Hvernig hefur hafið áhrif á líf okkar og hvernig höfum við áhrif á hafið? Námsefnið er ætlað nemendum yngsta- og miðstigs. Hreint haf - plast á norðurslóðum samanstendur af rafbók, verkefnasafni og kennaraleiðbeiningum.

Hreint haf – Plast á norðurslóðum samþættir náttúruvísindi og samfélagsgreinar. Námsefnið er ætlað yngsta- og miðstigi og geta kennarar valið úr fjölbreyttum verkefnum sem öll eru tengd hæfniviðmiðum.

Nemendur læra á heildstæðan hátt um hafið. Efnið byggir á haflæsi (ocean literacy) og menntun til sjálfbærni.

Hvernig hefur hafið áhrif á líf okkar?
Hvernig höfum við áhrif á hafið?

Hafið hefur mikil áhrif á líf okkar og er mikilvægt fyrir allt líf á jörðinni. Við mannfólkið höfum líka mikil áhrif á hafið en neysla okkar og lífsstíll ógnar heilbrigði hafsins.

Við getum ekki verið án hafsins.

Líf eins og við þekkjum það gæti ekki þrifist án hafsins. Hafið leikur lykilhlutverk í hringrás vatns og svo kemur annar hver andardráttur sem við öndum að okkur frá hafinu, – helmingur þess súrefnis sem við öndum að okkur kemur frá örsmáum lífverum í hafinu sem heita plöntusvif. Við eigum hafinu mikið að þakka.

Haflæs manneskja gerir sér grein fyrir mikilvægi hafsins í lífi okkar og annarra lífvera á Jörðinni og vinnur að því að gæta að heilbrigði hafsins. Haflæs manneskja miðlar upplýsingum um hafið á áhrifaríkan hátt.

Helstu efnistök

Sérð þú hvar eitt haf endar og hvar annað haf byrjar? Hafið þekur um 71% yfirborðs jarðarinnar. Meirihluti lífvera (dýr, plöntur og fleira) býr í hafinu.

 

Plöntusvifið í hafinu andar að sér koltvíoxíði og andar frá sér súrefni. Helmingur súrefnis í andrúmsloftinu kemur frá þessum agnarsmáu lífverum.

 

Plast er sniðug uppfinning og hefur hjálpað mannfólkinu mikið. Vandamálið við plastið er hvernig við notum það og hversu mikið. Einnota plast er oft ónauðsynlegt og notað aðeins í skamman tíma.

 

Blautþurrkur, eyrnapinnar og drasl á ekki að fara í klósettið. Klósettpappír og líkamsvessar eins og piss, kúkur, blóð og gubb má fara í klósettið.

Fyrsta skrefið er að læra um hafið og hve mikilvægt það er. Svo er sniðugt að láta aðra vita og segja fullorðna fólkinu frá því svo að það hjálpi við að vernda hafið.

Hvað er menntun til sjálfbærni?

Menntun til sjálfbærni eykur færni og hæfni nemenda til að greina stöðu mála í umhverfi sínu og hafa áhrif.

Nemendur velta fyrir sér áskorunum sem blasa við mannkyninu og grípa til aðgerða.

Markmiðið er að skapa réttlátan heim og framtíð þar sem fólk hefur jöfn réttindi og tækifæri. Skapa framtíð þar sem ekki er gengið svo á auðlindir jarðar að þær þverri og nái ekki að endurnýja sig. 

 

Skólar á grænni grein hafa verið leiðandi á Íslandi í innleiðingu menntunar til sjálfbærni í 20 ár. Verkefnið er rekið af Landvernd, stærstu umhverfis- og náttúruverndarsamtökum hérlendis.

 

Hreint haf á Norðurlöndum

Hreint haf hefur verið þýdd á nokkur norðulandatungumál og er auk íslensku aðgengileg á dönsku, finnsku, færeysku, norsku (nýnorsku og bókmáli) og sænsku. Norrænar útgáfur eru aðgengilegar á Norden i skolen sem er frír kennsluvefur, sem gefur kennurum og nemendum á Norðurlöndum einstakt tækifæri til að vinna með fræðasviðin Mál og menning, Saga og samfélag og Loftslag og náttúra frá norrænu sjónarhorni. Efnið er öllum skólum opið án kostnaðar.

Um útgáfuna

Hreint haf – Plast á norðurslóðum samanstendur af rafbók og verkefnasafni og kennsluleiðbeiningum. Bókin er unnin í samstarfi Landverndar, Umhverfisstofnunar.
Útgáfan var styrkt af NordMar Plasticsformennskuverkefni Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2019.

Höfundurinn

Höfundur námsefnisins er Margrét Hugadóttir. Hún er náttúrufræðikennari með meistarapróf í fjölmenningarlegum kennsluháttum og hefur mikla reynslu af námsefnisgerð sem byggir á hugsmíðahyggju, menntun til sjálfbærni, leitarnámi og umbreytandi námi.

Áður gerði hún Hreint haf (2020), Vísindavöku, Skapandi skóli, handbók um fjölbreytta kennsluhætti (2017) Jörð í hættu!? (2016)

Aron Freyr Heimisson sá um hönnun og teikingar

Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allir nemendur öðlist nauðsynlega þekkingu og færni til þess að ýta undir sjálfbæra þróun, meðal annars með menntun sem er ætlað að efla sjálfbæra þróun og sjálfbæran lífsstíl, með því að hlúa að friðsamlegri menningu, með mannréttindum, kynjajafnrétti, alheimsvitund, viðurkenndri menningarlegri fjölbreytni og framlagi menningar til sjálfbærrar þróunar.

Heimsmarkmið 4.7
Scroll to Top