Aldingarður æskunnar - átthagaverkefni í Tjarnarseli. Áslaug Unadóttir og Fanney M. Jósepsdóttir segja frá verkefninu.

Áslaug Unadóttir og Fanney M. Jósepsdóttir segja frá verkefninu Aldingarður æskunnar sem er samstarf leikskólans og Garðyrkjufélags Suðurnesja. Nemendur hjálpa til við gróðursetningu í skrúðgarði Keflavíkur. Þau setja m.a. niður haustlauka og hreinsa illgresi úr beðum. Þetta er mjög farsælt samstarf sem gefur báðum aðilum mikið. Þær fjölluðu einnig um tengingu átthagaverkefnis við grunnþætti menntunar og sögðu frá þróunarverkefnum sem skólinn hefur tekið þátt í, sem tengist m.a. útinámi og ræktun.

 

Kynning á landshlutafundum 2021

Kynningin var á dagskrá í fundaröðinni Gæðaskólar á grænni grein sem haldin var í febrúar og mars 2021. Fundarröðin er liður í starfsþróun kennara í verkefninu Skólar á grænni grein og eru sambærilegir fundir haldnir annað hvert ár á móti ráðstefnum. Skólar í verkefninu vinna ötullega að menntun til sjálfbærni og umhverfismálum með nemendum sínum. Skólar á grænni grein vinna valdeflandi og aðgerðamiðuð verkefni og vinna að sjálfbærni í víðum skilningi. http://www.graenfaninn.is

Menntun til sjálbærni undirbýr nemendur fyrir áskoranir samtímans og framtíðarinnar á valdeflandi og skapandi hátt. Við þurfum að skoða hvað í fortíðinni og nútíð hefur skapað ójafnvægi á milli náttúru, samfélags og efnahags. Skólar á grænni grein er alþjóðlegt menntaverkefni https://www.ecoschools.global/

Grænfáninn er veittur þeim skólum sem innleiða menntun til sjálfbærni með skrefunum sjö.