Hvað getum við lært um nútímann af fortíðinni og framtíðinni? Amma, afi, ég og barnabarnið mitt er valdeflandi verkefni sem setur stöðu mála í dag í samhengi við fortíð og framtíð.

Í árþúsundir lifði maðurinn þannig að athafnir hans rúmuðust innan marka jarðarinnar. Það var í raun ekki fyrr en við lok nítjándu aldar sem lifnaðarhættirnir tóku að breytast, og þá breyttust þeir hratt. Á undanförnum áratugum hafa breytingarnar gerst á ógnarhraða og haft í för með sér mikinn fórnarkostnað fyrir jörðina. Á sama tíma hafa lífsgæði ákveðinna hópa fólks batnað en lífsgæði annarra hafa staðið í stað eða versnað.  

Góðar breytingar gerast oft á stuttum tíma.

Staðan í dag er því ekki ákjósanleg, ástand jarðar er ekki gott og misskipting lífsgæða er mikil. En það er samt óþarfi að vera svartsýn. Þar sem þessar breytingar gátu átt sér stað á eins skömmum tíma og raun bar vitni þá hljótum við að geta komið okkur hratt á braut sem snýr þessari þróun við. Við getum öll haft áhrif og verið hluti af breytingunni.  

Hvað getum við lært af fortíð og framtíð?

En hvernig gerum við það? Getum við lært eitthvað af þeim sem eldri eru um það hvernig hægt er að lifa sjálfbærara lífi? Hvernig var lífið þegar amma og afi voru lítil? Var jörðin í betra ástandi þá? Getum við nýtt okkur eitthvað síðan þau voru lítil sem færir jörðina til betri vegar án þess að lífsgæði okkar skerðist? 

Í þessu fjölskylduverkefni förum við í tímaferðalag og tökum viðtal við fólk í fortíð, nútíð og framtíð. Verkefnið er hluti af námsefni um loftslagsbreytingar sem Landvernd mun gefa út haustið 2020.

Verkefnið skiptist í þrjá hluta:

Amma, afi, eldri manneskja

Ég

Barnabarnið mitt

Amma, afi, eldri manneskja

Taktu viðtal við manneskju sem er fædd á fyrri hluta síðustu aldar (a.m.k. fyrir árið 1960, því fyrr á öldinni því betra). Þetta getur verið amma, afi, frændi, frænka eða einhver í kringum þig sem er fædd/ur fyrir árið 1960. Viðkomandi á að svara spurningunum miðað við lífið þegar hann/hún var að alast upp.

Á tímum samkomubanns er tilvalið að taka viðtalið yfir síma eða í myndsímtali.

Spurningarnar eru eftirfarandi.  

Hvaða ár fæddist þú? 

Hvar bjóstu (í borg/þorpi/sveitabæ)? 

Hvernig var húsnæðið sem þú ólst upp í? 

Hvaðan kom hiti í húsið? En rafmagnið? Hvernig var það framleitt og hvaðan kom það? 

Hvernig var maturinn sem þú borðaðir? Hvar og hvernig nálgaðistu matinn sem þú borðaðir? Hvernig voru umbúðirnar utan um matinn? 

Hvernig voru fötin sem þú varst í? Hvaðan komu þau? Hversu oft fékkstu ný föt? Hvað entust þau lengi? 

Hvernig fórstu leiðar þinnar, t.d. í skóla eða annað? Fórstu í frí eitthvert? Ef já, með hvaða hætti fórstu þangað? 

Gekkstu í skóla? Hvaða möguleika áttirðu til menntunar? 

Hafðirðu möguleika á að stunda áhugamál? Ef já, hvaða áhugamál? 

Hversu mikill jöfnuður var í samfélaginu? Var auðvelt fyrir þig að hafa áhrif, t.d. innan heimilis, skóla eða samfélagsins sem þú bjóst í? 

Hver var staðan á jörðinni almennt? Hversu mikil mengun var? Hvaða umhverfismál var talað um? 

Spurning að eigin vali, hvað fleira viltu vita?

Ég

Svaraðu sömu spurningum hér að ofan, en nú sjálfa/n þig þegar þú varst að alast upp. Ef þú ert í yngri kantinum og veist ekki svarið getur þú beðið einhvern fullorðinn um að aðstoða þig.  

Barnabarnið mitt

Ímyndaðu þér að nú sé árið 2080. Þú ert að taka viðtal við barnabarnið þitt. Þú notar sömu spurningar og í fyrri tveimur hlutunum en svörin semur þú sjálf/ur. Passaðu að svörin sýni fram á að samfélagið hafi breyst til hins betra hvað varðar umhverfisvernd, loftslagsbreytingar og tengd málefni. Notaðu svörin frá ömmu og afa og þín eigin svör til að hjálpa þér. 

Er eitthvað sem kom fram í svörum ömmu og afa sem æskilegt væri að við tækjum upp aftur til að verða umhverfisvænna samfélag – án þess að lífsgæði skerðist?  

Til umhugsunar: 

Hvað eru mörg ár á milli fæðingar ömmu þinnar og/eða afa og barnabarns þíns? 

Hvað hefur breyst mest á þessum tíma? 

Hvað hefur valdið þessum breytingum? 

Er eitthvað sem við getum lært og nýtt af daglegu lífi á tímum ömmu og afa? 

Ef þú gætir breytt einhverju af þessu fyrir barnabarnið þitt til hins betra, hvað myndi það vera? 

Afrakstur

Þegar þú ert búin að svara spurningunum fyrir barnabarnið þitt skaltu gera annað hvort: 

Skrifa stutta frásögn um barnabarnið þar sem fram koma a.m.k. átta af þeim atriðum sem spurt er um hér að ofan. 

EÐA: 

Útbúa veggspjald þar sem þú lýsir lífi barnabarnsins í stuttu máli og skreytir með myndum. il

Lærum af reynslunni, lærum af okkur eldra fólki, landvernd.is

Ítarefni

Sjálfbærni er eitt af þeim hugtökum sem við lesum og heyrum um reglulega. Flest teljum við okkur vita nokkurn veginn um hvað sjálfbærni fjallar, þetta hefur eitthvað með umhverfismál að gera. Um loðið hugtak er þó að ræða sem erfitt getur verið að skilgreina. Skilgreiningin þarf þó ekki að vera svo flókin. Byrjum á að gefa okkur eftirfarandi tvær forsendur:

a. Allir Jarðarbúar vilja borða hollan og góðan mat á hverjum degi og búa í húsi með rafmagni og rennandi vatni. Þeir vilja einnig hafa eitthvað um það að segja í hvernig samfélagi þeir lifa og hafa rétt til menntunar, heilbrigðiskerfis og annarrar grunnþjónustu. 

b. Jörðin býr yfir auðlindum sem Jarðarbúar þurfa á að halda til að lifa, svo sem hreinu vatni, fersku lofti og fæðu. Hún býr einnig yfir auðlindum sem nýttar eru sem hráefni í iðnaði og framleiðslu. 

Að þessum forsendum gefnum getum við sagt að við sjálfbærni sé það þegar forsenda A rúmast innan forsendu B, þ.e. þegar allir jarðarbúar geta lifað góðu, mannsæmandi lífi án þess að gengið sé nærri auðlindum jarðar, þ.e. þær séu nýttar þannig að þær nái að endurnýja sig.