Í þessu verkefni fara nemendur í plöntuskoðun og læra að þekkja innlendar íslenskar plöntur í nágrenni skólans. Að auki læra nemendur að skilja mikilvægi plantna í íslenskri náttúru og að þekkja búsvæði þeirra og mikilvægi þess að vernda lífbreytileika þessara visterfa. Verkefni fyrir 10-20 ára.

Aldur: 10-13 ára. Plöntuverkefni fyrir unglingastig og framhaldsskóla (14-20 ára) er að finna í námsefninu Náttúra til framtíðar.

Tími: Þetta verkefni tekur samtals 1-2 kennslustundir í senn. Hægt er að endurtaka verkefnið árlega en hafið í huga að sumar plöntur eru ekki byrjaðar að vaxa/blómstra í lok maí og sumar plöntur hafa fölnað þegar skóli hefst aftur að hausti. Það er því best að fara í plöntuskoðun eins seint á vorin og hægt er eða eins snemma á haustin og hægt er.

Markmið: Tilgangur þessa verkefnis er að vekja athygli nemenda á innlendum íslenskum plöntum, búsvæðum þeirra og hve einstaklingar af sömu tegund geta verið ólíkir. Breytileiki innan tegunda er hluti af lífbreytileika. Í lok verkefnis eiga nemendur að:

  • Þekkja helstu hópa plantna í Flóru Íslands
  • Kunna að nota Plöntuvef Menntamálastofnunar og þekkja helstu innlendu og íslensku plöntur í nágrenni skólans
  • þekkja birki frá öðrum tegundum trjáa og skilja mikilvægi náttúrulegra birkiskóga á Íslandi. Í nytjaskógrækt eru notaðar framandi trjátegundir og slíkir skógar heyra undir landbúnað en ekki náttúruskóga
  • Þekkja mismunandi búsvæði íslenskra plantna og mikilvægi þess að vernda lífbreytileika þessara visterfa.

Fræðsla og undirbúningur

Áður en lagt er af stað í plöntuskoðunarferð er gott að vera vel undirbúin svo hægt sé að greina plönturnar til tegunda fljótt og vel. Skoðið plöntuhandbók eða farið inn á Plöntuvef Menntamálastofnunar og finnið upplýsingar um helstu plöntur í náttúru Íslands og þær sem líklegt er að finna í ykkar nágrenni. Birki er eina trjátegundin á Íslandi sem myndar náttúrulega skóga. Þá er allt tilbúið til að skrá fyrstu plönturnar inn. Munið að í nágrenni skólans er eflaust mikið um framandi tegundir (sem sumar hverjar eru ágengar) og mikilvægt er að gera greinarmun á þeim og innlendum íslenskum plöntum.

Verkefnavinna

1.       Skoðið og kortleggið gróður á náttúrusvæði í nágrenni skólans.

a.    Þið getið annaðhvort mælt gróður mjög vísindalega á litlu svæði (sjá aðferðafræði í tilraun 1 – Skítatilraun í námsefninu Náttúra til framtíðar fyrir unglingastig og framhaldsskóla) eða skoðað og skráð helstu tegundir á stærra svæði. Það má líka gera bæði. Munið bara að íslenskar plöntur eru oft smávaxnar og því er alltaf gott að horfa vel niður fyrir sig og jafnvel hafa stækkunargler með í för.

b.       Safnið saman niðurstöðum bekkjarins og setjið niðurstöðurnar upp í töflureikni. Hvaða plöntutegundir voru algengastar? Hversu margar tegundir funduð þið? Hverjar af þeim eru innlendar og hverjar eru framandi?

c.       Funduð þið einhverjar framandi eða jafnvel ágengar framandi tegundir? Veltið fyrir ykkur hvort þörf sé á aðgerðum og hvernig hægt væri að koma í veg fyrir útbreiðslu þeirra.

2.       Farið út fyrir skólastofuna, finnið birkitré, takið sýni (blöð, börk, rekla og fleira) og skoðið í skólastofu. Teiknið upp og lærið um birkiskóga og af hverju þeir eru mikilvægir.

a.       Hvernig er hægt að þekkja birkilauf frá öðrum laufum?

b.       Hvaða aðrar tegundir lífvera lifa í birkiskógum?

c.       Af hverju eru íslenskir birkiskógar mikilvægir fyrir náttúru Íslands?

d.       Hvernig er hægt að endurheimta íslenska birkiskóga?

   Veljið plöntu og skoðið búsvæði hennar.

o   Lýsið búsvæðinu og hvað plantan þarf til að þrífast.

o   Hvað gerist ef búsvæðið hverfur eða breytist í eitthvað allt annað (t.d. þegar grónum móa er breytt í skóg)?

o   Af hverju er mikilvægt að varðveita lífbreytileika þeirra vistkerfa sem plönturnar eru í?