Á Íslandi eru til merkilegar tegundir lífvera sem finnast hvergi annars staðar í heiminum. Lífríki Íslands er einstakt og mikilvægt er að vernda fjölbreytni þess.

Verkefnið verður hluti af námsefninu Náttúra til framtíðar fyrir miðstig og tilheyrir Vistheimt með skólum.

Hér hafa fundist tvær tegundir grunnvatnsmarflóa, Þingvallamarfló Crymostygius thingvallensins og Íslandsmarfló Crangonyx islandicus. Þingvallamarflóin tilheyrir nýrri ætt sem finnst hvergi annars staðar á Jörðinni og aðeins sex einstaklingar hafa fundist. Íslandsmarflóin tilheyrir þekktri ætt marflóa en nákvæmlega þessi tegund finnst bara á Íslandi. 

Ævafornar lífverur

Erfðafræðirannsóknir sýna að Íslandsmarflóin hefur verið á Íslandi í um fimm milljónir ára. Á þeim langa tíma hafa ríkt 20 jökulskeið þar sem landið hefur verið meira eða minna þakið jökli í árhundruð. Flestar ef ekki allar aðrar núlifandi lífverur á Íslandi bárust hingað eftir síðasta jökulskeið, fyrir um 10-12 þúsund árum. Flóra, fána og funga landsins er því nokkuð ung sem og þau vistkerfi sem finna má á yfirborði landsins. Vist marflónna, neðanjarðar í grunnvatninu, myndar því skemmtilega andstæðu við hið unga yfirborð landsins. 

Marflær í grunnvatni

Um aldamótin 2000 fundust íslensku grunnvatnsmarflærnar nánast fyrir tilviljun. Fram að þeim tíma hafði þessi hópur krabbadýra eingöngu fundist í sjó við Ísland, og því fengið íslenska heitið marfló þar sem forskeytið mar- vísar til hafsins.

Aðlögun að lífi neðanjarðar

Grunnvatnsmarflærnar eru vel aðlagaðar að lífi neðanjarðar. Þær eru alveg hvítar og blindar og koma líklega aldrei uppá yfirborðið. Lítið er vitað um líffræði þeirra og fæðan lítt þekkt. Þó er talið líklegt að grunnvatnsmarflærnar skrapi örverur af hrauninu neðanjarðar og nýti sem fæðu. Þá hafa fundist bifdýr sem lifa að því er virðist í samlífi með marflónum. 

Einlendar tegundir

Tegund sem er einlend (e. endemic) er upprunaleg og finnst aðeins á einu tilteknu svæði og hvergi annars staðar. Grunnvatnsmarflærnar á Íslandi eru því einlendar tegundir á Íslandi, alveg eins og rauðkengúra er einlend tegund í Ástralíu.

Verkefni

 1. Teiknið upp tímalínu sem byrjar fyrir fimm milljónum ára. Setjið inn á tímalínuna eftirfarandi:
  • 5 milljón ár: Við vitum að íslandsmarflóin er á Íslandi (líklega er hún samt búin að vera lengur)
  • 2 milljón ár: Upphaf mannsins (ættkvíslin Homo)
  • 300.000 ár: Nútímamaðurinn (Homo sapiens) kemur fram á sjónarsviðið
  • 10.000 ár: Síðustu ísöld lauk á Íslandi
  • 1000 ár: Víkingar komu til Íslands
  • 200 ár: Iðnbyltingin hefst
  • 0 ár: Dagurinn í dag
 2. Af hverju heita grunnvatnsmarflærnar marflær fyrst þær búa ekki í sjó og eru heldur ekki flær? Eru þær kannski skyldar rækjum?
 3. Farið í leik þar sem þið þykist vera blind eins og grunnvatnsmarflærnar. Hvernig finna þær mat? Hvernig finna þær aðrar grunnvatnsmarflær? Verða þær einmana og hræddar? Hvernig er dagur í lífi þeirra? Verður þeim ekkert kalt á tánum í ísköldu vatninu?

Hvað er  lífbreytileiki og af hverju er mikilvægt að vernda og viðhalda lífbreytileika?

Verkefnið er unnið í samstarfi við Náttúruminjasafn Íslands. Hægt er að læra meira um grunnvatnsmarflærnar á sýningu Náttúruminjasafns Íslands Vatnið í náttúru Íslands í Perlunni.

Mynd: Íslandsmarflóin Crangonyx islandicus. Myndina tók Ragnhildur Guðmundsdóttir.