Verkefnið vinnur að því að gera foreldra og börn meðvituð um áhrif ökutækja á umhverfið. Börnin búa til spjöld sem hægt er að hengja á baksýnisspegil bifreiða. Verkefni fyrir 1-6 ára

Aldur:  1-6 ára

Tími: 2 kennslustundir

Markmið:

  • Að nemendur verði meðvitaðir um mikilvægi þess að slökkva á bílunum þegar skotist er frá.

Efni og áhöld: Blöð til að lita, litir að eigin vali (sem henta aldri), plöst til að plasta miðana (svo þeir verði endingarbetri), bandspottar og gatari.

Framkvæmd:

Börnin fá blað sem þau teikna á, kennari sér um að koma texta fyrir á bakhlið spjaldsins og setja myndina því næst í plast og plasta. Þegar búið er að plast er eitt gat gert og band þrætt í. Spjöldin eru svo afhent foreldrum til að hengja í bílana.

Undirbúningur kennara

Kennari sér um að taka til efnivið í spjöldin, hver deild útfærir sína miða.

Kennarar senda upplýsingar í tölvupósti til foreldra um verkefnið og hugmyndina af verkefninu.

Börnin

Börnin frædd um verkefnið og rætt  um af hverju það er gott fyrir umhverfið að slökkva á bílunum. Börnin velja texta sem fer á miðann. Gaman ef þau fá að kjósa um texta.

 

Önnur útfærsla – frásögn frá leikskóla

Foreldrar nokkurra barna komu að máli við okkur kennarar að þeim finndist of mikið um bíla í gangi fyrir utan leikskólann þegar þau kæmu með börnin og næðu í þau.

Kennarar settust niður með öllum börnunum í leikskólanum (130 börn), hver með sinni deild og ræddu um skaðsemi útblásturs og mikilvægi trjáa og gróðurs í þessu samhengi. Ákveðið var að útbúa miða sem þau gætu farið með heim til foreldranna til að benda foreldrum á þetta og einnig væri möguleiki fyrir foreldra að hengja þessa miða hjá bíllyklunum eða í bílana, til að minna þau enn frekar á hvað það væri hættulegt að anda útblæstrinum að sér. Börnin voru meira en til í þetta og hafist var handa.

Áhöld – efni

Það var notaður pappi, gjarnan úr cheeriospökkum, og klipptur var út dálítill ferhyrningur. Börnin máluðu eða teiknuðu á aðra hliðina en á hina límdu þau miða sem prentaður var út úr tölvu og á stóð „vinsamlegast drepið á bílnum“. Síðan var ferningurinn gataður og band þrætt í svo hægt væri að henga miðann upp.

Undirbúningur kennara

Þegar að verklega hlutanum kom ákvað hver deild hvernig hún vildi vinna með þetta og nálgast eftir aldri og aðstæðum hverju sinni. Tekin var ákvörðun um hvaða efnivið ætti að nota og tímasetningu.

Undirbúningur nemanda

Við ræddum fyrst við börnin um skaðsemi útblásturs. Sumir notuðu loðtöflusögu sem einn kennarinn á Naustatjörn hafði útbúið um mikilvægi trjágróðurs og annars gróðurs í tengslum við „að breyta vondu lofti í gott loft“ eins og við orðum það við yngstu börnin til að þau skilji betur hvað við erum að segja og kenna þeim. Einnig voru þau hvött til að segja foreldrum sínum frá og biðja þau að muna eftir þessu þegar þau stöðvuðu bílinn fyrir utan leikskólann og verslanir og aðra staði að drepa á bílnum.

Mat kennara

Foreldrarnir sem vöktu máls á þessu urðu mjög glöð þegar þetta verkefni var unnið og þökkuðu vel fyrir það. Einnig komu aðrir foreldrar að máli við okkur og sögðu okkur að þetta skilaði sér vel heim. Og það væri eins gott að standa sig, því það stæði ekki á athugasemdum barnanna ef þessu væri ekki framfylgt. Þetta var skemmtilegt verkefni, hæfilega langt fyrir svona ung börn og við viljum meina að það hafi skilað sér mjög vel til foreldra.

Mat nemanda

Börin voru glöð og jákvæð og áhugasöm um að koma þessum skilaboðum til foreldranna.