Nægjusamur nóvember

Líf okkar í dag sem ein­kenn­ist af ofneyslu og sóun er í raun níska, því við tökum frá fátækara fólki til að auka á eigin allsnægtir, auk þess sem við minnkum þannig lífs­gæði kom­andi kyn­slóða.
Nægjusemi er hugsunarháttur allsnægta, alveg öfugt við neysluhyggjuna sem er sá hugsunarháttur að skorta stöðugt eitthvað.

Guðrún Schmidt
sérfræðingur hjá Landvernd skrifar

Á árum áður var nægju­semi oft talin til dyggða, nægju­semi er í dag hins vegar oft mis­skilin sem níska. Níska táknar m.a. eig­ingirni, að gefa ekki af sér, að deila ekki, skipta ekki með sér. Nægju­semi er af allt öðrum toga og táknar að vera ánægður með það sem maður hefur og þurfa ekki sífellt meira. Með nægju­semi göngum við minna á nátt­úr­una og á rétt núver­andi og kom­andi kyn­slóða á góðu lifi. Líf okkar í dag sem ein­kenn­ist af ofneyslu og sóun er í raun níska, því við tökum frá fátækara fólki til að auka á eigin lúxus auk þess sem við minnkum lífs­gæði kom­andi kyn­slóða.

Við lifum langt umfram þol­mörk nátt­úr­unnar og köllum þannig yfir okkur lofts­lags­ham­farir og hrun vist­kerfa sem eru lífs­grund­völlur manns­ins. Við getum ekki leyft okkur að lifa á kostnað nátt­úr­unn­ar, kom­andi kyn­slóða og ann­arra landa, þeirra nátt­úru og íbú­um, eins og hinn vest­ræni heimur gerir í dag og hefur lengi gert.

Nægju­semi er því sið­ferð­is­leg skylda okkar og for­senda fyrir sjálf­bærri þróun og árangri í lofts­lags­mál­um. Án nægju­semi getum við ekki minnkað vist- og kolefn­is­sporið okkar nægi­lega mikið og var­an­lega.

Að temja sér nægju­semi ætti að vera sjálf­sagt mál fyrir okkur sem til­heyrum for­rétt­inda­hópi sem fær nóg að borða, föt, húsa­skjól og búum við heil­brigð­is­þjón­ustu og mennt­un­ar­mögu­leika.

Nægju­semi er jákvæð

Þau sem lifa nægju­sömu lífi fá sjaldan þá til­finn­ingu að þau skorti eitt­hvað. Þau hafa þannig hug­ar­far að vilja ekki eiga meira, hafa ein­fald­lega ekki þannig þarf­ir. Nægju­semi er því hugs­un­ar­háttur allsnægta öfugt við neyslu­hyggj­una sem er hugs­un­ar­háttur skorts: nýir mögu­leikar til neyslu eru handan við hornið og því skortir eitt­hvað núna sem vænt­an­leg neysla getur bætt úr tíma­bund­ið.

Nægjusemi frelsar okkur frá óþarfa byrði og álagi. Minni tími og pen­ingar fara í lífs­gæða­kapp­hlaup­ið, þ.e. í eig­ur, auð og álit ann­arra. Þannig er hægt að öðl­ast ýmis­legt dýr­mætt eins og frelsi, frí­tíma og orku til að verja í það sem er mik­il­vægt og veitir ham­ingju t.d. að eyða tíma með fjöl­skyldu og vin­um, hreyfa sig, vera úti í nátt­úr­unni, upp­lifa, gefa af sér, vera skap­andi og fram­kvæma jafn­vel eitt­hvað sem stuðlar að vel­ferð mann­kyns og Jarð­ar­inn­ar. Nægju­samur ein­stak­lingur finnur að styrkur og ham­ingja kemur innan frá en ekki frá hlutum eða eign­ar­haldi. Nægju­semi getur hjálpað til við að verða ríkur í sál og hjarta. Minna er oft meira. Nægju­semi er ákveðið form af virð­ingu og af núvit­und.

Nægju­semi vinnur á móti óánægju. Án nægju­semi erum við eirð­ar­laus, aldrei sátt við það sem við höfum áork­að, við viljum sífellt meira, komumst aldrei á leið­ar­enda og áttum okkur ekki á raun­veru­legum auði okk­ar. Án nægju­semi verðum við fangar ytri við­miða og þörfn­umst stöðugt ein­hvers sem við vitum samt ekki alveg hvað er. Jafn­vel þótt við náum ákveðnu mark­miði, þá fáum við aldrei nóg og erum föst í lífs­gæða­kapp­hlaup­in­u.

