýrin þarfnast til að geta lifað. Þegar þeir finna eitthvað sem er eins á litinn og vinnublað þeirra skuli þeir setja það í pokann. Þeir eiga að finna búta sem eru eins og myndirnar á vinnublöðunum.

Allir nemendurnir fylgja svo slóðinni aftur inn í skólastofuna innan tíu mínútna.

Þegar nemendurnir koma aftur inn fá þeir lím til að þeir geti fest búsvæðabútana á vinnublaðið.

Þegar búsvæðablöðin eru tilbúin er hópnum boðið að segja frá hvað þeir fundu og hvar. Nemendur eru spurðir hvort allir hafi fundið fæðu. Þegar þeir játa því er skrifað á töfluna FÆÐA og þar teiknuð táknmynd fyrir fæðu. Endurtekið með vatn, rými og skjól. Einn nemandi í hverjum hópi er beðinn að draga línu sem tengi alla fjóra búsvæðabútana í hringlaga form. Þá fæst táknmynd með yfirskriftinni SKIPAN. (Línan sem tengir fæðu, vatn rými og skjól táknar að þessir þættir verða að vera í hæflilegri skipan fyrir dýrið á búsvæði þess.)

Nemendum er sagt að fæða, vatn rými og skjól verði að vera í hæfilegri skipan til að dýrin geti lifað. Þau þurfa t.d. að hafa hæfilegt rými til að geta þrifist. Refur þarf meira rými en lítið skordýr. Dýr þurfa að hafa hæfilega mikla og rétta gerð af fæðu. Fæða, vatn og skjól verða að vera fáanleg þegar dýrin þurfa þessa með o.s.frv.

Til viðbótar

Hafið tiltækan garnhnykil í skærum lit. Hvert barn er merkt með; fæða, vatn, skjól eða rými. Þættirnir eru látnir tengjast á þann hátt að hvert barn tekur í garnið og þau tákna öll, tengd hvert öðru með garninu, hæfilega skipan fæðu, vatns, skjóls og rýmis sem uppfyllir þarfir dýra. Í fyrstu er notaður mjög langur spotti svo að börnin geta staðið langt frá hvert öðru sem getur táknað að sum dýr, t.d. refir og fálkar, þurfa stórt búsvæði til að geta lifað. Önnur dýr, svo sem skordýr, þurfa lítið búsvæði. Það geta börnin táknað með því að halda öll í stuttann spotta og þurfa þá að standa þétt saman.