Verkefnið byggir á valdeflingu nemenda og lýðræðislegu skólastarfi
Skólar sem hafa áhuga á að vera í verkefninu byrja á því að skrá sig hér að ofan.
Þegar skólinn hefur verið formlega skráður á græna grein fær hann senda handbók verkefnisins og staðfestingu á þátttöku í verkefninu. Vinna við verkefnið felst í því að stíga skrefin sjö. Skólar ráða hversu langan tíma þeir taka í þá vinnu en að jafnaði tekur það um tvö ár.
Skólar velja sér þema eða þemu til að vinna með fyrir hvert tímabil og stíga skrefin sjö í samræmi við þau markmið sem sett voru.
Þegar skóli telur sig hafa stigið skrefin til fulls sendir hann inn umsókn ásamt greinagerð til Landverndar. Starfsmaður Landverndar mætir svo í skólann til að taka út starfið.
Skólar á grænni grein geta sótt ráðgjöf til Landverndar um allt sem lýtur að þessu starfi. Skólar á grænni grein og grænfánaskólar mynda tengslanet, eiga samstarf og skiptast á upplýsingum.
Sérfræðingar skóla á grænni grein bjóða þátttökuskólum upp á kynningu á verkefninu og vinnustofur fyrir starfsfólk. Árlega er fulltrúum skóla boðið á grænfánaviðburð á vegum Landverndar, annað hvert ár á stóra ráðstefnu og hitt árið á landshlutafundi sem fara fram í öllum landshlutum.
Þátttökugjald fyrir hvert skólaár er 135 krónur á hvern nemanda skólans en þó að lágmarki 25.000 kr. á skóla og að hámarki 95.000 kr. Ef skólar eru á fleiri en einni starfsstöð, eru greiddar 15.000 krónur fyrir hverja starfsstöð en hámarksgreiðslan aðeins greidd einu sinni.
Landvernd sendir skólunum reikninga fyrir árgjaldinu.