Aldur: hentar öllum aldri
Það er skemmtilegt að rækta grænmeti, ávexti og kryddjurtir með nemendum. Ræktun hefur margar jákvæðar hliðar.
Við stuðlum að sjálfbærari lífsháttum, losnum við ýmsa milliliði sem tengjast matvælaframleiðslu, það þarf ekki að flytja það inn með flugi eða skipi, við erum laus við umbúðir sem eru oft úr plasti, einnig getur þú verið viss um að ræktunin sé lífræn og laus við eitur. Heimaræktaðar plöntur bragðast líka einstaklega vel og gaman er að njóta uppskerunnar saman.
Ræktunarstörf vekja til umhugsunar um hvernig matur verður til. Matur verður ekki til fyrir einhverja galdra í búðinni, heldur hafa allar matvörur sína sögu og koma einhvers staðar frá. Flestar matvörur tengjast ræktun eða landbúnaði á einhvern hátt og þurfa þær vatn, sólarljós og góðan jarðveg.
Með því að fylgjast með vaxtarferli frá fræi til plöntu kynnast nemendur ferlinu og læra að annast plöntur og átta sig á að þær þurfa tíma til þess að vaxa.
Framkvæmd
Sýnið nemendum ýmsar tegundir af grænmeti, ávöxtum og kryddjurtum, skoðið og smakkið. Veltið fyrir ykkur útlit þess og heiti.
Hvaðan kemur grænmetið og ávextirnir, frá hvaða landi?
Hvaða plöntur er hægt að rækta á Íslandi?
Hvernig fara grænmetisbændur að á veturnar?
Hvert er þitt uppáhalds grænmeti?
Hvaða hlutverk hafa plöntur í okkar daglega lífi?
Hvert er hlutverk þeirra í matvælaframleiðslu?
Hver er hollusta plantna?
Finnið fræin í ávöxtunum og grænmetinu, til að fá kryddjurtafræ er þægilegast að kaupa þau búð. Ræðið að fræ eru misstór, sum eru agnarsmá eins og basilikufræ, en önnur stór eins og avókadósteinn. Þó að fræ séu ólík þá hafa þau alltaf sama hlutverk, sem er að búa til nýja plöntu.
Veljið ykkur tegundir sem þið viljið prófa að rækta. Ræðið hvort fræið muni verða að plöntu og hvaða aðstæður séu bestar fyrir plöntuna.
Hægt er að prófa ýmsar tegundir. Leiðbeiningar um ræktun ólíkra plantna er m.a. að finna í bókinni Lifandi náttúra – Lífbreytileiki á tækniöld. – Skólar á grænni grein (landvernd.is)
Hér eru leiðbeiningar um hvernig rækta má papriku
Sækja fræ: Skerið papriku í tvennt og takið fræin úr. Leggið fræin á eldhúspappír og leyfið þeim að þorna þar.
Forrækta: Setjið sáðmold (moltu) og fræ í lítinn glæran plastpoka. Þá sést vel þegar rætur byrja að myndast.
Vökvun: Vökvið reglulega.
Setja í pott: Þegar fræið spírar, setjið það í pott með mold.
Skráning: Gaman er skrá niður vaxtarferli plöntunnar frá því að hún er sett í pott og þar til hún gefur af sér ávöxt.