Verkefni þar sem nemendur læra um dýr sem eru falin í náttúrulegu umhverfi í nágrenni skólans eða á skólalóðinni. Verkefni fyrir 5-12 ára

Aldur: 5-12 ára

Tími: valkvætt, hugmynd að hafa þetta 2 sinnum hálfur dagur

Markmið:

  • auka virðingu fyrir lífi og náttúru
  • læra um dýr sem eru falin í náttúrulegu umhverfi
  • í nágrenni skólans eða á skólalóðinni

Efni og áhöld: uppflettirit um dýr, tímarit, veggspjald, skæri, lím, mold, stækkunargler, skóflur, blómapottar, myndavél, sími með appinu Plant Snap

Framkvæmd:

  1. Útbúið fræðsluhorn Útbúið setkrók með fræðibókum og tímaritum um dýr, skordýr og plöntur. Nemendur skoða og ræða myndirnar. Hvaða dýr er hægt að finna í moldinni?
  1. Veggspjaldsgerð, nemendur búa til veggspjald þar sem þeir teikna náttúrulegt umhverfi sem er bæði ofan- og neðanjarðar. Nemendur klippa út úr tímaritum myndir af plöntum og dýrum. Þau líma myndirnar á veggspjaldið sitt eftir því hvar plönturnar og dýrin búa. Upplagt er að ræða hvort þau hafi séð plönturnar eða dýrin úti í garði, úti í sveit eða í villtri náttúru? Finnið nöfnin á dýrunum og plöntunum sem fara á veggspjaldið.
  1. Rannsakið jarðveg í skólastofunni. Útvegið mold, það gæti verið mold af skólalóðinni eða úr garði í nágrenninu. Dreifið úr moldinni. Nemendur rannsaka moldina og nota öll skynfæri (snerta, lykta, skoða). Nemendur fá góðan tíma til þess að rannsaka hvað leynist í moldinni (lauf, rætur, greinar, skordýr). Sniðugt er að nota stækkunargler eða smásjá til þess að rannsaka moldina betur. Ræðið við börnin hvað þau sjá. Hvaða skordýr finna þau? Hvað skyldu þau borða? Hversu stór gætu þau orðið? Einnig er hægt að nota sigti til að sjá betur hvað er í moldinni.
  1. Gönguferð um nærumhverfi. Hafið meðferðis sigti, potta, skóflur, stækkunargler og snjallsímasmásjá. Nemendur taka myndir af því sem þeim finnst áhugavert í ferðinni. Hægt er að nota Plant Snap til þess að þekkja plöntur sem nemendur sjá.
  1. Ræðið hvað börnunum fannst áhugavert, skoðið myndirnar sem þau tóku í gönguferðinni. Berið saman moldina frá skólalóðinni og mold sem þið finnið í göngunni, er eitthvað ólíkt?
  1. Ræðið umgengni við plöntur og dýr. Hægt er að endurtaka rannsóknina á mismunandi árstímum eða með ólíkum jarðvegi, eins og sandi, mýri, graslendi.

 

Aðrir möguleikar

Skiptið nemendum í tvo eða þrjá hópa og rannsakið ólíkan jarðveg, hægt er að skoða jarðveg á skólalóð, í garði eða skógi. Merkið svæðið sem ætlunin er að skoða t.d. með bandi (um einn fermetra). Áður en rannsóknin fer fram eiga nemendur að giska á hvað leynist í moldinni. Þau snerta, lykta af moldinni og hlusta jafnvel líka. Heyrist eitthvað í moldinni? Skoðið moldina með stækkunargleri eða snallsímasmásjá. Nemendur skrifa niður hvað þau finna, taka myndir eða teikna mynd. Að rannsókn lokinni koma þau aftur inn í skólastofuna og segja frá hvað þau fundu. Þau sýna myndir sem þau tóku og teikningar. Ræðið hvaða jarðvegur er bestur, í skógi, garði eða á skólalóð. Nemendur setja niðurstöður sínar á veggspjald.