Við verðum að virða náttúruna, standa saman, breyta loforðum í aðgerðir, endurhugsa lífsstílinn okkar og átta okkur á því að við getum ekki étið peninga.

Nemendur Menntaskólans á Egilsstöðum sem tóku þátt í Framtíðarsmiðju BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi, eru með mikilvæg skilaboð um aðgerðir í loftslagsmálum til okkar allra.

Við verðum að virða náttúruna, standa saman, breyta loforðum í aðgerðir, endurhugsa lífsstílinn okkar og átta okkur á því að við getum ekki étið peninga.

Við verðum að hætta að nota jarðefnaeldsneyti, læra að lifa nægjusömu lífi, hætta að sóa og svo þarf mengun að kosta þeim sem valda henni.

Svona viljum VIÐ hafa það

Framtíðarsmiðja BRAS “Svona viljum VIÐ hafa það – Valdefling á tímum loftslagshamfara” var haldin í samstarfi við ME, Landvernd og Írisi Lind Sævarsdóttir, listmeðferðarfræðing.

Fyrir hönd Landverndar sá Guðrún Schmidt, sérfræðingur Landverndar á Austurlandi, um hugmyndavinnu og framkvæmd smiðjunnar ásamt Írisi Lind og nutu þær dyggrar aðstoðar Hildar Bergsdóttur, félagsráðgjafa hjá ME og Halldóru Drafnar Hafþórsdóttur, verkefnisstjóra BRAS.

Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir, sérfræðingur hjá Landvernd, kom einnig að hluta kennslunnar.

Valdeflandi verkefni á tímum loftslagshamfara

Tilgangur smiðjunnar var að fræða og ræða loftslagsmál og sjálfbæra þróun á valdeflandi hátt þar sem nemendur fóru m.a. í gegnum ákveðið ferli þar sem þeir orðuðu fyrst sínar áhyggjur, bjuggu síðan til sína framtíðarsýn, settu sér svo markmið í átt að framtíðarsýninni og enduðu á að setja niður sína eigin aðgerðaáætlun til að ná markmiðunum.

Hvert er vistsporið?

Menntun til sjálfbærni eins og hún gerist best

Farið var í gegnum allt efnið á mjög fjölbreyttan hátt, með fyrirlestrum, leikjum, spjalli, hópverkefnum og lögð var áhersla á virkni nemenda. Við þessu tók svo við skapandi vinna þar sem nemendur fengu tækifæri til að leika sér í gegnum sköpun og flæði og leiða hugann að því hvernig þeir sjá framtíðina fyrir sér. Afrakstur sköpunarvinnu voru tvö líkön að samfélögum. Annars vegar var búið til samfélag sjálfbærni úr náttúrulegum efnum eins og timbri, laufi og greinum og hins vegar samfélag mengandi borgar úr efni sem finna mátti í endurvinnslutunnum skólans.

Ungmenni notuðu sköpunarkraftinn til að koma skilaboðum á framfæri

Í gegnum þessi sköpunarverkefni koma nemendur sinum skilaboðum á framfæri. Þar eru bæði að finna skilaboð um það hvað þarf að gera í stóru samhengi á vegum stjórnmála en ekki síður um það sem hvert og eitt okkar á að leggja áherslur á.

Þetta reddast ef við tökum til róttækra breytinga. landvernd.is
Þetta reddast ekki ef við lifum í afneitun.

Við þurfum róttækar breytingar

Skilaboð nemenda eru skýr, við þurfum að gera róttækar breytingar og skapa okkur annan lífsstíl.

Það er samdóma álit allra sem komu að smiðjunni að hún hafi heppnast einstaklega vel og hversu mikilvægt það er að fjalla um loftslagsmálin á í senn fræðandi og valdeflandi hátt. Vonir eru  bundnar við það að mögulega verði hægt að stækka Framtíðarsmiðjuna enn frekar og keyra aftur á næsta skólaári. Landvernd þakkar samstarfsaðilum fyrir gott og gefandi samstarf og nemendum fyrir uppbyggjandi framtíðarsýn og skilaboð.

Tengt efni