Verkefni þar sem nemendur þjálfast í því að átta sig á fjölbreytileika plantna og nauðsynlegum skilyrðum svo þær geti vaxið og dafnað. Verkefni fyrir 5-12 ára

Aldur: 5-12 ára

Tími: 3 kennslustundir

Markmið:

  • Að nemendur átti sig á fjölbreytileika plantna og nauðsynlegum skilyrðum svo þær geti vaxið og dafnað.
  • þjálfa rannsóknar- og ályktunarhæfni
  • þjálfast í kortalestri
  • þjálfast í að mæla með reglustiku
  • þjálfast í notkun á smásjá

Efni og áhöld: kort af skólalóðinni, blýantur, pappír, reglustika, ílát til að taka sýni, lítil skófla, smásjá, myndavél

 

Framkvæmd:

  1. Nemendur fá kort af skólalóðinni þar sem búið er að merkja inn helstu plöntur.
  2. Nemendur fara út, finna plönturnar og kanna aðstæður í kringum eina þeirra: Hvert er hitastigið? Er jarðvegurinn rakur? Er birta eða skuggi? Er jarðvegurinn næringarríkur eða ekki?
  3. Nemendur gera rannsókn á algengri plöntu eins og t.d. túnfífli. Hægt er að skoða ólík vaxtar skilyrði og skoða fífil sem vex í sól annars vegar og skugga hins vegar. Mælið stilkinn og skráið lengd. Er hægt að draga ályktun af mælingunni? Hvort þrífst túnfífill betur í sól eða skugga? Ef jarðvegurinn er mjög þurr, þá vex túnfífill í sól hægar en túnfífill í skugga.
  4. Finnið plöntur á skólalóðinni sem eru með ólík vaxtarskilyrði. Takið myndir af þeim og búið til veggspjald með ólíkum plöntum og ólíkum vaxtarstað.
  5. Safnið saman jarðvegi á ólíkum stöðum og skoðið hann í smásjá.
  6. Sáið fræi í ólíkan jarðveg og skoðið í hvernig jarðvegi plantan þrífst best.

Plöntur þurfa ólík vaxtarskilyrði. Plöntur eins og túnfíflar eru með breið blöð og vaxa vel á göngustígum, melgresi þrífst vel í sendnum jarðvegi en margar plöntur þurfa jarðveg sem er mjög næringarríkur.

Verkefnið birtist áður í bókinni Lifandi náttúra – Lífbreytileiki á tækniöld