Að nemendur læri um ljóstillífun, þeir þjálfast að vinna í hóp og læra flókið hugtak í gegnum leik. Verkefni fyrir 7-12 ára

Aldur: 7-12

Markmið: Að nemendur læri um ljóstillífun, þeir þjálfast að vinna í hóp og læra flókið hugtak í gegnum leik.

Efni og áhöld: Reipi, spjöld eða mislitir klútar (nemendur geta útbúið spjöldin).

 

Framkvæmd:

Kennari útskýrir ljóstillífun fyrir nemendum t.d. með því að sýna mynd af plöntu og ræðir hvaða hlutverk mismunandi hlutar hennar hafa. Einnig er hægt að skoða myndbönd á netinu sem útskýra ljóstillífun.  Plöntur anda og nærast á vatni og koltvísýringi. Þegar sólin skín á plönturnar þá ljóstillífa þær. Þá framleiðir plantan glúkósa og súrefni. Súrefni er nauðsynlegt fyrir allarlífverur til að lifa. Plöntur framleiða meira súrefni en þær þurfa.

 

Spurningar

Hvað gerist ef plöntur fá ekki sólarljós?

Skoðið plöntu sem er undir steini og sjáið hvernig hún er á litinn.

Takið tvær plöntur sömu tegundar, setjið eina í skugga og aðra í sólarljós.

Látið þær vera þar í einhvern tíma, skoðið síðan hvort einhver munur verður á plöntunum.

 

Nemendur teikna plöntu og setja útskýringar inn á myndina um hvernig ljóstillífun fer fram. Þegar teikningin er tilbúin, er hægt að fara með hana heim til að sýna foreldrum.

 

Ljóstillífunarleikur

Hægt er að leika leikinn í skólastofu eða á skólalóð.

  • Leggið reipi eða band á gólf/jörð og myndið útlínur laufblaðs, setjið rauð og græn spjöld/klúta innan línunnar.
  • Fimm börn leika sólargeisla og fá sólarspjöld/klút, fimm börn leika vatnsdropa og fá dropaspjöld/klút, fimm börn leika koltvíoxíð og fá hvít spjöld/klút. Þau standa fyrir utan laufið.
  • Fyrst fara vatnsdroparnir fimm inn í laufið og hreyfa sig að vild. Næst fara nemendur sem leika koltvísýring inn í laufið og para sig við vatnsdropana, tveir og tveir haldast í hendur, pörin beygja sig niður. Að  lokum fara sólargeislarnir inn í laufblaðið og velja sér par til þess að vera með.

Þá fara allir með „álagaþulu“:

 

Drekktu vatn úr jörðinni

andaðu að þér efnum loftsins

njóttu geisla sólarinnar.

Gefðu okkur heilnæmt loft

grænu blöðin falleg og góð

þá mun jörðin lifa um ókomin ár.

 

 Að þulu lokinni þá:

  • Breytast vatnsdroparnir í glúkósa, nemendur leggja niður dropaspjöldin og taka upp rauð spjöld.
  • Koltvísýringur breytist í súrefni, nemendur leggja niður hvítu spjöldin og taka upp græn.
  • Þeir sem leika súrefni fara út úr laufinu en tveir þurfa að vera eftir í laufinu, því það þarf súrefni líka.

Verkefnið birtist áður í bókinni Lifandi náttúra – Lífbreytileiki á tækniöld