Verkefni sem fær nemendur til þess að skoða raunverulegar þarfir sínar,og velta fyrir sér spurningum á borð við: þurfum í raun að eiga allt sem við eigum? Verkefni fyrir 6-10 ára

Aldur: 6-10 ára

Tími: 2 kennslustundir

Markmið: Að nemendur:

Velti fyrir sér hverjar raunverulegar þarfir okkar eru? T.d.

  • þurfum við allt þetta dót/bangsa?
  • erum við að nota allt dótið okkar?
  • hvað verður um dótið þegar við erum hætt að nota það?
  • hvaðan kemur dótið?

Efni og áhöld: Hvít blöð, stór blöð fyrir súlurit, litir.

Framkvæmd:

Nemendur fá fyrirmæli um að telja tuskudýr á heimilinu, skrifa töluna á hvítt blað og skila til kennara. Kennari tekur tölurnar saman og ræðir. Því næst eru markmið verkefnisins rædd: þurfum við ákveðið mikið af dóti, erum við að nota allt dótið okkar, hvað verður um dótið þegar við hættum að nota það og hvaðan kemur dótið.

Því næst er nemendum skipt í 4-5 manna hópa og nemendur gera súlurit eftir tuskudýratölunum. Taka saman hve mörg heimili voru með tuskudýr á bilinu 0 – 10/ 11 – 20/ 21 – 30 o.s.frv.

Umræður eftir hópavinnu þar sem markmið verkefnisins eru rædd. Spurningar eins og þurfum við allt dótið, hvaðan kemur það, hvert fer það þegar við erum hætt að nota það og fleira.

Umræðurnar fara eftir þroska nemenda, hér eru dæmi um spurningar sem hægt er að nota:

Hverjar eru raunverulegar þarfir okkar? Þurfum við allan þennan mat, föt, hluti? Hvaðan kemur þetta allt? Er þetta framleitt á Íslandi eða annars staðar?

Hvað verður um það sem við erum hætt að nota?

Getum við minnkað neyslu okkar? Hvað felur það í sér?

Minnka lífsgæðin um leið og við minnkum neysluna? Hvaða hlutir skipta okkur raunverulegu máli í lífinu?