Nemendur skoða það sem mannfólkið þarfnast til að lifa og skipuleggja lítið samfélag sem hefur allt sem það þarf í litlu geimskipi. Verkefni fyrir 10-20 ára nemendur.

Aldur: 10-20 ára

Tími: 2-4 kennslustundir

Markmið:

  • Að nemendur þjálfist í gagnrýnni hugsun
  • Að nemendur skoði neyslu sína og lífsvenjur
  • Að nemendur setji sig í spor ráðamanna og skipuleggi lítið samfélag

Efni og áhöld: Stórt blað/veggspjald, skriffæri og litir

Aðferð:
Hvað ef jörðin verður ekki lengur byggileg? Getum við farið eitthvert annað?
Ykkur er hér með falið að undirbúa og taka þátt í mesta ævintýri okkar tíma. Þið eigið að undirbúa ferð risageimskips, sem á að ferðast til fjarlægra sólkerfa. Undirbúningur ykkar felst í því að ákveða hvaða búnað og vistir á að taka með og hversu mikið af hverju.

Vinnið 3-4 saman í hóp.

Hafið eftirfarandi í huga:
Ferðin mun taka 6.000 ár.
Þið þurfið ekki að hugsa um geimskipið sjálft, hvorki hvað varðar eldsneyti til að knýja það áfram né til að halda því við.
Þið megið einungis nota tækni sem er til staðar í dag.
Þið fáið næga sólarorku alla ferðina.
Þið fáið ekki að vera fleiri en 500 um borð í einu.
Hvað takið þið með? Mat, föt, vatn, fólk, tæki, hráefni…

Hvernig viðhaldið þið fólksfjöldanum?
Hvað gerið þið við úrgang?
Hvernig er stjórnarfarið?

Teiknið mynd af geimskipinu ykkar á stórt blað og látið koma fram hvernig ofantöldum hlutum verður háttað. Í lokin kynnið þið ykkar geimskip fyrir bekknum.

Til eru ýmsar útfærslur á þessu verkefni.

Sjá t.d. The mission

Nauðsynjar, þema í verkefninu Jörð í hættu!?