Í þessu verkefni fara nemendur í fuglaskoðun og læra að þekkja fugla og fuglahljóð í nágrenni skólans. Að auki læra nemendur að skilja mikilvægi fugla í íslenskri náttúru og að þekkja búsvæði þeirra og mikilvægi þess að vernda lífbreytileika þessara visterfa. Verkefni fyrir 10-20 ára.

Aldur

Þessi verkefnalýsing er fyrir 10-13 ára. Fuglaverkefni fyrir unglingastig og framhaldsskóla (14-20 ára) er að finna í námsefninu: Náttúra til framtíðar

Tími

Þetta verkefni tekur samtals 1-2 kennslustundir í senn. Hægt er að endurtaka verkefnið mánaðarlega eða árlega.

Markmið

Tilgangur þessa verkefnis er að vekja athygli nemenda á fuglum í náttúru Íslands. Í lok verkefnis eiga nemendur að:

  • Þekkja muninn á staðfuglum og farfuglum og geta nefnt dæmi um slíka fugla.
  • Kunna að nota Fuglavef Menntamálastofnunar og þekkja helstu fuglana í nágrenni skólans og hljóð þeirra
  • Skilja mikilvægi fugla í íslenskri náttúru og hvernig við berum ábyrgð á mörgum tegundum í heiminum.
  • Þekkja mismunandi búsvæði íslensku fuglanna og mikilvægi þess að vernda lífbreytileika þessara visterfa.

Fræðsla og undirbúningur

Meirihluti íslenskra varpfugla eru farfuglar en þeir fuglar koma til Íslands að vori til að verpa og koma ungum sínum á legg yfir sumarið. Farfuglar yfirgefa svo landið að hausti og eru í öðrum löndum eða úti á hafi yfir veturinn. Dæmi um farfugla eru heiðlóa, spói, lundi og kría. Sumir fuglar eru staðfuglar en þeir fuglar eru á Ísland allt árið um kring. Dæmi um staðfugla eru haförn, rjúpa, skógarþröstur og stari.

Algengustu mófuglarnir á Íslandi eru tjaldur, heiðlóa, sandlóa, spói, jaðrakan, stelkur, hrossagaukur, lóuþræll, sendlingur og óðinshani. Helmingur allra heiðlóa og sendlinga í heiminum koma til Íslands að verpa, um þriðjungur allra sandlóa í heiminum og tæpur fimmtungur allra lóuþræla og stelka í heiminum. Ísland ber því mjög mikla ábyrgð á þessum fuglastofnum, á heimsvísu.

Til hamingju ef þið finnið hreiður, það er mikil upplifun og gaman að skoða, bæði egg og litla unga. En það er nauðsynlegt að passa alla umgengni við hreiður og ekki snerta neitt. Fylgist eingöngu með og ekki vera of lengi nálægt hreiðrinu svo foreldrar yfirgefi það ekki. Passið líka að sum hreiður eru ekki falin heldur liggja ber á jörðinni og því erfitt að sjá þau. Munið því að stíga varlega til jarðar.

Verkefnavinna

  1. Búið til upplýsingaspjöld um helstu fuglana sem von er á að sjá, nota fuglavefinn og skoðið hvernig fuglarnir líta út bæði standandi og fljúgandi, hlustið á hljóðin. Athugið að sumir fuglar eru með mismunandi hljóð. Hvað ætli þau þýði? (t.d. óðalshegðun eða varnarhljóð)               
  2. Farið í fuglaskoðun, veljið svæði í nágrenni skólans þar sem von er á að sjá nokkrar tegundir fugla.
  • Haldið dagbók og skrifið niður hvað þið sjáið.
  • hvaða fugla sáuð þið og/eða heyrðuð þið í?
  • Fundust einhver hreiður og var hægt að greina þau? 
  • Takið myndir.
  • Farið yfir niðurstöðurnar í skólastofu eftir fuglaskoðunina.
  • Safnið saman niðurstöðum bekkjarins og setjið niðurstöðurnar upp í töflureikni. Sáuð þið öll sömu fuglana? Sáuð þið marga fugla af sömu tegund? Hvaða fugla var algengast að sjá og hvaða fugla var sjaldgæfast að sjá?
  • Ef farið er reglulega út í fuglaskoðun þá skuluð þið bera saman niðurstöður og skoða breytingar á þeim fuglum sem þið sjáið eftir árstíma. Hvaða fugla sjáið þið allt árið um kring og hvaða fugla sjáið þið bara á ákveðnum árstímum? Eru fuglarnir með mismunandi hljóð eftir árstímum

        3. Verkefni og umræður í skólastofu

  • Hvert fara farfuglarnir á veturna? Skoðið til dæmis spóa, tjald eða jaðrakan. Hvaða áhrif hafa loftslagsbreytingar á farfugla?
  • Segið frá íslenskum fugli sem:
  • verpir í hreiður
  • verpir beint á jörðina
  • grefur holu og verpir þar inni
  • Veljið fugl og skoðið búsvæði hans.
  • Hvaða fæðu er að finna í þessu búsvæði?
  • Er gott skjól í búsvæðinu?
  • Hvað gerist ef búsvæðið hverfur eða breytist í eitthvað allt annað (t.d. þegar grónum móa er breytt í skóg)?
  • Skiptir máli fyrir fuglana ef maðurinn flytur nær þeim (t.d. þegar sumarbústaður er byggður á búsvæði fuglsins)?
  • Af hverju er mikilvægt að varðveita lífbreytileika þeirra vistkerfa sem fuglarnir búa í?

Ítarefni

Fuglaskoðun í Reykjavík: https://reykjavik.is/sites/default/files/fuglabaeklingur_-_islenska_1.pdf 

Mófuglar: https://fuglavernd.is/tag/mofuglar/

Flug spóans: https://landvernd.is/flug-spoans/

Spói nýtur lífsins undir Afríkusól og bíður íslenska vorsins: https://kjarninn.is/skyring/2020-12-30-nytur-lifsins-undir-afrikusol-og-bidur-islenska-vorsins/

Ástarsaga úr fjörunni: https://kjarninn.is/skyring/2021-02-22-astarsaga-ur-fjorunni-flaug-til-makans-og-setti-islandsmet/

Farfuglar koma fyrr vegna hlýnunar Jarðar: https://www.ruv.is/frett/farfuglar-koma-fyrr-vegna-hlynunar-jardar

Mófuglar og skógrækt: https://www.hi.is/sites/default/files/mas/pdf/mofuglar_og_skograekt.pdf

 

 

      •