Látum ekki öfl­uga mark­aðs­setn­ingu segja okkur hvað við þurf­um. Með nægju­semi getum við verið meira við sjálf og fylgt eigin draumum og vænt­ing­um. Lífs­ham­ingjan byggir m.a. á hug­ar­fari okkar sem verður ekki keypt.

Nægju­semi er eft­ir­sókn­ar­verð og stuðlar að frelsi, ánægju, þakk­læti, ham­ingju og til­finn­ingu um að eiga og vera nóg.

Nægju­semi er auð­veld

Það er ein­falt að til­einka sér nægju­semi og hér eru nokkur ráð:

  1. Leggjum áherslu á það sem við höfum en ekki á það sem vantar eða það sem okkur er talin trú um að okkur vanti. Forð­umst aug­lýs­ingar sem vekja oft hjá manni nýjar þarf­ir.
  2. Temjum okkur þakk­læti og virð­ingu fyrir því sem við höf­um.
  3. Hættum að bera okkur saman við aðra, ein­beitum okkur að því lífi sem við viljum lifa og sækj­umst eft­ir.
  4. Njótum lífs­ins núna og eyðum ekki orku í að hugsa um að allt verði betra þegar við náum að eign­ast ákveðna hluti í fram­tíð­inni. Með nægju­semi setur maður sér mark­mið sem tengj­ast fram­förum á and­legum sviðum en ekki efn­is­leg­um.

Skil­grein­ing á nægju­semi getur verið mis­jöfn t.d. út frá efna­hag, búsetu, lífs­stíl og fleiru. Það sem sumum finnst vera nægju­semi getur verið lúxus hjá öðr­um. Mik­il­vægt er að hver og einn finni sinn takt og áhersl­ur, með það að mark­miði að draga úr neyslu sinni og þannig stór­minnka álag á nátt­úr­una og annað fólk.

Nægju­semi er vald­efl­andi

Til að stuðla að sjálf­bærri þróun og minnka losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda, er nægju­semi eitt af því öfl­ug­asta sem við sem ein­stak­lingar getum gert. Ein­stak­lings­að­gerðir verða samt aldrei nægi­legar einar og sér til að afstýra verstu sviðs­myndum lofts­lags­ham­fara. Stjórn­völd verða að breyta hag­kerf­inu, fram­leiðslu- og við­skipta­háttum og setja ýmis lög og regl­ur.

Okkar vest­ræna sam­fé­lag og hag­kerfi bygg­ist að hluta til á þeirri hug­mynd að vel­ferð og ham­ingja komi með auknum kaup­mætti og auk­inni neyslu. Slíkt eykur eft­ir­spurn sem aftur eykur fram­boð og svo fram­veg­is. Þetta ferli virð­ist við­halda sjálfu sér. Fram­boð er rétt­lætt vegna eft­ir­spurnar sem mynd­ast einmitt vegna auk­ins fram­boðs. Er ekki kom­inn tími til að við grípum í taumana á þess­ari sjálf­stýr­ingu á þess­ari mann­gerðu vít­is­vél enda­lauss hag­vaxt­ar? Leiðir almenn­ings til þess að brjóta upp þessa sístækk­andi tíma­sprengju um fram­boð og eft­ir­spurn er m.a. að stór­minnka eft­ir­spurn­ina og ýta á stjórn­völd að setja lög og reglur um fram­leiðslu- og við­skipta­hætti og breyt­ingar á hag­kerf­inu. Nægju­semi er hér mik­il­vægt vopn okk­ar.

Látum utan­að­kom­andi öfl ekki hafa áhrif á þarfir okkar og ósk­ir. Við viljum nægju­samt líf, en ekki vera strengja­brúður núver­andi hag­kerf­is. Byrjum strax núna í nóv­em­ber og höldum ótrauð áfram á þeirri braut.

„Ham­ingjan snýst ekki um það að fá allt sem þú vilt heldur snýst það um að njóta þess sem þú hef­ur.“ – höf­undur ókunn­ur

„Sönn ham­ingja felst í nægju­sem­i.“ – Jo­hann Wolf­gang von Goethe

Höfundur er sérfræðingur hjá Landvernd. Greinin birtist fyrst í Kjarnanum 1. nóvember 2022. 

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd
Scroll to Top