Aldur: 10-13 ára
Tími: 1-2 kennslustundir
Markmið:
Tilgangur þessa verkefnis er að vekja athygli nemenda á þjónustu vistkerfa. Í lok verkefnis eiga nemendur að:
- Þekkja helstu þjónustu sem vistkerfi veita okkur
- Skilja að án þjónustu vistkerfa ætti maðurinn erfitt með að lifa á Jörðinni
- Skilja mikilvægi vistkerfa í góðu ástandi
- Skilja hvernig þjónusta vistkerfa tengist lífbreytileika
- Þekkja hugtakið vistheimt (endurheimt vistkerfa) og skilja hvernig það tengist þjónustu vistkerfa
Fræðsla
Vistkerfi í góðu ástandi veita okkur ákveðin gæði sem kalla má þjónustu. Þessi þjónusta vistkerfa nær til dæmis yfir náttúruafurðir eins og fæðu, hreint loft, vatn, orkugjafa og húsaskjól. Þjónusta vistkerfa nær einnig yfir það þegar plöntur, sem eru t.d. mikilvæg fæða fólks og dýra, mynda fræ og fjölga sér. Þegar þið farið út í náttúruna, hvort sem það er til að njóta útiveru og hreyfingar, læra um hana eða jafnvel rannsaka eruð þið líka að njóta þjónustu hennar.
Votlendi eru vistkerfi sem veita þá þjónustu að draga úr hættu á flóðum. Öll þessi þjónusta vistkerfa skiptir miklu máli fyrir okkur. Ef ekki er farið vel með náttúruna þá minnkar eða tapast geta vistkerfanna til að veita þjónustu eins og mat og hreint vatn.
Munið að þjónusta vistkerfa er ekki bara lífsnauðsynleg fyrir okkur mennina heldur allar lífverur. Náttúran er ekki bara til staðar til þess að þjóna okkur
Það er hægt að hjálpa vistkerfum sem eru í slæmu ástandi með því að endurheimta lífbreytileikann með vistheimt.
Verkefnavinna
- Getur þú nefnt dæmi um hvaða þjónustu vistkerfi veita okkur?
- Hvað getið þið haldið niðri í ykkur andanum lengi? Við þurfum súrefni.
- Hvað getið þið lifað lengi án þess að drekka vatn (eða annan vökva)?
- Hvað getið þið lifað lengi án þess að borða mat?
- Hvar myndum við fá efni í húsin okkar ef það væri ekki hægt að fá það úr náttúrunni?
- Hvað hefur maðurinn gert sem minnkar þjónustu vistkerfa?
- Hvað gerist ef vistkerfin hætta að geta veitt þessa þjónustu?
- Hvað er hægt að gera til að hjálpa vistkerfum sem eru í slæmu ástandi og geta ekki lengur veitt þessa þjónustu? (Skoðið vistheimt).
Verkefnið birtist áður á verkefnavef bókarinnar Náttúran okkar.
Ítarefni:
Námsefnið Náttúra til framtíðar. https://mms.is/namsefni/nattura-til-framtidar-rafbok
Handbókin Að lesa og lækna landið. https://landvernd.is/bokin-ad-lesa-og-laekna-landid/
Þjónusta vistkerfa. https://ust.is/nattura/liffraedilegur-fjolbreytileiki/nattura-nordursins/thjonusta-vistkerfa/