Hvað er loftslagsréttlæti? – það sem þú þarft að vita

Hönd með lítinn hnött í lófanum. Loftslagsréttlæti er forsenda jafnréttis á jörðinni. landvernd.is
Jafnrétti er óhugsandi án þróunar til sjálfbærni og breytts efnahagskerfis. Þess vegna skiptir þekking á loftslagsjafnrétti miklu máli.

Loftslagsbreytingar hafa mismikil áhrif á fólk eftir stöðu þeirra í samfélaginu, þar sem búseta, kyn, kyngervi, kynhneigð, kynþáttur, litarháttur, aldur, efnahagur og aðrir þættir gegna mikilvægu hlutverki.

Hugtakið loftslagsréttlæti gefur til kynna að loftslagsmál eru ekki bara umhverfismál, heldur verður baráttan við loftslagshamfarir alltaf að taka mið af mannréttindum, félagslegu réttlæti og jafnrétti kynja.

Sjálfbærni tengist loftslagsréttlæti

Sjálfbærni felur í sér að gera hlutina án þess að skaða náttúruna eða annað fólk. Í hugtakinu felst að allir jarðbúar, óháð því hvar og hvenær þeir eru fæddir, lifa eins góðu lífi og hægt er án þess að ganga of nærri auðlindum jarðar, öðru fólki og lífverum. Sjálfbærni er óhugsandi án loftslagsréttlætis. 

Hafa loftslagshamfarir meiri áhrif á suma en aðra?

Loftslagshamfarir geta haft mjög ólík áhrif á mannfólk. Öll munum við þó finna fyrir loftslagsbreytingum á lífsleiðinni, hvort sem við erum meðvituð um það eða ekki. Áhrif loftslagsbreytinga á líf okkar eru misjöfn eftir t.d. búsetu, kyni, stétt og fjárhag. 

Áhrif loftslagsbreytinga á konu í fátæku landi

Hér er dæmi um það hvernig loftslagsbreytingar geta haft áhrif á líf konu sem býr í fátæku landi. 

  • Nær hún í vatn fyrir fjölskylduna sína? Hún gæti þurft að sækja það á nýjan stað sem er lengra frá heimilinu hennar vegna vatnsskorts. 
  • Ræktar hún mat fyrir fjölskylduna sjálf? Loftslagsbreytingar eru ógn við uppskeruna.
  • Kann hún að synda? Konur eru ólíklegri til þess að kunna að synda og eru því líklegri en karlar til þess að deyja í loftslagstengdum náttúruhamförum eins og flóðum. 
  • Hefur hún áhrif á ákvarðanir stjórnvalda? Konur (sérstaklega fátækar konur) eru ólíklegri til þess að fá að hafa áhrif á lofslagsmálin heldur en karlar og efnaðari konur. 

Hvað er loftslagsréttlæti?

Hér fyrir neðan er stutt myndband sem útskýrir hugtakið loftslagsréttlæti nánar. Sýnd eru dæmi um það hvernig loftslagsréttlæti getur haft mismunandi áhrif á líf fólks sem býr í sömu stórborginni.

Réttur komandi kynslóða

Þegar við stuðlum að sjálfbærni, þá viðurkennum við réttindi komandi kynslóða til að taka við jörðinni í sama ásigkomulagi og við fengum hana í.
Við þurfum að sinna loftslagsmálunum ef við viljum að komandi kynslóðir lifi góðu lífi.

Komandi kynslóðir eiga rétt á því að taka við jörðinni í sama ásigkomulagi og við fengum hana í.

kynslodir, landvernd.is

Ósjálfbærir lífshættir okkar bitna mikið á lífi fólks annars staðar í heiminum og komandi kynslóðum. Þegar við lifum á ósjálfbæran hátt erum við að ganga freklega á rétt komandi kynslóða til lífs og heilbrigðis.

Hvað get ég gert?

Umræðan um loftslagsréttlæti er rétt að hefjast í íslensku samfélagi. Nú þegar þú hefur kynnt þér loftslagsréttlæti getur þú tekið meðvitaða ákvörðun um að halda málstaðnum á lofti. Saman getum við stuðlað að aukinni vitund og umræðu um málefnið. 

  • Verum meðvituð um að réttlæti skiptir miklu máli í loftslagsumræðunni.
  • Höfum áhrif og bendum á það þegar okkur þykir jafnréttismál ekki fá nægt vægi í loftslagsumræðunni.
  • Leitum réttmætra lausna. Hugum að því hvernig ólíkar lausnir hafa áhrif á ólíka samfélagshópa. Hefur lausnin t.d. meiri áhrif á ríka eða fátæka? Konur eða karla? Fatlaða eða ófatlaða?

Hlutverkaleikur um loftslagsréttlæti

Smelltu hér ef þú vilt nálgast hlutverkaleik um loftslagsréttlæti, mannréttindi og umhverfismál frá Landvernd. Leikurinn hentar nemendahópum sérstaklega vel.  Ef þú hefur áhuga á því að vita meira um loftslagsréttlæti og jafnvel fá aðgang að kennsluefni frá Landvernd, hafðu samband við vigdis(hja)landvernd.is.

Hefur þú heyrt um Ungt umhverfisfréttafólk?

Verkefnið Ungt umhverfisfréttafólk hjá Landvernd er fullkominn vettvangur til að láta til sín taka á sviði loftslagsréttlætis. 

Í háværri umræðu um loftlagskvíða valdeflir verkefnið ungt fólk og gefur þeim tækifærin og tólin til þess að hafa áhrif á umhverfismál. 

Ungt umhverfisfréttafólk skapar nemendum vettvang til þess að kynna sér umhverfismál og koma upplýsingum á framfæri á skapandi hátt. Auk þess hafa nemendur tækifæri til að taka þátt í árlegri samkeppni um bestu umhverfisfréttirnar. 

Kynntu þér verkefnið Ungt umhverfisfréttafólk  hér og pantaðu kynningu hér.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd