Hvernig er hægt að mæla matarsóun? Ein leið til þess er að vigta matinn sem sóast. Verkefni sem fær nemendur til þess að átta sig á mikilvægi þess að huga að matarsóun og lágmarka hana. Verkefni fyrir 12-20 ára

Aldur: 12-20 ára

Tími: 4 kennslustundir auk tímans sem fer í vigtun

Markmið:

  • Að nemendur átti sig betur á því hversu miklum mat er sóað í skólanum
  • Að nemendur átti sig á mikilvægi þess að huga að matarsóun og lágmarki hana

Efni og áhöld: Vigt, ritföng, tölva/reiknivél

Hvernig er hægt að mæla matarsóun? Ein leið til þess er að vigta matinn sem sóast. Hlutar af matnum eins og ávaxtahýði, eggjaskurn og bein teljast ekki sem matur og eiga ekki að vigtast með matarleifunum. Misjafnt er hvað fólk telur vera matarsóun og hvað lífrænan úrgang. Það er t.d matarsóun þegar að stilkurinn á spergilkálinu/brokkólíinu er ekki borðaður, þegar eplið er ekki klárað og þegar kjöt er ekki skafið af beinunum. Slík matarsóun er oft ekki eins sýnileg og er misjöfn milli kynslóða og jafnvel þjóða.

Framkvæmd: Verkefnið má framkvæma á ýmsa vegu eftir því hvað hentar hverjum skóla. Hér er stungið upp á því að vigta alla mat matarsóun í eina viku án vitundar annarra nemenda (t.d er verkefnið tekið fyrir í 9.bekk og aðrir bekkir ekki látnir vita). Að lokinni vigtunarviku er farið í vitundarvakningu t.d með fræðslu frá 9.bekk (sjá t.d verkefnið Saman gegn sóun í verkefnakistu). Mælingar fara svo fram aftur seinna, best er að sami matseðillinn sé báðar vikurnar til þess að niðurstöðurnar verði sem marktækastar. Kennari þarf að aðstoða nemendur við mælingar í samráði við skólamatráðinn.

Við mælum með að taka verkefnið skrefinu lengra…

Ef taka á alla þætti matarsóunar með þarf gott samstarf við matráðin að vera til staðar, hann þarf að veita upplýsingar á mælingartímanum um

Hve mikill matur fer til spillis við undirbúning máltíða?

Hve mikill tilbúinn matur verður eftir í lok máltíðar (sem situr eftir þegar allir eru búnir að fá sér) og er ekki nýttur áfram?

Ekki ætti að vera mikið mál að fá matráðin með sér í lið þar sem einn af kostum þess að vinna gegn matarsóun er minni kostnaður.

Til þess að átta sig á kostnaðinum við matarsóunina má dýpka verkefnið, til þess þarf að meta hlutfall þeirra fæðuflokka sem er sóað

  1. fiskur, kjöt, egg, baunir, hnetur
  2. feitmeti (smjör, olíur o.fl.)
  3. kornvörur
  4. grænmeti
  5. ávextir, ber
  6. mjólk, mjólkurvörur

Nemendur skrá niður eftir bestu getu hversu mikið úr hverjum flokki er sóað við hverja vigtun. Haldið er utan um þessar skráningar t.d í töflureikni,

Í framhaldinu er notast við nýjustu verðkönnun ASÍ á matvöru eða notast við heimasíðu sem selur matvæli í vefverslun.

Lögð er áhersla á að nemendur átti sig á því að matur kostar peninga alveg eins og föt, símar og húsnæði. Þegar mat er sóað er líka verið að sóa peningum og í raun alveg eins hægt að henda peningum beint í ruslið. Með því að sóa ekki mat er hægt að spara háar fjárhæðir, jafnvel tugi þúsunda á ári. Flestir myndu vilja gera eitthvað skemmtilegra fyrir peningana sína en að tapa honum í sóuð matvæli.

En hvað kostar maturinn sem sóast í skólanum? Skoðið nýlegar verðkannanir eða netverslanir sem selja matvæli.

  1. Er munur á matvöruverði eftir verslunum?
  2. Hvaða verslanir eru með lægsta og hæsta verðið?
  3. Afhverju haldið þið að verðið sé svona mismunandi?
  4. Hvað væri hægt að kaupa fyrir peningana sem sparast ef engum mat væri sóað?
  5. Notið gögnin sem þið eruð búin afla fyrr í verkefninu til þess að búa til línu/stölparit þar sem notast er við bæði hæsta og lægsta vöruverðið til þess að læra um samanburð (einnig hægt að reikna út meðalverð). Komið með tillögur um hvað skólinn gæti keypt fyrir peningana sem hægt væri að spara ef engum mat væri sóað. Kannski er hægt að semja við skólastjórnendur um að fá að nýta peninginn sem sparast í eitthvað annað, t.d í góðgerðarmálefni, afþreyingu fyrir nemendur.

Að lokum má svo spyrja sig eftirfarandi spurninga

Hvernig má koma í veg fyrir matarsóun

Í skólanum?

Við borðhaldið?

Eftir máltíðina, er hægt að nýta eitthvað í næstu máltíðir?

Hvað verður um matinn sem ekki nýtist?

Verkefnið er útfært upp úr verkefnum sem birtust áður í bókinni Saman gegn matarsóun – verkefnahefti og kennsluleiðbeiningar | Menntamálastofnun (mms.is)