Ánamaðkar breyta matarafgöngum í moltu
Nokkrir grænfánaleikskólar hafa prófað að nýta sér haugána í moltugerð, m.a Leikskólinn Akrasel, Njarðvíkurskóli og Leikskólinn Tjarnarsel, sem á heiðurinn að þessu verkefni.
Markmið: Í þessu verkefni er búin til molta innandyra með haugánum. Við lærum um hringrás matarins með því að gefa ánamöðkum lífræna afganga sem umbreytast í moltu.
Framkvæmd
Skoðið bækur eða leitið á netinu til þess að fræðast um haugána.
Milli himins og jarðar – Ánamaðkar (mms.is)
Finnið stórt plastbox. Setjið göt á botninn, hliðarnar og lokið á plastboxinu. Setjið dagblöð í botninn, mold yfir og að lokum setjið þið maðkana í moldina.
Gefið möðkunum reglulega matarleifar úr eldhúsinu eins og grænmeti, eggjaskurn, kaffikorg,te o.fl. Það má líka setja lauf, gras, pappír og bylgjupappa, eggjabakka. Forðist að gefa þeim mat eins og kjöt, fisk, korn og mjólkurvörur, sítrusávexti, lauk og hvítlauk. Ekki gefa þeim ofmikið, þá er hætta á að flugur láti sjá sig.
Skráið niður ferlið (alla vega einu sinni í viku) og takið myndir reglulega. Skrifið niður hvenær þið gefið haugánunum og takið mynd fyrir og eftir. Reynið að finna út hvaða mat þeim líkar best við.
Passið að moltan sé alltaf nægjanlega rök.
Tilvalið er að gera hugtakakort um hringrás fæðunnar og hlutverk ánamaðkanna. Gott er að gera það bæði fyrir og eftir verkefnið til að sjá hvað nemendur hafa lært á ferlinu.
Ítarefni
mismunandi gerðir moltu – UST_Jardgerdarefni.pdf
Frétt af haugána verkefninu í Njarðvíkurskóla – Haugánar og Grænker í Njarðvíkurskóla – YouTube
Frásögn og myndir frá Njarðvíkurskóla – Endurvinnsla og moltugerð með haugánum í Njarðvíkurskóla | Njarðvíkurskóli (njardvikurskoli.is)