Verkefni sem kynnir fyrir börnum birtingarmyndir vatns og hringrás þess. Börnin læra hugtök ásamt því að gera athuganir. Verkefni fyrir 2-6 ára

Aldur: 2-6 ára

Tími: 3 kennslustundir

Markmið:

  • Kynna fyrir börnum á leikskólaaldri birtingarmyndir vatns og hringrás þess.
  • Afhverju vatnið breytir um form og í framhaldi af því afhverju það breytir um form í náttúrunni eftir árstíðum (áhrif hitastigs).
  • Hvernig vatn/klaki/snjór sé á litinn o.fl.

Málörvun: Leggja inn orð og hugtök tengd vatni svo sem; bráðnun/bráðna – vatn – klaki – snjór – krap – gufa – uppgufun – vatnsyfirborð – hitastig – frostmark – frost – fast form – fljótandi form – o.s.frv.

Efni og áhöld:

Klaki – Snjór – 2x glerskál. Myndir og/eða bækur um vatn/hringrásina sem innlegg í umræður og útskýringar ef vill.

Hér má finna efni til stuðnings kennara – Umhverfisstofnun | Hringrás vatns (ust.is)

1.kafli fjallar um vatn – Halló heimur 2 (mms.is)

Framkvæmd:

1. Kennslustund: Snjór og klaki sóttir út og sett inn í sitthvora skálina. Forhugmyndir barnanna ræddar um það hvað gerist þegar snjór og klaki er settir inn og afhverju. Hér er kjörið tækifæri til að fá fram líflegar umræður um hvaðeina er tengist vatni og leggja inn orð og efla skilning á hringrás vatns.

2. Kennslustund (daginn eftir): Bráðnunin skoðuð (snjórinn ætti að vera orðin að vatni en klakinn ekki að fullu). Tilvalið að gera strik á snjóskálina til að merkja hvert vatnsyfirborðið nær og jafnvel að hafa skálarnar þar sem börnin geta fylgst með þeim næstu daga fram. Aftur er hér kjörið tækifæri til umræðna og útskýringa.

3. Kennslustund (u.þ.b. 3 dögum frá annari kennslustund): Tilraunin skoðuð (nú ætti að vera vatn í klakaskálinni en ekkert í snjóskálinni) og rædd. Uppgufun vatnsins út í andrúmloftið útskýrð fyrir börnunum ásamt hringrás vatns í náttúrunni.

Hægt er að taka marga vinkla inn í verkefnið og vinna þannig að mismunandi markmiðum svo sem að ræða/skoða hversu hreinn/skítugur klakin/snjórinn er (sést vel þegar allt er bráðnað í skál).