Umhverfismennt og menntun til sjálfbærni. Hver er munurinn? Guðrún Schmidt sérfræðingur hjá Skólum á grænni grein skýrir hér muninn.

Oft ríkir sá misskilningur að menntun til sjálfbærni sé það sama og umhverfismennt.

Það er mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir muninn milli þessara tveggja menntastefna og að horfa á umhverfismennt sem mikilvægan hlut af menntun til sjálfbærni.

Í umhverfismennt er verið að byggja upp mjög mikilvæga þekkingu á náttúrunni og umhverfimálum, auk þess sem verið er að efla áhuga og væntumþykju á náttúrunni.

Öll umhverfismennt sem hefur farið fram og fer fram í dag er mjög mikilvæg.

En með menntun til sjálfbærni gengur skrefi lengra og skoðar málefnin á heildstæðan hátt og í víðara samhengi. Mikil þróun hefur verið í þeim málum, bæði á alþjóðlegum og innlendum vettvangi.

Umhverfið – samfélagið – efnahagurinn

Á meðan umhverfismennt einbeitir sér að umhverfismálum tekur menntun til sjálfbærni á öllum þrjár stoðir sjálfbærrar þróunar sem eru umhverfis-, félagslega- og efnahagslega stoðir.

Orsakir, afleiðingar og samhengi áskorana um sjálfbæra þróun eru skoðaðar með þverfaglegri nálgun.

Spurningin um réttlæti innan og milli kynslóða og hnattræna vitund eru hér m.a. mikilvæg viðfangsefni.

Hið flókna samhengi milli hnattvæðingar, hagfræðilega þróunar, neyslu, umhverfisvandamála, þróunar og velliðunnar mannkyns, heilsu þess og félagslegrar aðstæðna er skoðað og veita Heimsmarkmið Sameinuðu þjóða um sjálfbæra þróun mikilvægt leiðarljós.

Kennslufræðileg markmið

Fleiri kennslufræðileg markmið er að finna í menntun til sjálfbærni samanborið við umhverfismennt, sérstaklega þegar horft er á eflingu á gildum og hæfni.

Tilgreind er ýmis lykilhæfni sem nemendur eiga að öðlast með menntun til sjálfbærni sem talin eru mikilvæg fyrir þróun í átt að sjálfbærni.

Það má nefna hæfni til virkrar þátttöku, gagnrýninnar hugsunar, að skilja flókin viðfangsefni, til þverfaglegrar hugsunar, að leysa ágreining og komast að niðurstöðu um álitamál, til samkenndar, réttlætiskenndar og til að átta sig á eigin ábyrgð.

Að öðlast getu til aðgerða er aðalmarkmiðið.

Geta til aðgerða er hæfni til að nota á virkan hátt þekkinguna um sjálfbæra þróun og að bera kennsl á vandamál sem koma vegna ósjálfbærar þróunar. Það er s.s. að efla vilja og getu einstaklinga til að taka virkan þátt í að móta og umbreyta samfélaginu í átt að sjálfbærri þróun.

Kennsluaðferðir

Hefðbundnar kennsluaðferðir í umhverfismennt eru m.a. skoðunarferðir og upplifun á náttúrunni, vinna við náttúruvernd, listsköpun, athuganir og rannsóknir, tilraunir og hópavinna.

Kennsluaðferðir í menntun til sjálfbærni þurfa einnig að gera nemendum kleift að taka þátt í ákvörðunarferlum, þær eiga að efla getu til að umgangast flókin og þverfagleg mál og ná samþættingu þeirrar og einnig að vega og meta gildi og viðmið. 

Nota þarf þátttökumiðaðar aðferðir þar sem nemandinn er í aðalhlutverki. Slíkar aðferðir eru m.a. hlutverkaleikir, hermi-leikir, ímyndunarafls-ferðalög, hugarflug, málþing, heimskaffi, fiskabúr-aðferðin og framtíðarverkstæði.

Að hugsa á heimsvísu og framkvæma heima fyrir

Mikilvægt er að finna hvað hægt er að gera í raun og veru sem gætu höfðað til hvers og eins en jafnframt að tengja það við vandamál og mögulegar aðgerðir á heimsvísu.

Það þarf að læra að hugsa á heimsvísu og framkvæma heima fyrir og að tengja stóru áskoranirnar á sviði sjálfbæra þróunar við eigin reynsluheim og neyslu. Það þarf að auka meðvitund um hnattræna umfangið á áhrifum vegna hegðunar hvers og eins og alls samfélags og efla getu til aðgerða til að stuðla að sjálfbærri þróun.

Valdefling

Lögð er áhersla á að fræða en ekki hræða, og opna augu fyrir virka aðkomu að raunhæfum lausnum sem hver og einn getur tekið þátt í.

Menntun til sjálfbærni er umbreytandi nám þar sem nemendur læra m.a. listina við að ímynda sér ákveðna óskastöðu og framtíðarsýn og læra hvernig væri hægt að raungera þessa stöðu á virkan hátt.

Samspil umhverfismenntar og menntunar til sjálfbærni

Í umhverfis-félagsfræði hafa ýmsar rannsóknir leitt m.a. í ljós að fólk sem hefur snemma á lífsleiðinni fengið margbreytilega og jákvæða reynslu af náttúruupplifunum mun á fullorðinsárum hafa vernd umhverfisins frekar í huga í ákvörðunum sínum og gjörðum.
En einnig hafa rannsóknir sýnt fram á að það er bara lítil samsvörun milli aukinnar umhverfisvitundar og umhverfisvænna lifnaðarhátta. Það skýrist m.a. af því að stór hlutur fólks í vestrænum löndum sem hefur einhverja umhverfisvitund gerir einnig ákveðna kröfur til lífsgæða sem hefur ákveðna neyslu í för með sér.

Fleiri rannsóknir hafa síðan sannreynt að það er ákveðin tilhneiging til þess að það fólk sem er virkt í umhverfismálum hallast oft meira að öðrum gildum en t.d. efnishyggju.

Þessar niðurstöður undirstrika að umhverfismennt er mikilvæg alveg frá ungu barnsbeini m.a. til þess að stuðla að umhverfisvitund en það eitt og sér er ekki nóg heldur þarf síðan að vinna í því að breyta gildum í samfélögum til þess að ná fram varanlegum og verulegum kerfisbreytingum. 

Hér kemur menntun til sjálfbærni sterk inn því hún á að stuðla að slíkum breytingum á gildum, hegðun og á kerfinu. Horfa þarf á umhverfismennt og menntun til sjálfbærni sem eina heild, umhverfismennt sem mikilvægan grunn og menntun til sjálfbærni sem framhald og útvíkkun.

(Útdráttur úr óútgefinni handbók um menntun til sjálfbærni, Guðrún Schmidt, Landvernd)

 

Tengt efni