Aldur: 4-10 ára
Tími: 2-4 kennslustundir hægt að aðlaga
Markmið:
- Að fá nemendur til að skoða umhverfi sitt og endurskapa það úr endurnýtanlegum efnivið.
Efni og áhöld: Myndavél/spjaldtölva og endurnýtanlegur efniviður. Allt sem nemendunum dettur í hug að nota. Má vera hvað sem er en svo er líka hægt að setja einhverjar hömlur og útvega þeim efnivið sem þau eiga að nota og þau verða bara að gera gott úr því sem þau hafa.
Framkvæmd:
Rætt við nemendur um verkefnið.
Farið í gönguferð og hús valið í verkefnið. Teknar myndir af öllu því sem nemendum finnst mikilvægt,skoða garðinn o.fl. (líka hægt að leyfa börnunum að taka myndirnar sjálf). Ræðum aðeins saman um það hvað sé hægt að nota til að búa húsið og umhverfið til og ef efniviður finnst á leiðinni má endilega taka hann með til baka.
Svo byrjar fjörið þegar til baka er komið.
Hægt að ræða saman um hver vill gera hvað (einn vinnur með þennan part af húsinu og næsti með eitthvað annað). Einnig má líka vinna þetta allt saman. Um leið og sköpunargleðin er komin til starfa kemur ýmislegt skemmtilegt í ljós.
Gott er að hafa myndirnar við hendina í tölvu eða spjaldtölvu þar sem nemendurnir geta skoðað ef eitthvað er óljóst. Leyfa nemendunum að skapa þar til þeim finnst verkið tilbúið. Kannski finnst þeim allt í einu eitthvað vanta eftir nokkra daga og þá má bara endilega halda áfram.
Nemendur á aldrinu 8-10 ára gætu gert sitt eigið hús og þannig myndað hverfi. Þá er hægt að dýpka verkefnið og fara í umræður um hvað sé gott að hafa í hverfum og hvað ekki? Umræður og náttúruvernd og mikilvægi grænna svæða í byggð.