Vertu náttúrubarn!

Eftir aðeins 20 mínútur úti í náttúrunni dregur úr framleiðslu streituhormóna í líkamanum.

Þetta er áskorun til þín um að taka skrefið og njóta náttúrunnar betur. Þú þarft ekki endilega að fara neitt langt til þess því náttúran er alltaf í næsta nágrenni okkar allra Íslendinga; sama hvar við búum.

Þörfin fyrir að tengjast náttúrunni er hreinlega meðfædd!

Rannsóknir sýna að það að upplifa náttúru og vera umkringd gróðri hefur jákvæð áhrif á okkur, bæði andlega og líkamlega. Það þarf bara 20 mínútna útiveru í náttúrunni til að draga úr framleiðslu streituhormóna í líkamanum. Við erum með þetta í genunum.

Í dag er einmitt rétti dagurinn til að byrja

Þrátt fyrir meðfædda þörf þá erum við mörg ekki sérstaklega dugleg að fara út og njóta náttúrunnar. Við erum of upptekin við ýmiss konar stúss sem fyllir dagana og við gefum okkur ekki tíma. Horfum kannski of mikið á sjónvarpið eða gleymum okkur í símanum. Það þarf að vinna, læra og þvo þvott og síðan þarf að kaupa inn og elda. Svo lítum við kannski út um gluggann og sjáum að veðrið er ekki alveg nógu gott – eða hvað?

Vont veður getur verið gott líka

Farðu út í þoku eða grenjandi rigningu! Líka þegar trén lemja hvert annað í rokinu. Líka á sumrin þegar sólin rétt tyllir sér yfir nóttina. Líka á haustin þegar laufin falla og sveppirnir stinga upp kollinum. Líka þegar hafið lemur ströndina og hendir þara upp í fjöru – og líka á vorin þegar krían kemur alla leið frá Afríku og skrækir á okkur. Líka þegar tunglið blikkar okkur á heiðskíru kvöldi og norðurljósin dilla sér.

Hefur þú velt fyrir þér hvernig landslag verður til?

Fórstu kannski að skoða gosið á Reykjanesi eða hefur þú upplifað eitthvert annað gos? Hugsaðir þú þá um þessa rosalegu krafta sem þrýstu glóandi hrauninu upp á yfirborðið, rifu sundur heilu björgin, bara til að valta svo yfir þau? Hvað gekk á þegar fjöllin urðu til, öll hraunin, þegar jöklarnir stækkuðu og ruddu á undan sér öllu sem fyrir varð – og hvað þeir skilja eftir sig nú þegar þeir hopa? Hefurðu hugsað um árnar sem hafa grafið heilu dalina eða hraun sem hafa stíflað árfarvegi og ruðst yfir ræktað land og mannabústaði?

Staldraðu við og hlustaðu

Andaðu djúpt að þér og lokaðu augunum. Hugsaðu um allt sem er til og allt sem hefur verið til… og hvernig það hefur breyst. Við mannfólkið eigum allt okkar undir náttúrunni og erum háð henni þegar kemur að fæðu, vatni, andrúmslofti og búsvæðum. En hvað verður? Náttúra sem er raskað verður aldrei ósnortin aftur.

Dragðu andann djúpt og finndu ilminn

Hver sveit, hvert svæði á sinn sérstaka ilm. Og anganin breytist eftir árstíðum. Á sumrin er það gróðurinn sem ræður, á haustin og vorin tekur ilmurinn af mold og blautum jarðvegi yfir. Fjaran á sinn sérstaka ilm líka.
 

Áttu þér stað?

Hvað þekkir þú marga staði sem þér þykir vænt um? Ferðu nógu oft þangað? Viltu finna nýja? Á Íslandi eru til dæmis fleiri en 10.000 fossar af öllum stærðum og gerðum. Hver er uppáhalds hjá þér? Hvernig væri að kynnast fleirum? Það er frábært áhugamál að leita uppi og finna nýja staði til að eiga í uppáhaldi, bæði þá sem stutt er að sækja og þá sem krefjast lengra ferðalags.

Drífðu þig út! Vertu náttúrubarn.