Nemendur teikna myndir af bústöðum fólks og dýra og bera saman frumþarfir. Nemendur læra um hugtök tengd búsvæðum eins og fæða, vatn, skjól, rými. Verkefni fyrir 6-9 ára

Aldur:  6 – 10 ára

Tími: 2-4 kennslustundir

Markmið:

  • Að nemendur læri um hugtakið búsvæði og þá þætti sem tengjast því
  • Að nemendur átti sig á því að búsvæði lífvera er ólíkt og stjórnast af þörfum þeirra
  • Að nemendur átti sig mikilvægi þess að lífverur eigi gott búsvæði sem hentar þeirra þörfum
  • Að nemendur geti sagt með eigin orðum hugsanir sínar um lífverur og búsvæði þeirra

Efni og áhöld: Stórt blað, blýantar, litir, valkvætt: Lítill bátur, steinar, bali með vatni í

Framkvæmd:

Nemendur teikna myndir af bústöðum fólks og dýra og bera saman frumþarfir.

Eftirfarandi orð eru skráð á töfluna: Fæða, vatn, skjól, rými.

Hvert orð er lesið upphátt og nemendur beðnir að endurtaka það. (Einnig er hægt að fara eftir stafsetningu orðanna.)

Hugtakaskilningur

Nemendur skilja auðveldlega hugtökin vatn og fæða. Þeir vita vel að hvort tveggja þurfa þeir sjálfir daglega. Erfiðara er að skilja hugtökin skjól og rými. Nemendur eru beðnir að útskýra hvað skjól og rými sé. Þeir verða að skilja vel merkingu allra orðanna áður en haldið er áfram.

Nemendur fá teiknipappír og liti. Þeir eru beðnir að teikna mynd af heimili sínu og sýna á henni hvar þeir fá fæðu, vatn, skjól og rými. Nemendur eru beðnir að merkja inn á myndina staðina þar sem þeir fá fæðu, vatn, skjól og rými.

Hægt er að sýna fæðu, skjól, vatn og rými á einfaldri teikningu. T.d. með því að teikna vatnskrana og kæliskáp undir húsþaki eða skýli og grindverk umhverfis, sem táknmynd rýmis. Rými má sýna sem svæði inni í íbúð eða húsi og utan húss. Hér er það bæði húsið og garðurinn. Nágrennið getur líka verið hluti af rýminu. (Rými er í raun allt það svæði sem nota þarf til að komast af.)

Þegar teikningarnar eru tilbúnar er tveimur orðum bætt við á töfluna: Skipan og búsvæði. Orðin eru sögð upphátt og börnin beðin að endurtaka þau. (Einnig má æfa stafsetningu þessara orða.)

Búsvæði

Nemendum er sagt að þegar fæðu, vatni og skjóli er komið þannig fyrir á til teknu svæði að það henti dýrum, þar á meðal fólki, og þau geti lifað þar sé svæðið kallað búsvæði. Fæðan, vatnið, skjólið og rýmið eru í þeirri skipan að dýrin geta lifað.

Til viðbótar:

Börnin eru spurð hvort þau gætu búið í húsi þar sem fara þyrfti sex kílómetra í norður til að komast á baðherbergið, tuttugu kílómetra í vestur til að komast í eldhúsið og í svefnherbergið væri fimmtán kílómetra ferð í austur. Þau svara án efa neitandi af því slík skipan hæfir ekki fólki. Sum dýr fara hins vegar miklar vegalengdir innan búsvæða sinna. Útskýra má orðið skipan með tilvísun í skip og það að skipa út. Ef farmi skips er ekki komið rétt fyrir hallast skipið, því getur jafnvel hvolft og það sokkið. Þetta má sýna með litlum báti á vatni í fati. Ef lífsnauðsynjum er ekki rétt skipað á búsvæði líður dýrum illa þar og geta jafnvel ekki lifað.

Nemendur eru beðnir að skrifa stórum stöfum efst á teikninguna sína orðið búsvæði. Talað er við þau um merkingu orðsins.

Nemendur fá aðra teiknipappírsörk og eru beðnir að hugsa sér hvaða dýr sem er á landi, í vatni eða sjó. Nokkrir þeirra eru spurðir hvaða dýr þeir hafi hugsað sér. Þeim er sagt hvort dýrin sem þeir nefna eru náttúrudýr eða ræktuð dýr. Líklega eru nefnd dýr úr báðum þessum hópum en sé ekki svo eru nemendur spurðir hvers konar dýr hafi ekki verið nefnd. Mikilvægt er að nemendur hafi hugsað sér bæði náttúrudýr og ræktuð dýr.

Nemendur eru beðnir að teikna mynd af dýrinu sínu þar sem það býr. Þeir eru minntir á að gleyma ekki að setja á myndina fæðu, vatn, skjól og rými í þeirri skipan sem þeir telja að hæfi dýrinu til að það geti lifað.

Nemendur eru beðnir að segja frá myndunum sínum og benda á búsvæðaþættina sem þeir teiknuðu.

Nemendur eru beðnir að skrifa BÚSVÆÐI stórum stöfum efst á teikninguna sína. Rætt er um hvernig fólk og önnur dýr þurfa fæðu, vatn, skjól og rými. Skipanin er mismunandi fyrir hvert dýr en öll hafa sambærilegar frumþarfir. Staður þar sem fæðu, vatni, skjóli og rými er þannig fyrir komið að hæfi dýri svo að það geti lifað þar er kallað búsvæði. Eftir að nemendur hafa öðlast skilning á hugtakinu búsvæði eru skrifaðar á töfluna nokkrar setningar sem útskýra það. Reynt er að nota sem mest hugmyndir sem koma frá nemendum sjálfum. Til dæmis: Búsvæði er staður. Þar er fæða, vatn skjól og rými. Þetta er það sem dýr þurfa til að geta lifað.

Fyrir elstu nemendurna gætu setningarnar verið:

Fæða, vatn, skjól og rými verða að vera innan hæfilegrar fjarlægðar fyrir hvert dýr.

Mismunandi tegundir dýra þurfa mismunandi gerð fæðu, vatns og skjóls og misstórt rými.

Nemendur geta nú skrifað þessar setningar aftan á aðra hvora teikninguna sína eða á skriftapappír. Þeir geta einnig haft setningar á töflunni eftir kennaranum orð fyrir orð eða skrifað sínar eigin setningar um búsvæði og teiknað viðeigandi myndir.

Í lokin

Nemendur skrifa tvær ör sögur. Önnur á að vera um dýr sem fær öllum sínum lífsþörfum fullnægt, hin um dýr sem skortir einhverja lífsnauðsyn.