Einum þriðja þess matar sem er framleiddur á heimsvísu er sóað, því má líkja við að versla inn þrjá poka af mat og henda einum þeirra. Með því að draga úr matarsóun verndum við umhverfið, nýtum við betur auðlindir og spörum pening. Verkefni fyrir 12 - 20 ára

Aldur: 12-20 ára

Tími: 4-6 kennslustundir

Markmið:

  • Að nemendur læra hvaða aðferðir er hægt að nota til þess að sporna gegn matarsóun
  • Að nemendur átti sig á mikilvægi þess að huga að matarsóun og lágmarka hana
  • Að nemendur átti sig á hugtakinu virðiskeðja

Efni og áhöld: Aðgangur að tölvu eða öðru snjalltæki, segull eða góður pappír ef nemendur búa til minnismiða.

Framkvæmd:   

Nemendur notast við heimasíðuna Matarsóun | Saman gegn sóun (samangegnsoun.is) til þess að koma skilaboðum heim varðandi matarsóun. Nemendur útbúa rafbók þar sem þau taka saman aðalatriðin með það að markmiði að fræða aðra utan skólasamfélagsins svo sem fjölskyldu og ættingja.

Nemendur leitast við að svara eftirfarandi og um leið fræða aðra

Hvaða aðferðir er hægt að nota til þess að sporna gegn matarsóun?

Afhverju er mikilvægt að huga að matarsóun og lágmarka hana?

Hvað er virðiskeðjan? Útskýrið hvert stig í keðjunni.

Verkefnið er unnið í 2-3 manna hópum. Hægt er að útfæra það á mismunandi hátt, einn möguleikinn er að hver hópur gerir einn bækling sem hann deilir með sínu fólki. Einnig má búa til einn bækling úr öllum þeim sem verða til í bekknum og senda út til nærsamfélagsins.

Til viðbótar

Nemendur búa til minnismiða/segul til þess að setja á ísskáp með slagorði/setningur sem minnir á mikilvægi þess að huga að matarsóun.