Plast ógnar heilbrigði hafsins. Hér eru fimm hlutir sem þú getur gert strax í dag.

Hvert er vandamálið?

Plastmengun ógnar heilbrigði hafsins. Hér eru fimm hlutir sem þú getur gert strax í dag.

Plast er sniðugt efni. Það er vatnshelt, endingargott og ódýrt. Plast getur verið örþunnt og mjúkt eins og plastpoki eða grjóthart og eldþolið eins og legókubbar. Þegar við flokkum plast þá er stundum hægt að endurvinna það og búa til nýja hluti úr plastinu.

Vandamálið við plast er ekki plastið sjálft heldur hvernig við notum það og hversu mikið við notum. Plast er allt of sniðugt og gott efni til að nota bara einu sinni og henda.

Fimm hlutir sem við getum gert strax í dag

1. Hættum að nota einnota hluti eins og plastglös og plasthnífapör.

Athugið að pappaglös og einnota pappadiskar innihalda oft plast. 

2. Afþökkum einnota hluti og segjum öðrum frá af hverju við afþökkum.

Endurhugsum hvað við þurfum og afþökkum það sem viljum ekki. Með því upplýsum við aðra og sendum skilaboð. 

3. Kaupum minna af óþarfa og sleppum því að kaupa dót úr plasti sem endist ekki lengi.

Kaupum hluti sem eiga endast. Sleppum þeim sem skemmast strax.  


4. Flokkum og þrífum allt plast sem við notum

Ef við komumst ekki hjá því að nota plast þá þurfum við að gæta þess að það rati á réttan stað til endurvinnslu. 

5. Plokkum og tínum upp rusl á víðavangi.

Ef plastið er laust á víðavangi þá fýkur það í sjóinn í næsta roki. Ef þú sérð hvaðan það kemur, t.d. úr opnum gámi hjá verslun þá er um að gera að láta vita. 

Einnota er vandamálið

Helmingur af öllu plasti sem er framleitt er bara notað einu sinni! Hlutir sem eru einnota eru bara notaðir einu sinni og síðan hent. Einnota plastpokar eru að meðaltali notaðir í aðeins 20 mínútur!

Sama má segja um aðrar umbúðir og einnota borðbúnað. Fjölnota hlutir eru notaðir oft og eiga að endast lengur. Það er betra fyrir náttúruna og umhverfið að nota sama hlutinn aftur og aftur. Þá þarf ekki að framleiða jafn mikið plast og minna plast endar úti í náttúrunni.

Hver gerir hvað?

 

 

Hvað ætlar þú að gera?

Hvað getur fjölskyldan þín gert?

Hvað getur vinnan þín eða skólinn þinn gert?

Hvað geta stjórnvöld gert?

 

Greinin er byggð á námsefninu Hreint haf eftir Margréti Hugadóttur, sem gefið var út af Menntamálastofnun og Landvernd árið 2020.