Náttúra til framtíðar fjallar um ýmisleg umhverfisvandamál og hvað hægt er að gera til að finna lausnir á þeim. Vistheimt, er ein slík lausn.

Rafbók

Verkefnasafn

Kennsluleiðbeiningar

Náttúra til framtíðar 

Námsefni fyrir unglingastig grunnskóla og framhaldsskóla um vistheimt og náttúruvernd.

Höfundur: Rannveig Magnúsdóttir

Náttúra til framtíðar samanstendur af rafbók með verkefnasafni ásamt kennsluleiðbeiningum. Í námsefninu læra nemendur um margvísleg umhverfisvandamál og hvað hægt er að gera til að finna lausnir á þeim. Vistheimt eða endurheimt vistkerfa er ein slík lausn en það er ferli sem hjálpar náttúrunni að lækna sig sjálfa þegar vistkerfi hefur hnignað/skemmst.

Í fræðilega kaflanum Lesið í náttúruna er fjallað um stór umhverfisvandamál eins og tap á lífbreytileika, loftslagsmál og landeyðingu og hvernig hægt er að nota vistheimt til að leysa þessi vandamál. Þessi kafli er fræðilegi grunnurinn fyrir verkefnin og hann gagnast kennurum sem og nemendum. Námsefninu er ætlað að efla umhverfisvitund nemenda, gagnrýna hugsun og gefa þeim kost á að fjalla um hugtök eins og ágengar framandi lífverur, gróður- og jarðvegseyðingu, landhnignun, landlæsi, lífbreytileika, loftslagshamfarir, náttúruvernd, vistheimt, þjónustu vistkerfa og örfoka land.

Vistheimt er rauði þráðurinn í gegnum allt námefnið og því fylgja 25 ólík verkefni. Verkefnin skiptast í þrennt; frásagnaverkefni, hópverkefni og tilraunir og hægt er að velja þau verkefni sem henta best eða sem mestur áhugi er á. Verkefnin eru öll afar ólík og innan hvers verkefnis er líka frelsi fyrir nemendur að velja sjónarhorn sem hentar þeim best og vekur mestan áhuga hjá þeim. Hægt er að vinna flest verkefnin í nokkrum kennslustundum í senn en auðvelt er að einfalda verkefnin eða taka efnið dýpra og nota meiri tíma í það ef tækifæri gefst.

Með verkefnunum læra nemendur hvernig þeir geta metið stöðu náttúrunnar og hvernig hægt er að finna lausnir og aðgerðir til að aðstoða náttúruna til framtíðar.