Aldur: 9-11 ára
Tími: verkefnið nær yfir allt skólaárið
Markmið:
- Að nemendur geri sér grein fyrir hvað felst í því að vera umhverfisvinur og að vera tilbúin til að axla þá ábyrgð.
- Að nemendur átti sig á tilgangi þess að huga að þeim umhverfismálum sem umhverfisvinirnir gera.
Efni og áhöld: Plastað blað með lýsandi myndum fyrir hvert hlutverk. Nöfn nemenda eru plöstuð og fest undir hvert hlutverk (þarf að vera hægt að skipta nöfnum á milli hlutverka á auðveldan hátt). Blaðið hangir uppi á vegg í kennslustofu eða á deild barnanna og er sýnilegt öllum. Plastað skráningarblað fyrir fjögur skipti (vikulegar skráningar í einn mánuð) og börnin fylla inn með töflutússi.
Framkvæmd:
Nemendur skipta með sér fjórum mismundandi hlutverkum yfir skólaárið. Ljósavörður sér um að fylgjast með hvort ljós séu slökkt í mannlausu rými eða þar sem dagsbirta nægir. Hann minnir aðra nemendur og kennara á sem gleyma að slökkva ljósið.
Vatnsvörður fylgist með að vatn sé ekki látið renna að óþörfu og minnir aðra á að skrúfa fyrir.
Skógarvörður sér um að fylgjast með gróðri á skólalóðinni og láta vita ef hann verður fyrir hnjaski eða ágangi. Hann minnir jafnframt aðra nemendur á að ganga vel um náttúruna.
Flokkunarstjóri sér um að rétt sé flokkað í tunnur og ef vill getur flokkunarstjóri haft það hlutverk að fara með ruslafötur og tæma á rétta staði t.d. í viðeigandi gáma.
Umhverfisvinir gætu haft það hlutverk að fara einu sinni í viku í eftirlitsferð og merkja við hvort verið sé að fygja umhverfisstefnunni (samkvæmt hlutverkunum).
Einu sinni í mánuði er kennslustund eða fundur þar sem farið er yfir hlutverkin og rætt ef eitthvað hefur komið upp á. Niðurstöður skráninga eru færðar í fundargerð og skipt er um hlutverk. Ef hópurinn er stór þurfa nokkur börn að gegna sama hlutverki samtímis.