Ferlið þegar hnignuðu vistkerfi er hjálpað við að ná bata er kallað endurheimt vistkerfis eða einfaldlega vistheimt.

Vistheimt, eða endurheimt vistkerfa er ferli sem hjálpar hnignuðu (skemmdu) vistkerfi að ná bata. Með vistheimt er náttúrulegum ferlum, eins og hringrásum vatns og næringarefna, komið aftur af stað. Þá getur vistkerfið sjálft haldið áfram gróa. Tilgangur vistheimtar er m.a. að endurheimta búsvæði og lífbreytileika og bæta þjónustu vistkerfa. Á sama hátt og bein eru lengi að gróa getur það tekið mjög langan tíma fyrir skemmd eða hnignuð vistkerfi að ná bata.

Áratugur vistheimtar 2021-2030

Vísindafólk um allan heim hefur áratugum saman lýst sívaxandi áhyggjum af ástandi Jarðar. Þar má nefna ósjálfbæra landnýtingu, tap á lífbreytileika, ágengar framandi tegundir, búsvæðaeyðingu, farsóttir og samspil þessara vandamála við loftslagshamfarir og ofneyslu mannsins. Þar sem líf okkar er háð vistkerfum og lífbreytileika þeirra, dugar ekki lengur að vernda þau sem eru eftir. Við þurfum að snúa dæminu við og endurheimta vistkerfi sem hafa hnignað eða tapast. Því hafa Sameinuðu þjóðirnar tileinkað áratuginn 2021 – 2030 endurheimt vistkerfa. Það liggja mörg tækifæri í vistheimt og Ísland getur svo sannarlega tekið virkan þátt í að endurheimta vistkerfi, bæði á landi og hafi.

Verkfærataska vistheimtar

Verkfærataska vistheimtar inniheldur fjölbreyttar aðgerðir því aðstæður eru mismunandi á hverjum stað. Styrkja þarf getu vistkerfa til að ná sér eftir áföll og aðalatriðið er að láta náttúruna sem mest um að lækna sig sjálfa. Svo þarf að muna að vistheimt er langhlaup, það eru engar skyndilausnir og batinn tekur tíma líkt og beinbrot sem þarf að gróa. Sömu þrjár nálganir gilda alls staðar, hvort sem vistheimtin á sér stað á landi eða í sjó. Ísland hefur hingað til aðallega unnið með vistheimt á landi.

Friðun

Einfaldasta vistheimtin er að minnka álag á raskaða svæðið eða friða það alveg fyrir álagi. Álagið getur m.a. verið óhófleg beit, ofveiðar eða traðk og önnur umferð. Þannig fær vistkerfið frið og tækifæri til að jafna sig. Stundum er þetta nóg.

Stöðva rof og koma lykiltegundum á legg

Ef friðun er ekki nóg þarf að finna hvað það er sem hindrar eða hægir á bata vistkerfisins og skipuleggja aðgerðir til að yfirvinna það. Dæmi um takmarkandi þætti eru frostlyfting, rof, skortur á næringarefnum eða að lykiltegundir séu ekki til staðar. Aðgerðir gætu þá snúist um að stöðva rof og draga úr frostlyftingu eða að koma stofnum viðkomandi tegunda á legg. Þar sem vistkerfið er mjög illa farið getur þurft að beita fleiri en einni aðferð.

Fjarlægja ágengar framandi tegundir

Í sumum tilfellum getur þurft að fjarlægja ágengar framandi tegundir af svæðinu til að vistkerfið nái bata.

Ítarefni

Námsefnið Náttúra til framtíðar fyrir unglingastig og framhaldsskóla. Höfundur er Rannveig Magnúsdóttir.

Handbókin Að lesa og lækna landið. Höfundar eru Ása L. Aradóttir og Ólafur Arnalds, prófessorar við Landbúnaðarháskóla Íslands.

 

 

Refir mæla vistheimt Ari Yates