Verkefni þar sem nemendur læra um niðurbrot efna í umhverfinu, læra um lífræn og ólífræn efni. Gera athuganir þar sem niðurbrot efna er skoðað. Verkefni fyrir 4-10 ára

Aldur:  4- 10 ára

Tími: tímabil

Markmið:

  • Að kanna niðurbrotsferil ákveðinna hluta – bæði lífrænna og ólífrænna
  • Að kynna fyrir krökkum að sumir hlutir eru lengi að brotna niður og sumir gera það aldrei alveg.
  • Að útskýra fyrir þeim muninn á lífrænum og ólífrænum hlutum.

Efni og áhöld: Aðgangur að landsvæði sem má taka undir verkefnið (hér er það leikskólalóð), skófla, spítnaplanki/fjöl, grjót ásamt efni sem á að kanna að eigin vali s.s. bananahýði, fiskur, kjöt, brauð, ullarhnoðri, kaffipoki, maíspoki, plastpoki, snærisspotti, glerflaska utan af matarlit, dótabíll, plastlok og einnota bleyja.

Framkvæmd:

Efsta lagi jarðvegs er flett upp svo úr verði afmarkað svæði. Hlutum sem valdir hafa verið í tilraunina er raðað hlið við hlið á svæðið. Þunnur spítuplanki er lagður yfir hlutina. Grjót er sett ofan á plankann til að hann fjúki síður. Eftir viku er kíkt undir plankann og staðan tekin, hvaða hlutir eru byrjaðir að brotna niður, kíkt aftur undir plankann tveim vikum síðar og svo er kíkt mánaðarlega undir og staðan tekin. Þetta verkefni getur staðið yfir í margar aldir, allt eftir því hvaða hlutir eru settir undir plankann.

Það er hægt að hafa einungis lífrænan úrgang og fylgjast með því hvað brotnar niður fyrst og hvað síðast. Það gæti verið áhrifamikið sérstaklega ef plankinn fær að vera í friði. Þá getur verið gaman að kíkja undir plankann árlega, eða á hálfs árs fresti og athuga hvort einhverjar breytingar hafa átt sér stað á plasti, gleri og bleyju. Með því móti verður það áþreifanlegra fyrir börnin að átta sig á því að rusl er alvarlegur skaðvaldur fyrir náttúruna þar sem það tekur óratíma að brotna niður.

Einnig er tilvalið að fara í umræðu um hringrásir í tengslum við verkefnið, þ.e. hvernig lífrænt efni brotnar niður og er tekið upp af plöntum.